2006-12-13
Afhverju eru ekki 365 jólasveinar?
Hvað gerði það til þó við ættum 365 jólasveina? Við eigum pottþétt flesta jólasveina af öllum í heiminum og hvað gerir það til þó við myndum fjölga þeim aðeins... uppí 365 t.d.?
Það er nefnilega þannig að börnin mín eru aldrei stilltari en frá 11 des. til 24 des... Það er alveg sama um hvað maður biður, það er allt gert vöflulaust (er þetta ekki orð?), ekkert væl og suð eftir skóla o.s.frv.
Kannski gætu einhverjir mótmælt og sagt að þá yrði þetta bara vani og ekkert spennandi og börnin myndu ekki kippa sér upp við það að fá stöku kartöflu í skóinn... ég er bara ekki sammála því.
Það er ekki séns að jólasveinarnir muni það að barn hafi verið óþekkt 4 apríl á þessu ári og þ.a.l. þurfi hann að gefa kartöflu í skóinn fyrir jólin. Börn þurfa jú að vera þæg og góð allt árið þó að sveinarnir komi bara síðustu dagana fyrir jól. Það yrði miklu þægilegra ef þeir gætu bara gert þetta jafnóðum. Hvernig meta þeir svo hvort börnin hafi verið góð eða óþæg yfir árið í heildina? Ef þeir geta ekki einu sinni munað hvort viðkomandi hafi verið góður eða óþægur 4 apríl? Eru þeir með eitthvert tölvukerfi yfir þetta? Hvað gerðu þeir þá þegar ég var lítill? Ekki var svo mikið til af tölvum þá... og þær vélar sem til voru á annað borð voru á stærð við Esjuna og ekki séns að þeir hefðu geta haft hana heima hjá sér (fyrir utan að þessar tölvur hefðu ekki einu sinni getað haldið utan um allan þennan lista sem vinna þarf eftir).
Svo er það kartaflan... afhverju eru jólasveinarnir að hafa fyrir því að drösla öllum þessum kartöflum til byggða (fyrir utan að kartöflur eru bara mjög góðar)? Afhverju sleppa þeir ekki bara að gefa óþekktarormunum í skóinn... það er miklu meiri refsing og pokar sveinanna yrðu miklu léttari.
Þ.
Athugasemdir
akkúrat hef lent í því að sveinki gaf mínum börnum kartöflu í skóinn og hvað heldur þú að þau hafi sagt vei við fengum kartöflu.
og svo komu þau og sögðu pabbi við viljum kartöflu í morgunmat og ég semsagt hefði þurft að sjóða kartöflurnar ef mér hefði ekki tekist að tæla þau með meira spennandi mat þann morguninn orðinn alltof seinn fyrir kartöflu suðu.
Dóri (IP-tala skráð) 20.12.2006 kl. 11:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.