2006-12-18
Jólaundirbúningur í fullum gangi...
Það er mikið að gera á litlu heimili... örugglega jafnmikið og á stóru ef ekki meira. Mikið er lagt uppúr því að gera allt klárt fyrir jólin og enn meira lagt uppúr því að koma öllum í rétta jólaskapið. Málið er bara að þetta tvennt helst eiginlega ekki vel í hendur vegna þess að eftir því sem maður undirbýr meira, því minni tíma hefur maður og eftir því sem maður hefur minni tíma, því stressaðari verður maður og því stressaðari sem maður verður, því fúlari verður maður í skapinu og þegar maður er orðinn fúll þá er erfitt að finna jólaskapið. Maður verður því að finna hinn gullna í þessu sem og svo mörgu öðru.
Undirbúa mátulega þ.a. nægur tími sé til að komast í jólaskapið. Það er ekki hægt að sleppa undirbúningnum alveg því margt í honum er forsenda þess að komast í jólaskapið. Það þarf að kaupa gjafir handa öllum, það þarf að vera tiltölulega hreint heima fyrir, það þarf að vera búið að setja upp nokkrar seríur svo dæmi séu tekin... það þarf hins vegar ekki að hanga í Smáralindinni til 22 öll kvöld, það þarf ekki að baka 11 sortir í tímastressi (alltíkey ef nægur tími er), það þarf ekki að mála barnaherbergið... jólin koma þó við gerum þetta ekki.
Svo má ekki gleyma sílunum... þau eiga nú að njóta þess að vera spennt og þau eiga að njóta þess að skreyta og mála piparkökur. Það er ekkert gaman ef það þarf að gera það allt saman á 10 mínútum af því að pabbi þarf að flýta sér í Kringluna og kaupa eitthvert drasl. Það er heldur ekki eins gaman ef mamma og pabbi 'þurfa' að undirbúa allt saman og sílin fá ekki að vera með og fá það bara á tilfinninguna að þau séu fyrir. 'Æ - farðu bara að horfa á Pétur Pan eða eitthvað, ég þarf að klára að undirbúa'... hvað heldurru að það sé gaman svona rétt fyrir jólin?
Ef það er eitthvað sem þú getur ekki gert með krakkana hangandi yfir þér - uppfull af hjálpsemi - gerðu það þá þegar þau eru farin að sofa. Annars mæli ég með því að virkja sílin í hin ýmsu störf, þó það sé ekki annað en að halda á seríublöðkunum, eða rétta þér jólakúlurnar sem þú ert að hengja út um allt hús, sækja kaffi (mjög gott fyrir 6-10 ára) og svo sérstaklega hafa þau gaman að því að skreyta jólatréið. Ef skrautið fer ekki hærra en 110 sm. þá er það allt í lagi... það má hafa það þannig eða laga það þegar börnin eru farin að sofa...
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.