2009-10-06
Það er þetta með snjóinn
Í gærmorgun átti ég í rökræðum við Spiderman I um snjó. Af því að það var kalt og af því að það var ísing á bílnum þegar við lögðum af stað, þá var hann alveg viss um að snjórinn kæmi. Ég var að reyna að segja honum að við þyrftum kannski að fylgjast aðeins með veðurfréttunum til að fá hugmynd um hvort eða hvenær snjórinn kæmi, því þó það væri kalt og þó það væri ís á bílnum væri nú samt ekkert víst að það kæmi líka snjór. En nei hann var harður á því að snjórinn kæmi þennan sama dag og takið eftir því að við vorum að ræða þetta í gærmorgun!!
Skemmst er frá því að segja að Spiderman I hafði aldeilis rétt fyrir sér og það þarf ekki að taka fram að hann var frekar kátur með þetta allt saman. Ég rétt náði að draga hann inn í kvöldmat rúmlega 1900 og þá var hann búinn að vera sleitulaust úti frá því að hann kom úr leikskólanum. Það þarf heldur ekki að taka fram að drengurinn var alsæll, búinn að fara í snjókast með félögunum og sjálfsagt hafa þeir gert einhver prakkarastrik líka, eitthvað sem maður fær ekki að heyra af... Vona bara að mér hafi tekist að kenna honum að borða ekki gula snjóinn.
Skvísan er nú ekkert minna hrifin af snjónum, þó hún sé orðin svo mikil skvísa að það tekur 40 mín á morgnana að velja sér föt. Hún er orðin hættulega 'pikkí' á það sem hún vill vera í og það er ekki alltaf nákvæmlega sama dress og mamma hennar hefði kosið en sá gamli lætur sér yfirleitt fátt um finnast. Það er helst að hún er ekkert endilega að velja föt eftir veðri og vindum og getur valið hnausþykka galla í sól og blíðu en helst ekkert nema pils þegar frost og snjór eru úti. Ætli hún verði þá ekki bara að læra það 'ðe hard vei' að stundum þarf maður að taka tillit til hitastigsins við val á klæðnaði. Það vona ég allaveganna.
Spiderman II gerir ekkert annað en að stækka og þroskast. Hann heldur orðið sæmilega haus þó að maður sé kannski ekki farinn að stilla honum upp í setstöðu alveg sjálfum. Hann lætur sér fátt um finnast um snjóinn en það kemur örugglega fyrr en mann grunar.
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.