2006-08-31
Verð að vera með...
Þetta 'RockStarSupernova / Magna' æði er frábært. Svona á að gera þetta. Þegar Íslendingar þurfa aðstoð þá er alveg ljóst að það er hægt að treysta á hina tvöhundruðnítíuogáttaþúsunþrjúhundruðfjörutíuogfimm Íslendingana (eða hversu mörg erum við?).
Ég var nú aðeins að fylgjast með umræðunni í gær og það var ekki lengi að hvissast út að hægt væri að kjósa langt fram yfir hádegi með því einu að breyta tímabeltinu og klukkunni í tölvunni sinni - há stjúpid is ðat? Ekki nóg með það að menn gætu kosið fram eftir degi heldur höfðu einhverjir snillingar búið sér til macro sem gerði það að verkum að tölvan kaus fyrir þá stanslaust allt frá á 5 sec fresti og upp í 60 sinnum á mín - ALLA nóttina... Atkvæðagreiðslan í þættinum tvöfaldaðist frá fyrri viku svo annað hvort gekk þetta upp eða kannski eru svo fáir sem horfa á þennan þátt og kjósa í útlandinu að hópefli Íslendinga hefði dugað til þó ekki hefði verið 'svindlað'. Reyndar skilst mér að Ástralir hafi verið að dunda sér undanfarnar vikur við að breyta tímabeltunum hjá sér til að geta kosið Toby lengur og oftar, enda kom það mér ekki á óvart að hann hafi verið með næst flest atkvæðin í gær...
Tær snilld - finna göt í kerfinu og nýta sér það - líka gott að vera ekkert að blaðra um þessa sjálfkjósandi macroa á öðrum tungumálum en íslensku á veraldarvefnum... bara svo að Ástralir fari ekki að apa það eftir okkur...
Það var reyndar annað í gær og það atriði fór rosalega í pirrið á mér, auglýsingar. Auðvitað þarf að auglýsa og auðvitað þarf skjárinn að græða eitthvað og það þarf auðvitað að fylla inn þegar auglýsingar eru í kanaTVinu en í tvígang í gær skellti skjárinn auglýsingum inn áður en atriðin voru búin og það pirraði mig... svo ég tali nú ekki um hel*** KFC auglýsingarnar - sjitt hvað þær fara í nervið á mér.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
2006-08-29
Margt fyrst og sumt síðast
Það er rosalega mikið um 'í fyrsta skipti' og 'í síðasta skipti' þessa dagana hjá fjölskyldumeðlimunum á Fífuvöllum.
Yrsa var að fara í fyrsta skipti í skólann í dag. Skvísan að byrja í 6ára bekk. Rosalegur spenningur í gangi og ég veit að hún á eftir að njóta þess í botn að vera loksins komin í skóla. Reyndar er margt skrítið, t.d. hvað innkaupalistann hennar fyrir skólann varðar... til dæmis þarf hún að koma með 2vö stór límstiffti... afhverju 2vö? á að nota bæði hægri og vinstri?
Ég fer í síðasta skipti í vinnuna mína hjá Nobex á fimmtudaginn og í fyrsta skipti í nýju vinnuna mína hjá Applicon á föstudaginn. Töluverð breyting en ég hlakka til að prófa eitthvað nýtt. Auðvitað á ég eftir að sakna vinnufélaganna og alls eineltisins sem ég hef orðið fyrir undan farin 3jú ár... en það reddast.
Þráinn fer í fyrsta skipti á leikskólann sinn á þriðjudaginn næst komandi og vonandi fer hann fljótlega þar á eftir í síðasta skipti til dagmæðranna. Hann fékk að fylgja systur sinni í morgun í skólann og var ekki minna spenntur... reyndar laumaði hann sér inn í röðina og ætlaði með henni inn. Það verður rosalega gott fyrir hann að komast í leikskólann.
Semsagt, einhvern tíma verður allt fyrst og í kjölfarið verður það síðast einhvern tíma síðar...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-08-24
Skólamálahugleiðsla
Ég er rosalega 'pisst' þessa dagana út í allt sem tengist skólamálum barnanna minna.
Við erum í nýju hverfi með nýjum skóla sem vitað var að yrði ekki tilbúinn þegar skólar áttu að hefjast í haust. Það er eitt að vera 'pisst' út í iðnaðarmenn að þeir skili ekki á tilsettum tíma, maður gat alveg sagt sér það, nýbúinn að byggja sjálfur og svona fyrir utan að skólinn rís fyrir utan gluggann heima hjá mér....
Hitt er verra. Stelpan er 6 ára og þið getið ímyndað ykkur spenninginn sem búinn er að vera í allt sumar. Það er ekki búið að tala um annað. Rétt fyrir skólabyrjun fengum við að vita að skólanum yrði frestað um viku... ok... setning átti að fara fram á tilsettum degi og börnunum var lofað leikjanámskeiði þá 3 daga sem enginn skóli yrði. Konan eyddi miklum tíma í að reyna að ná tali af einhverjum við skólann til að fá upplýsingar um hitt og þetta og endaði á að ná í einhvern hjá skólaskrifstofunni sem staðfesti það við hana að setningin yrði. Setningardagurinn rann upp og skvísan svo spennt og montin að vera að fara að byrja í skólanum... EN nei - þegar komið var á staðinn kom í ljós að það var ENGIN setning fyrir 6 ára. Ertu ekki að djóka? Það er ekki setning fyrir árganginn sem er að byrja fyrsta árið sitt í skólanum og fyrir foreldra þeirra sem hafa engar upplýsingar um eitt eða neitt. Hugsunin var að krakkarnir með foreldrum skyldu mæta fyrsta skóladaginn í 15-20 mín viðtal og annan daginn yrði skóli skv. stundaskrá. En hvað um allt hitt sem maður hefur verið að heyra frá foreldrum eldri barna í götunni? Hvað á stelpan að hafa með sér fyrsta daginn (fyrir utan stílabækurnar á innkaupalistanum)? Hvað með fyrirhugaða skólabúninga? Hvað með hitt og hvað með þetta? Á maður bara að redda því á mánudaginn eftir kl 1600 (viðtalið okkar er á mánudaginn kl 1530) og skólinn byrjar 0800 á þriðjudegi? Hvað með frístundaheimilið eftir skóla?
Fyrir utan hvað þetta er allt fáránlegt þá munaði ekki miklu að heimurinn hryndi hjá skvísunni...
Svo er það leikskólinn fyrir strákinn. Hann átti að hefjast um miðjan ágúst. Leikskólinn er sambyggður skólanum og iðnaðarmennirnir eru ekki komnir lengra með hann. Það er enginn leikvöllur kominn. Frestun. Svo átti að mæta í aðlögun 1. sept. Frestun. Nú á að mæta í aðlögun 5. sept. Ætli það komi ekki frestun?? Strákurinn fær inni hjá dagmömmunum sem hann var hjá í fyrra, bara til að redda okkur... hann er lang lang elstur og fær ekki þá örvun og athygli sem hann á skilið og sem hann þarf, eins virkur og hann er... Ekki það að þessar dagmömmur eru yndislegar og vilja allt fyrir hann gera.
Það er eins gott að þetta reddist
Djö... er ég 'pisst'
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-08-21
Búið
Sumarfríið er búið...
Ég er að skríða í vinnuna á morgun þó að ég væri nú alveg til í að vera lengur í fríi... það er merkilegt með þessa vinnu hvað hún slítur sundur fríin hjá manni.
Endaði fríið á góðu golfmóti Landhelgisgæslunnar sem haldið var á nýja vellinum við Geysi. Árangurinn var nú ekki merkilegur nema ef fjöldi týndra bolta er árangur - þá var ég góður. Þetta er ansi skemmtilegur völlur og mjög krefjandi, þrongur, með rosalegasta lyng/kjarr röffi sem ég hef séð... og ég sá mykið af því. Þar að auki liggur á og einhverjar sprænur út frá henni, við hlið eða í gegnum nær allar brautirnar. Það er gaman að spila þarna þó þetta séu bara 9 holur og ég mæli eindregið með því. Eftirfarandi þarf þó að hafa í huga:
- hafa nægan tíma því þetta verður rosaleg leit
- hafa nóg af boltum því þú átt ekki eftir að finna einn einasta
- spila með járnunum og sérstaklega ef þú ert ekki ALLTAF beinn með driver eða trjám
- fá sér súpu og salat í skálanum
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-08-18
DK og K2
Kæru lesendur, ég er kominn aftur... búinn í fríi eða því sem næst.
Margt merkilegt og skemmtilegt dreif á daga mína í Köben...
- í fyrsta lagi fengum við sumar, hitastig að mestu um 25 og sól
- tívolí (2var) þar sem tækin voru þrædd fram og aftur
- Den Zoologiske have
- götur bæjarins þræddar fram og aftur með og án leiðsagnar
- vinir heimsóttir og vinir í heimsókn
- afslöppun í garðinum
- bjór og t og nóg af því
- hjólatúrar um Gentofte og Lyngby á Christiana-hjóli og börnin í kassanum
- steikur grillaðar og út að borða
- snilldin eina
Það merkilegasta var að karlinn endaði á línuskautum (K2) og skautaði um allt. Einu mistökin voru að kaupa ekki allar hlífarnar í fyrstu atrennu... fyrsta ferðin út úr götunni endaði náttúrlega á hausnum úti á miðri umferðargöt með risa flakandi sár á olnboganum því það voru hlífarnar sem ég sleppti... snillingur.
Konan talar um gráa fiðringinn af ódýrari gerðinni. Ekki sportbíll og demantseyrnalokkur í annað... meira hjólaskautar og sólgleraugu...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2006-07-27
24.04.1950 - 16.07.2006
Var við jarðarför í gær.
Jarðsunginn var Árni Heimir Jónsson, fyrrum kennari minn við Menntaskólann í Reykjavík.
Vil hér með votta þessum góða manni virðingu mína og samúð til handa öllum þeim sem næst honum stóðu.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-07-25
Missi mig alltaf í sama farið...
Djö*** rosa bumbu er ég kominn með. Sumir verða nú kannski ekki hissa á þessari yrðingu því ég er og hef kannski ekki verið sá nettasti. Núna er vigtin í 93, sem er kannski ekki stórmál fyrir suma, en ef þú ert bara 180 á hæð þá er um færri sentimetra að ræða til að dreifa þyngdinni á... Reyndar verð ég að telja mér það til tekna að í gegnum tíðina hefur verið ansi þungt í mér en fyrr má nú vera. Ætli ég sé ekki góður í 80-84 þ.a. það er ærið verkefni fyrir höndum. Ég er nú samt alltaf að hugsa um mataræðið og hreyfinguna en gengur illa að framfylgja hugsunum mínum. Ef mér tekst vel til 1-2 daga í röð með hollt og gott mataræði, engin sætindi og jafnvel einhverja hreyfingu, þá er ég dottinn í sama farið um leið. Þetta er eins og að hætta að reykja, það er ekkert mál að hætta að reykja... það er bara erfiðara að byrja ekki aftur!
Ég ætlaði að vera svo nettur í sumarfríinu - en nei ekkert varð úr því og núna er konan farin að tala um það opinberlega að þurfa að senda mig á námskeið hjá einhverri líkamsræktarstöðinni. Man ekki hvort það var 6 vikur eða 6 mánuðir sem þetta námskeið átti að standa yfir, gildir einu. Það á samt ekki að senda mig á námskeiðið fyrr en í haust, ætli það þurfi ekki að nota mig við húsasmíði og garðrækt þangað til og hún vill örugglega ekki gera útaf við mig fyrr en því er lokið að mestu?
Mér leiðist þrennt hvað líkamsrækt varðar og það eru útihlaup, sund og lyftingar... geri ráð fyrir að það sé allt innifalið í þessu námskeiði. Sund er sérstaklega leiðinlegt, maður fer frekar hægt yfir og svo getur maður bara farið fram og til baka... skil þetta ekki...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-07-24
Tjaldútilegur - merkilegt fyrirbæri
Fór í útilegu um helgina. Skyndiákvörðun sem varð til þess að rétt um hádegi á laugardag brunuðum við úr bænum og tókum stefnuna á suðurlandið. Við enduðum svo að Skógum og tjölduðum undir Skógarfossi í mögnuðu umhverfi. Ég hélt reyndar að ég yrði sí-mígandi við það eitt að hafa fossniðinn í eyrunum allan tímann en það slapp nokkuð vel. Það vildi svo skemmtilega til að tengdó var að veiða í ánni og því fengu krakkarnir tækifæri á að sjá afa sinn fiska nokkrar bleikjur og þau fengu líka að landa - einni eða tveim sem þeim þótti ekki leiðinlegt.
Merkilegt þetta með tjaldútilegur. Maður þarf að bograst um og róta í töskum, maður þarf að klæða sig betur en venjulega, maður sefur í nágrenni við alls konar fólk (sem jafnvel hrýtur) og maður þarf að notast við sama klósett og hundruð annarra ferðamanna. Samt er þetta nokkuð gaman, það er ævintýri í þessu, það að vera svona úti í náttúrunni. Og það er annað nokkuð merkilegt við þetta og það er að maður virðist treysta náunganum betur svona á tjaldsvæðum en heima hjá sér. Við erum með öryggiskerfi heima og bregðum okkur ekki frá án þess að læsa og setja kerfið á, auk þess sem við setjum meira að segja kerfið á yfir nóttina á meðan við sofum - en ekki í útilegum. Það dugar manni bara að henda öllu draslinu inn í tjald og renna niður... hvað er maður að hugsa??
Fyllerí á almennum tjaldsvæðum eru leiðinleg... allaveganna þegar þú ert ekki fullur sjálfur. Við hliðina á okkur tjölduðu nokkrir unglingar - ég er ekki að segja að þetta hafi verið brjálað geim, allaveganna hef ég verið í meiri stuðútilegum sjálfur, en þegar maður er búinn að tala við liðið tvisvar og byðja þau um að hætt að spila Stál og Hnífur á gítarinn og klukkan er að verða 0300 þá verður maður pínu pirraður. Sem betur fer sváfu krakkarnir af sér lætin en gamli maðurinn átti erfitt með svefn. Morguninn eftir var okkur bent á að símanúmer tjaldvarða hanga alltaf uppi á áberandi stöðum við salerni eða upplýsingamiðstöðvar á öllum tjaldsvæðum um allt land og að það á að vera næði frá 0000 til 0800 - við hefðum átt að hringja.
Sunnudagurinn fór í það að túrhestast um suðurlandið. Við höfum meira ferðast um norðurland og því var maður nokkuð hlessa yfir þessu öllu saman. Munurinn á því að keyra alltaf upp og niður heiðar fyrir norðan og bara að lulla þetta á sléttlendi suðurlandsins er mikill... maður sér fjöllinn í stað þess að vera alltaf að hossast uppá þeim. Við tókum líka sérstaklega eftir því hversu gróin fjöllin eru á suðurlandi og það er merkilegt að sjá rollurnar klöngrast í snarbröttum hlíðunum bítandi strá. Við fengum líka sérlega gott veður til að ferðast og skoða okkur um, sól, logn og 17 stig. Við keyrðum austur að Vík og fengum okkur ís. Lengsta stoppið var þó í fjörunni undir Dyrhólaey. Þar er rosalega fallegt og gaman að vera með krakkana. Það skemmdi ekki fyrir að vera í steikjandi hita og geta legið í grjótfjörunni eins og á strönd á Spáni...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég er alveg að ná tökum á þessu... eða ég held það. Ég held að með örum blogg-skrifum þá fái ég fleiri heimsóknir á síðuna. Í það minnsta verður það skemmtilegra fyrir ykkur hin sem hafið ratað hérna inn og nennið að koma aftur.
Hvað er með þetta veður? Þetta er gjörsamlega óþolandi, fyrst er rigning og kuldi þegar ég er í fríi og svo þegar ég mæti í vinnuna (af því að það er svo vont veður) þá kemur Bongólfur!!! Djö*** er ég sáttur!!!!!!
Ég reyni bara að mæta seint, taka kaffipásurnar úti, velja restúranta í hádeginu sem eru með útiborð og reyni eftir fremsta megni að hætta snemma... (vonandi lesa bossarnir þetta ekki).
En þetta reddast... það styttist óðum í sumarfrí no2 þ.a. þrátt fyrir blíðviðri get ég hamast við að láta dagana líða. Við erum að fara til Köben - liggaliggalái -
Köben er sennilega mitt uppáhalds útland. Falleg og skemmtileg borg og margt við að vera, iðandi af lífi og einhvern veginn alltaf gott veður (í minningunni allaveganna). Fjölskyldan ætlar að dvelja í 2vær vikur í paradísinni og það er búið að plana Tivoli, Zoo og fleira og fleira...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2006-07-20
Skuggi eða skjól
Ég er að myndast við að setja upp skjólvegg heima. Réttara er að nágranni minn er að setja upp skjólvegg og ég er meira svona að taka hann út... ég hjálpaði nú aðeins til við að steypa stólpana niður og svo þarf ég nú að klæða vegginn mín megin. Nágranninn mældi þetta allt saman út, lét grafa holur í hraunið, stillti stólpunum upp, steypti þá með mér, keypti allt efnið og klæddi sín megin... samt...
Skjólveggurinn skilur að 'pallasvæðin' í görðunum tveimur og er mikið þarfa-þing. Með veggnum fáum við frið fyrir hvorum öðrum og þar að auki mun hann taka einhvern vind af okkur, norðan og norðvestan af mér og sunnan og suðvestan af honum. Gallinn við þessa skjólveggi er hins vegar að maður fær skugga inn í garðinn hjá sér - allaveganna þegar það er einhver sól á lofti. Þetta hefur ekki mikil áhrif okkar megin fyrripart dags og frameftir degi en okkur brá svolítið þegar kvöldsólin hvarf. Við höfðum notið hennar þessi fáu kvöld sem hægt hefur verið að sitja utandyra en í gær áttuðum við okkur á því að líklega verðum við að stækka pallasvæðin okkar lengra út í garðinn til að ná góðri kvöldsól. Málið með kvöldsólina er að hún er svo lágt á lofti að það þarf svo litla fyrirstöðu til að búa til stóra skugga. Hádegissólin situr hærra og gerir brattari og minni skugga.
Spurningin er því hvort skuggi eða skjól sé betra? Auðvitað er ekki alltaf skuggi og auðvitað getur maður alltaf fært sig til í garðinum eftir því hvar sólin er hverju sinni - en svona er þetta, maður er alltaf að fatta eitthvað nýtt í þessu.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)