Uppvask - hádegismatur - vinnan

Ég vinn á fremur fámennum en góðmennum vinnustað. Stundum er farið út að borða í hádeginu en oftast er gúrme-hlaðborð í litla eldhúshorninu. Þá smyr maður sér brauð með alls kyns áleggjum sem maður kaupir aldrei sjálfur, blandar saman með tsíllí mauki eða relish og borðar með bestu lyst. Stundum er meira að segja mysingur (sem er snilld). Þessa dagana eru konurnar í sumarfríi og það er ekkert til í eldhúsinu... rosalega er maður ósjálfbjarga þegar maður hefur ekki konur í kring um sig. Þetta var allt í lagi þegar það unnu engar konur hér, þá vissi maður ekki betur. Eftir að þær byrjuðu hefur alltaf (nánast) eitthvað verið til í ísskápnum - nú eru þær í fríi og það er ekkert í ísskápnum. Ég verð því að pína mig út í hádeginu.

Konum fylgir líka skipulag. Þær skiptu okkur í hópa sem skiptast á að vaska upp í litla eldhúsinu. Það er fyndið að fylgjast með þessu... konur vaska upp jafnóðum eftir hverja máltíð, þá safnast þetta ekki upp og verður auðveldara fyrir vikið. Við karlarnir (erum saman í liði) söfnum nokkrum dögum saman og sláumst svo um það hver eigi að vaska upp þegar það sést ekki lengur í vaskinn fyrir óhreinu leirtaui (eða öllu heldur þegar ekki eru til fleiri diskar og glös).

Aftur að Rússlönu. Ég átti að fara til Nizhniy Novgorod í vor en það datt upp fyrir. Ég var dálítið svekktur en núna er ég rosalega kátur. Ég var að heyra í þeim sem fékk þetta verkefni, hollenskur samstarfsmaður (svona á ská), og hann er ekki að meika þetta. Það talar enginn ensku í NN, það er ekkert heitt vatn í NN, það eru biðraðir út um allt og það er ekkert um að vera í NN og hann þarf að fara aftur í haust.

Þ.


Sumarfrí no.1

Kominn aftur. Skrapp í rúmlega 2ja vikna sumarfrí. Rosalega er gott að vera í fríi. Afhverju er ekki alltaf frí?? Ég ætla svosem ekki að kvarta, fer aftur í frí eftir rúmar 2vær vikur... rosalega verður gott að komast aftur í frí. Strákurinn er ekki alveg að kaupa að ég sé farinn í vinnuna, var farinn að venjast pabba sínum heima. Hann heldur að ég sé í bílskúrnum að vinna...

Við lögðum land undir fót í fríinu og fórum norður í land. Ótrúlegt hvað veðrið stjórnar manni, sérstaklega þegar það er búið að vera eins og það er búið að vera. Ekki það að við vorum búin að plana þessa ferð fyrir löngu en það var auðveldara að pakka í bílinn og keyra í 4-5 tíma vitandi að veðrið var betra á hinum endanum. Það er fullt af fólki sem hreinlega flýr land þessa dagana. Mamma dróg manninn til Svallorka (eða var það öfugt) til að fá smá yl í kroppinn, að sjálfsögðu bað ég fyrir kveðju til góðvinar míns, hótelstjórans á Royal Magaluf... (allt önnur saga og reyndar miklu skemmtilegri).

Heimleiðin að norðan snérist um það að ná úrslitaleiknum kl 18. Það hefði tekist með stæl ef ekki hefði verið fyrir umferðarteppu dauðans... ég var 2 tíma frá Borgarnesi í bæinn. Maður var nú orðinn frekar fústreraður í röðinni og ekki bætti úr skák að heyra lýsingarnar af leiknum í útvarpsfréttum... hvað var ég að spá??

Þ. 

 


17 júní - afmæli - tiltektardagur í götunni - aðrar framkvæmdir

17 júní skall á með blíðu. Hitastigið rauk yfir 10 stig fyrir hádegi og spenningurinn var mikill í litla fólkinu á heimilinu. Rúmlega hádegi og stutt í skrúðgöngu - og hvað haldið þið? - það byrjar að rigna. Svona á 17 júní að vera! Allaveganna, við drifum okkur af stað og það var eins gott því skrúðgangan var rigningarlaus og það var ekki fyrr en á skemmtuninni á Víðistaðatúni að manni fór að verða pínu kalt. Við tórðum nú ekki alla dagskrána en enduðum í mat hjá tengdó - grillað læri - sem var snilld. Tilefni matarboðsins var 38 ára brúðkaupsafmæli og 40 ára trúlofunarafmæli... Til hamingju með það tengdó. Það munaði reyndar litlu að ég hefði klúðrað öllu saman því ég stóð vaktina á grillinu og það er ekkert grín að vera með 2vö læri á grillinu og reyna að horfa á Ísland - Svíþjóð, eins spennandi og sá leikur var. Frábært að komast á HM, en það hefði verið skemmtilegra að vinna seinni leikinn líka.

18 júní skall á með blíðu. Hitastigið rauk yfir 11 stig fyrir hádegi. Held að sumarið sé bara komið! Það stóð mikið til. Allir íbúar Fífuvalla höfðu látið gabbast og ætluðu að tína rusl í hrauninu allan daginn (frá 1400). Ég byrjaði daginn á að klára einn lítinn verkamannapall fyrir framan þvottahúsið en hljóp svo út í hraun með svartan ruslapoka að vopni. Það voru hinir ótrúlegustu hlutir sem menn drógu upp úr hrauninu, ísskápur, rúm með laki, sjónvarp, 50 ára gömul gaddavírsrúlla og einangrunarplast sem dugar til að einangra meðalstórt einbýlishús, var meðal þess sem dregið var úr gjótum. Krakkarnir höfðu nóg að gera því þegar þolinmæðin brast í tiltektinni var hægt að drepa tímann í heljarmiklum hoppukastala sem komið hafði verið fyrir við enda götunnar. Tiltektin endaði svo í grillpartýi mill 17 og 19. Árangur tiltektarinnar var ótrúlegur.

Þ.


Íslenska sumarið er ekki að gera góða hluti þessa dagana...

Veðrið er að gera alla sturlaða í kringum mig. Það er ekkert eðlilegt hvað veður getur haft mikil áhrif á mann. Veðrið eins og það er núna og eins og það er búið að vera undanfarið býður ekki upp á neitt. Það er ekki hægt að slappa af, það er ekki hægt að stunda áhugamálin, það er ekki hægt að henda krökkunum út í garð, það er ekki hægt að ditta að húsinu eða vinna í garðinum og það er erfitt að einbeita sér að HM því öll famelían þarf að vera inni. Það er meira að segja of blautt til að fara í sund...

Svona rigningar og rok sumar hentar vel annað hvert ár fyrir þá sem hafa áhuga á fótbolta (HM og EM) EF þeir eiga ekki konu (mann) og börn sem ekki hafa áhuga á fótbolta. Þá má heldur ekki hafa nein önnur útivistaráhugamál (s.s. golf) sem þarf að stunda milli leikja.

Svona rigningar og rok sumar hentar vel fyrir þá sem eru að vinna inni á sumrin og eiga ekki sumarfrí eða taka sumarfríið sitt á afbrigðilegum og illa skipulögðum tímum og hafa áhuga á fótbolta og þurfa ekki að fá útrás á golfvellinum.

Svona rigningar og rok sumar hentar mér ekki.

Rosalega held ég að flugfélög og ferðaskrifstofur séu að gera góða hluti þessa dagana. Maí var kaldur og hvass og júní er ekki að fara vel af stað - fólk hlýtur að vera að endurskipuleggja fríin sín. Þeir sem ætluðu að njóta íslenska sumarsins eru örugglega farnir að skoða ferðabæklinga. Annars man ég eftir að hafa heyrt því fleygt að besta söluveðrið fyrir sólarlandaferðir sé sól og blíða, það á að kveikja í liðinu og fá það til að vilja meira... sel það ekki dýrara.

Þ. 


Bæði rosalega góður og rosalega lélegur - Aldrei annað hvort...

Það er búið að vera mikið að gera undanfarna daga. Ég þurft að sitja mikið fyrir framan sjónvarpið og einbeita mér að knattspyrnu. Þetta er ekki eins auðvelt og margir halda. Konan mín hefur sýnt mér fádæma tillitsemi við þessa íþróttaiðkun mína en ég hef líka reynt að taka þátt í heimilisstörfum og uppeldi milli aukaspyrna og innkasta. Stærri verk eru unnin milli leikja og í lok leikdags...

Í gær var golf með EBA og TOS. Fyrsti 18 holu hringurinn síðan ég veit ekki hvenær árs 200X. Stutta spilið og púttin um daginn hafa sennilega verið slembi-lukka, því það datt ekkert í gær. Ég átti reyndar ágætis upphafshögg nánast allan hringinn en brautarhöggin eru sem fyrr ekki að detta fyrir mig nema í ca annað hvert skipti. Ég er ekki auðskilinn golfari, ég get sprengt 3 holur í röð og dottið svo inn á pari (eða þar um bil) á næstu holu. Ég get líka átt ömurleg högg alla leið að flöt og sett niður löng pútt eða smellt innáhöggunum þétt að pinnanum. Ég get líka átt frábær högg og verið inni á flöt í 2-3 höggum en þá þarf ég oftast 3-4 pútt. Það er enginn stöðugleiki í spilamennskunni, hvort heldur sem er slæm spilamennska eða góð. Ég get aldrei verið rosalega lélegur allan hringinn eða rosalega góður allan hringinn.

Þ.


Stutta spilið í lagi en sveiflan í rugli...

Golf í gær... Rosalega er ég mismunandi góður... Spilaði 12 holur (byrjaði svo seint), hraunið, 10, 11 og 18 á Hvaleyrinni. Ég átti eitt vel heppnað upphafshögg (ef par 3 holurnar eru undanskildar), örfá heppnuð brautarhögg en ertu að grínast með stutta spilið... Innáhöggin voru þvílíkt að dansa og púttin duttu hver á fætur öðru... ég var bara fúll ef ég þurfti að tvípútta. Þeir sem til þekkja vita að æfingar og spil hafa farið fyrir ofan garð undanfarin misseri og því kom það mér á óvart að á þessum 12 holum náði ég 20 pkt, þrátt fyrir að vera með 10 högg á 3 holum... Ég skulda reyndar 2 bjóra eftir þennan hring - því eins og ég segi þá voru upphafshöggin ekki að gera sig. Ég er hræddur um að ég þurfi að lauma mér á æfingasvæðið í hádeginu næstu vikurnar.

Næsta mánuðinn verður maður reyndar bara í kvöld-golfi (þegar tækifæri gefst) þar sem HM verður að hafa forgang. Rosalega er ég búinn að hlakka til þessa móts. Ég geri svo sem ekki ráð fyrir að mikið verði um óvænt úrslit, en eftirfarandi liðum spái ég upp úr riðlakeppninni:

  • Þýskaland
  • Pólland
  • England
  • Svíþjóð
  • Holland
  • Argentína
  • Portúgal
  • Íran
  • Ítalía
  • Bandaríkin
  • Brasilía
  • Japan
  • Frakkland
  • Suður-Kórea
  • Spánn
  • Úkraína

Sagði konunni að ég ætlaði að reyna að koma snemma heim úr vinnunni í dag... hún var rosa kát... þangað til hún fattaði að opnunarleikurinn er kl 16

Þ.


Hvernig var helgin hjá þér?

Annasöm og löng helgi... Að sjálfsögðu var haldið áfram með garðinn og nú er búið að gróðursetja tré, rabbabara, graslauk og fullt af drasli sem ég veit ekki hvað er... Enn er verið að selflytja mold milli landshluta og hlaða grjótveggi fyrir steinabeðin...

Annars var þetta tiltölulega róleg helgi með famelíunni, quality bíóferð með konunni (DaVinciCode) og djamm með strákunum...

Djammið var snilld. Ég, EB og PG enduðum á snæðing á Oliver sem hlýtur að vera vinsælasti staðurinn í bænum... ég veit það ekki því ég er nú ekki þekkt andlit í skemmtanalífinu (sem helgast af því að ég fer kannski einu sinni á ári á djammið). Allaveganna, staðurinn mökkfylltist skömmu fyrir 2400 og þegar ég var að fara rúmlega 0200 þá þverfótaði ekki fyrir liði... EN hvað er með plötusnúða landsins... gamla diskó-ið að tröllríða öllu, Raining Men, YMCA, WHAM (þá erum við að tala um báðar plöturnar), Pulp Fiction albúmið eins og það lagði sig... við biðum bara eftir 20 mín laginu með Meat Loaf... það hefði fullkomnað kvöldið - skemmti mér konunglega þó ég hafi ekki verið jafnáberandi á dansgólfinu og ég var hérna fyrir 10 til 15 árum (sjitt ég er orðinn gamall)

Þ.


Engin Ruslana...

Nú er búið að ákveða að ég fer ekki til Rússlands. Of mikil óvissa og kúnninn ekki alveg með á hreinu hvað hann vill hvað tímasetningar varðar... Eva verður því ein í Rússlandi. Auðvitað er það pínu svekkjandi en á móti kemur að ég hefði sennilega lítið séð af Moskvu því fyrirtækið sem ég átti að vinna fyrir er staðsett einhvers staðar út í sveit. Reyndar fer tvennum sögum um það hvort það sé staðsett í Volgograd (gamla Leníngrad) um 1000 km suður af Moskvu, eða um 400 km beint í austur nálægt stað sem heitir Nishny Novgorod. Þetta lýsir því kannski best hversu mikið við höfum í höndunum um verkefnið. Auðvitað hefði það reddast...

Í framhaldi af þessu get ég einbeitt mér að garðinum, HM og golfi í sumar Ullandi snilld.

Þ.


Hittingur í dag og Ruslana eftir helgi...

Slúður-löns var haldinn á Horninu í dag kl 1200. Reyndar var óvenju lítið um slúður en það var fyllt upp í með gömlum sögum sem hægt er að hlusta endalaust á. Mættir voru EBA, PG, TOS, ÞS og ÞS. Aðrir sem ekki mættu voru fjarverandi...

Reyndar átti Lönsinn að vera á Vitabar, þ.s. bestu börgerarnir í bænum fást, en það var ekki nógu fínt fyrir suma þ.a. menn sættust á Hornið. Það er nefnilega þannig að sumir okkar eru sveitamenn og ruddar en aðrir pempíur og kerlingar...

Nóg um það... 

Það stefnir allt í það að ég sé á leið til Rússlands á mánudaginn eftir helgi. Það er reyndar margt enn óráðið með þessa ferð, eins og t.d. það að ekki er enn komin staðfesting á að ég fari. Verkefnið er fyrir fyrirtæki sem statt er í kringum Akureyri þeirra Moskvu-manna (ca. 4-5 tíma keyrsla úr bænum). Ég held enn í vonina um að fá að vera í höfuðstöðvum hugbúnaðarrisans Korus í Moskvu en þurfi ekki að ferðast mikið um sveitir landsins. Eins og planið var þá vorum við 2vö á leiðinni út í sitthvort verkefnið. Eva vinkona er reyndar farin og búin að leggja línurnar, finna resturant með enskum matseðli osfrv. Henni var plantað í ágætis blokkaríbúð nálægt fyrirtækinu sem hún er að vinna fyrir. Það virðist vera allt til alls, nema ef vera skildi af heitu vatni. Eins og ég segi þá veit ég ekkert hvort ég verð í Mokvu eða á Akureyri en vonandi verður ekki langt á milli okkar þarna úti því það er ömurlegt að hanga einn í útlandi þ.s. maður skilur engann og ekki einu sinni matseðilinn... en það reddast náttúrulega á endanum.

Það er reyndar meiriháttar mál að koma sér þarna út. Fyrirtækið úti þarf að vinna einhverja pappírsvinnu og til þess þurfti ég að senda skannaðar myndir af passanum mínum, svo þurfa þeir að senda allt klabbið til sendiráðs Rússlands í Reykjavík, þar kemur maður og fyllir út umsókn, sýnir passann, skilur eftir mynd og borgar í seðlum til að fá vísa - seðlar er það eina sem dugar. Veit ekki hvort það sé vísir á það sem koma skal en Babúskan í afgreiðslunni (ég er ekki að grínast) hún lagði mikið upp úr því að borgað yrði með reiðufé??

Skrifa nú kannski meira um þetta þegar nær dregur og að sjálfsögðu þegar ég verð kominn út. Það eru ekki margir sem ég þekki sem hafa ferðast þarna austureftir.

Þ.


Helgi Sig...

Helgin afstaðin... rosalega þétt dagskrá

Föstudagur eftir vinnu fór í að sækja mold, tvær kerrur. Mold er ekki gefins á Íslandi skal ég segja ykkur fyrir utan það að ég þarf að keyra alls um 40 km heiman frá mér og heim með moldina.

Laugardagurinn fór í það að sækja meiri mold, þrjár kerrur. Svo þurfti að moka fyrir beðum og allt á milljón í garðinum... Gáfum okkur tíma til að kjósa í Hafnarfirðinum og endaði svo dagurinn í afmælis/kosningavöku hjá mági mínum sem stóð fram eftir nóttu.

Sunnudagurinn var rosalegur veislulega séð. Byrjuðum í 5 ára afmæli hjá Andra Má vini okkar í hádeginu - að sjálfsögðu var boðið upp á grillaðar pullur með öllu - snilld. Alltaf jafngaman að detta í afmæli... og af því að það er svo gaman þá fórum við í afmæli hjá afa Jóni beint á eftir og duttum í kaffi og pönnsur. Til að kóróna svo daginn enduðum við í grillveislu hjá Sólu frænku. Rosalega er grilluð gæs góð... mæli með því...

Þar sem ekkert var farið í garðinn í gær þá er líklegt að ég verði í honum eftir vinnu næstu daga... en það hlýtur að reddast.

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband