Færsluflokkur: Lífstíll

Þar fór það...

Bumbubolti á mánudögum... mætti galvaskur og til í slaginn í neongulu chelsea stuttbuxunum. Gott ef formið er ekki að koma til, gott ef ég er ekki farinn að hitta betur á rammann og samherjana og allt þetta þrátt fyrir að hafa komið sjálfum mér á óvart hversu góður ég er í fótbolta. Get ég orðið betri en bestur?
Allaveganna... mánudagskvöld... liðið 3rem yfir... ég að sóla einn og svo BANG... hræðilegasti verkur sem ég hef fundið fyrir. Ég hélt að einhver hefði sparkað í kálfann á mér og ég heyrði ógeðslegt hljóð þegar hásinin slitnaði. Lá eins og skotinn og orgaði eins og grís. Djö var þetta sárt.
Vinur minn fór með mig beint heim til sín þar sem konan hans sjúkraþjálfari tók á móti okkur og þegar hún var búin að skoða þetta í smá stund þá sendi hún okkur upp á slysó. Þar sátum við til að verða 02:30 og ég settur í gips og sagt að koma í aðgerð morguninn eftir kl 08:30 en ég yrði að vera fastandi 6 tíma fram að mætingu (gott að segja það 02:30).
Það er ævintýralegt að bíða á slysó. Ég taldi einn fara inn á undan mér en 17 út. Beið frammi í 50 mín og inni í 50 mín (ca). En þau voru öll af vilja gerð og vildur allt fyrir mig gera en það var auðvitað ekki bæklunarlæknir í húsinu þ.a. það var hringt í einn... Hvernig á hann að meta í símanum hvort á að skera eða gipsa... eða hvort það þarf að skera strax eða hvort það má bíða til morguns? Úr varð að ég skyldi mæta 08:30 þriðjudagsmorgun til að fara í skurðinn.
Ég mætti 08:30... þá þurfti að finna réttu deildina... þegar hún var fundin var mér vísað til sætis... svo beið ég... svo talaði ég við hjúkkuna og svaraði fullt af spurningum... beið... svaraði sömu spurningunum skriflega... beið... talaði við svæfingarlækni (sem hafði svo ekkert meir með mig að gera) sem spurði sömu spurninga... svo beið ég... talaði svo við læknanema sem spurði mig sömu spurninganna... og svo beið ég. Afhverju geta þeir ekki spurt þig einu sinni og lesið svo svörin hjá hvort öðru? Pirraði mig samt ekkert á þessu. Fékk næringu í æð og sat eins og illa gerður hlutur með löppina hálfa uppí loft frammi á gangi í biðstofustól... meiriháttar.
12:00 fékk herbergi, rúm til að leggjast í og meiriháttar sexy LHS nærur... hver hefur geð á að stela þessu? Jæja... dormaði þarna í klukkutíma... rúllað í svæfingu og svo man ég ekki meir fyrr en um 16:00 þegar ég lá á vöknun - hress og kátur... 16:30 var mér svo rúllað aftur niður í herbergi og ég fékk að borða og drekka og var bara kátur. Þá fór ég að grenslast fyrir um hvort það kæmi læknir að tala við mig, segja hvernig þetta hafi gengið og hvernig ég ætti að hafa þetta og haga mér næstu daga. Læknir kom um 23:00. Gat ekki útskrifast fyrr. Kominn heim um miðnætti.

Þetta var saga síðasta sólarhrings... ég sé ekki fram á að keyra bíl næstu vikurnar því hásinin fór hægra megin... og ég má ekki stíga í löppina. Þetta verður meiriháttar.

Þ.


Endalaust eitthvað...

Það er ekki einleikið hvað mikið er um smærri hluti sem hægt er að dúlla sér við í nýbyggðu húsi. Sumt eru hlutir sem maður er enga stund að og skilur ekki afhverju maður gerði ekki strax, sumt eru hlutir sem maður nennir ekki að gera því maður er löngu hættur að taka eftir þeim eða sér ekki þörfina fyrir þá, sumt er bara framkvæmdaratriði en sumt kostar pening.

Allt er hins vegar í forgangi hjá frúnni. Excel skjalið hefur minnkað (þeir sem muna eftir verkefnalistanum góða sem frúin setti upp) sem þýðir að ég hef verið rosalega duglegur... eða hvað? Það er álitamál á heimilinu.

Í gær rumpaði ég af ídrætti fyrir sjónvarp á efri hæðinni, eitthvað sem var að gera konuna brjál... hún vill eiga möguleikann á að senda krakkana upp í sjónvarpið og fá frið á neðri hæðinni. Við erum samt bæði á því að sleppa sjónvarpstækjum inn í svefnherbergjunum sjálfum. Þegar okkur bauðst sjónvarp að láni varð ég samt að stökkva til og draga loftnetið (fékk reyndar vilyrði fyrir sjónvarpinu fyrir 2 vikum). Nú á bara eftir að fá deili. Vandamálið er hins vegar afruglarasystemið sem alltaf er vandamál... það verður því bara ruv og s1 á efri hæðinni... kannski maður splæsi í annan dvd spilara og setji svo leikjatölvuna og boxið þarna upp. Konan getur þá verið í friði á neðri hæðinni og við krakkarnir í ruglinu á þeirri efri.

En fyrst ég var að draga í... gat ég þá ekki klárað rafmagnið í þvottahúsinu? Vantaði 2vo tengla og eitt ljós (reyndar á eftir að kaupa ljósið)... jú ég gat svosem gert það... með semingi enda CHE-LIV í sjónvarpinu.

Og fyrst ég var að þessu öllu saman, gat ég þá ekki skotist á sorpu með dósir? ... jú ég gat það svosem enda í leiðinni til tengdó þ.s. forláta sjónvarpsskenkur var í geymslu og við búin að fá lánaðan.

Þessi fáu verkefni tóku sunnudaginn. Byrjaði reyndar ekki alveg kl 08:00 en samt...

Að lokum má geta þess að ég þoli ekki að sjá mína menn spila 4-5-1... þetta er ekki 4-3-3 þetta er pjúra 4-5-1 og hefur ekki gefist vel... við erum ekki að tapa en kommon jafntefli við Liverpool??

Þ. 


Það kom að því að Superman fataðist flugið

Ég er pabbi Supermans... ég er stundum pabbi Spidermans líka og jafnvel pabbi stökkbreyttu táningsninjaskjaldbökunnar Legó (ekki Leó eða Leonardo heldur Legó).

Superman (sem er stundum Spiderman og stundum STS Legó) þarf mikið að hreyfa sig og ég hef það hlutverk að elta hann út og suður. Skemmtilegast er að príla upp á eitthvað verulega hátt og hættulegt, hanga í efstu rimlunum í íþróttasalnum, stökkva niður af veggstubbum, eldhúsinnréttingum og stigum.

Einu sinni sem oftar vorum við í íþróttaskólanum í morgun... En nú fataðist Superman flugið... í einu veltistökkinu ofan af einhverju himinháu, hitti hann ekki dýnuna og skall með andlitið í parketlagt gólfið.

Superman er með kúlu á enninu í dag.

Superman lét þetta ekkert á sig fá og hélt áfram að príla og stökkva fram af háum stöllum, eftir smá huggun hjá pabba Supermans.

Þ.


Skúringagræjukynning - hvað er málið?

Merkileg samkunda var haldin heima hjá mér í gærkveldi... Þrátt fyrir ófærð og slæmt veður, hrúguðust heim til mín heimilisfrýr götunnar til að hlusta á fyrirlestur um óbilandi kosti skúringagræjanna sem framleiddar eru af kompanýinu Enjo. Fyrirlesarinn hélt lofræðu um alls kyns klúta, hanska og skrúbbefni og gekk svo langt að smyrja eldhúsbekkina með smjörlíki til að sanna mál sitt... hrúga af smjörlíki hvarf eins og dögg fyrir sólu með léttri stroku undraklútsins (þess græna). Hvíti hanskinn er notaður á baðherbergið og er þá sama hvort þrífa á sturtuklefann, vaskinn, klósettið eða spegilinn (mælt er með því að eiga 2vo hvíta hanska, annan sérstaklega fyrir klósettið). Göptu frýrnar af hrifningu yfir þessum töfrabrögðum... þó að margar hverjar hafi séð þessa sýningu áður.
Auðvitað hefur maður ekkert um þetta að segja, hvers kyns skrúbb er keypt inn til heimilisins...
Að kynningu lokinni breyttist samkundan auðvitað í saumaklúbb þ.s. málefni líðandi stundar (þó aðallega innanbúðarmál hvers og eins) voru rædd. Ég sá og heyrði fljótlega að þetta var enginn staður fyrir mig (á þessum tímapunkti var búið að bjóða mér í kökuafganga). Það er ekki vinnandi vegur fyrir einn karlmann að rökræða við 10 frýr í götunni.

Þ.


Áfram Ísland !!

Nú er það nokkuð öruggt (þó að ekkert sé öruggt í þessu) að við förum áfram í milliriðla í þessu blessaða Evrópumóti. Spurningin er bara hvað við fáum að taka með af stigum. Draumar mínir geta enn ræst, við getum farið með 4 stig... næst best er að taka Frakkana og Svíar komast áfram og þá fara öll þrjú liðin áfram með 2vö stig. Líklegast er nú samt og niðurstaðan sem ég held að flestir geri ráð fyrir er sú að Frakkar fara með 4 stig, Svíar 2vö og við ekkert. Það gerir það að verkum að næstu leikir þar á eftir verða fáránlega erfiðir ef það á ekki að spila um 9unda sætið.

Ég hef lýst því yfir áður og ég geri það enn og aftur... við vinnum Frakkana!

Annar kapituli er svo umfjöllun RUV um EM. Virðingarvert að sýna leiki íslenska liðsins en ég er sammála þeim sem hafa verið að gagnrýna RUV, það er ekki nóg. Þegar maður er að fylgjast með gangi liðsins á svona móti þá þarf maður að fá að fylgjast með andstæðingunum líka, ekki bara úrslitunum heldur því hvernig þeir eru að spila. Það gerir leikina okkar skemmtilegri og maður getur þóst hafa enn meira vit á þessu en maður hefur. Er svona mikið mál að fá aðra útsendingartíðni fyrir aðra stöð? Getur RUV ekki stillt upp íþróttarás, hliðarrás? Er það svona dýrt? Nær það þá kannski ekki til allra landsmanna? Geta leikir Íslands þá ekki verið á aðalstöðinni og einhverjir aðrir leikir og umfjöllun verið á hliðarrásinni? Er kannski of mikið að gera hjá íþróttafréttamönnum stöðvarinnar? Geta þeir ekki sinnt einu móti án þess að það bitni á öðrum íþróttafréttum? Þar að auki væri örugglega hægt að fá menn til að halda uppi spjalli og lýsa leikjum fyrir lítinn pening á svona hliðarrás, menn sem kannski eru ekki verri lýsendur en þeir sem fyrir eru og myndu jafnvel gera þetta að hluta til að hugsjón einni saman í þeim tilgangi að vera einu sinni með almennilegt mót?

Ég veit svosem ekki hverjir möguleikar RUV eru í þessum efnum. Kannski eru þeir bundnir einhverjum skyldum sem ég veit ekki um, kannski mega þeir ekki sýna nema leiki Íslands í sjónvarpinu og hina leikina á netinu þó þeir hafi tryggt sér réttinn á mótinu. Kannski felst bara í því trygging á að enginn annar fái að reyna fyrir sér í þessu og gera þetta almennilega? Það er bara sorglegt að vita til þess að íþróttastöð landsmanna (Sýn) geti boðið mönnum upp á að velja úr hvaða leik sem er í fótboltanum helgi eftir helgi með því að raða þeim á 5 hliðarrásir en RUV getur ekki haft eina rás rétt á meðan þetta blessaða mót er í gangi.

Ef þetta væri hægt þá væru allir sáttir, bæði þeir sem hafa rífandi áhuga á að sjá fleiri lið en Ísland spila á þessu móti og eins fyrir þá sem ekki hafa minnsta áhuga á handbolta og fyllast ekki þjóðarrembingi á að hlusta á þjóðsönginn spilaðann á tvöföldum hraða... þeir geta þá fengið að horfa á 'út og suður' eða 'sunnudagskvöld með Evu Maríu' án þess að dagskráin raskist nokkuð.

Og hvað með það þó að fréttir séu nokkrum sinnum háftíma fyrr eða hálftíma seinna? Og hvað með það þó að dagskráin hliðrist til um klukkutíma hér og klukkutíma þar vegna þess að Íslenska landsliðið er að spila á EM í handbolta? Er fólk svona einhverft að það getur ekki hliðrað til í hausnum á sér? Getur það ekki sætt sig við breyttar tímasetningar á fréttum? Er fólk þá yfir höfuð búið að jafna sig á því að fréttir eru ekki lengur kl 20:00?

Annars kemur þessi umræða upp á hverju stórmóti... möguleikinn á hliðarrásum hefur verið fyrir hendi fyrr en ekki eins áberandi augljós og í dag. Hvernig væri að kanna málið fyrir næsta mót?

Þ.


EM

Ég á einhverra hluta erfitt með að hemja mig þegar íslenska landsliðið er að spila. Það er sama hvort um æfingaleiki er að ræða eða leiki á stórmóti. Ég sit einbeittur á sófabríkinni með harpix lykt í nefinu og lifi mig inn í leikina... ég stekk upp í loft, inní teig og út um allt og adrenalínið er í botni. Auðvitað klikka ég ekki á færunum þó að strákarnir geri það stundum, auðvitað veit ég að það á að skjóta uppi á markmenn sem setjast alltaf á rassgatið, auðvitað veit ég hvenær á að láta sig vaða í gegn og hvenær á að gefa á línuna þó að strákarnir sjái það ekki alltaf. Ég á auðvelt með að sjá hvernig þétta megi vörnina og skil stundum ekki afhverju menn eru svona ragir eða afhverju menn eru svona dofnir. Ég veit líka hvenær það er tímabært að taka leikhlé, hverjum er réttast að skipta inná og síðast en ekki síst hverjir eiga að vera í liðinu yfir höfuð.

Vandamálið með mig er að ég spái íslenska liðinu alltaf sigri í öllum leikjum þó að innst inni sé ég skíthræddur og nánast viss um að við töpum flestum leikjum. Þjóðernisremba og stolt. Það er svo gaman þegar hlutirnir ganga vel fyrir sig og að maður hafði rétt fyrir sér út á við með því að spá sigrum. Ég var því búinn að gera eftirfarandi spá:

Ísland - Svíþjóð       34 - 32 (í ljósi þess að hvorugt liðið hafði spilað almennilega vörn undanfarið)
Ísland - Slóvakía     35 - 30 (verðum að vinna þennan leik og erum 5 mörkum betri)
Ísland - Frakkland   27 - 26 (tökum þá á sálfræðinni)

Ef þetta hefði gengið eftir hefðum við farið upp úr riðlinum með 4 stig sem er fáránlegur árangur. Núna geri ég ráð fyrir að við förum upp með 2 stig eins og Frakkar sem vinna Svía og Svíar sem unnu okkur. Draumurinn í dósinni væri samt að við myndum vinna þessa tvo leiki sem eftir er og Slóvakarnir og Frakkarnir myndu vinna Svíana því þá eigum við möguleika á að fara upp úr riðlinum með 4 stig ef Frakkar og Slóvakar fara með okkur upp og Svíarnir verða skildir eftir með sárt Abba-ennið.

En þetta er kannski örlítið fjarstæðukennt... kemur í ljós

Þ.


Meistari!!

Það er stolt stúlka sem spígsporar um heimilið með medalíu um hálsinn. Í dag urðu Haukastelpur (7. flokkur) hraðboltamótsmeistarar. Breiðablik og HK buðu til leiks og mótið var haldið í Fífunni. Félögunum verður að hrósa fyrir skipulag og aðbúnað og jafnvel var ekki hægt að kvarta mikið undan dómgæslunni sem var í höndum stúlkna í 3ja eða 4ða flokki þessara félaga. Ég man ekki eftir að hafa verið á íþróttamóti þ.s. stundataflan hefur haldist og ekki nokkur seinkun á einum einasta leik.

En aftur að afreksstúlkunni á heimilinu...

Minnugur ófaranna síðastliðið sumar á Siglufirði (hvað úrslit varðar, ekki skemmtanagildi) þá var ég svosem ekkert bjartsýnn fyrir þetta mót. Reyndar ættu stelpurnar að vera reynslunni ríkari og hálfa árinu eldri fyrir utan að karlinn hefur aðeins fengið að segja dóttur sinni til á haustmánuðum... það skilaði sér greinilega. Haukaliðið tefldi fram tveimur liðum, A og B sem nánast var aldursskipt. Yrsa er á eldra ári og því í A liðinu - fyrir utan að vera einn af efnilegastu markvörðum landsins. Með henni eru svo nokkrar mjög sprækar, teknískar stelpur sem er kostur í þessum aldursflokk. Jú þið lásuð rétt... Stelpan er enn áhugasöm milli stanganna og núna er hún alveg við það að ná tökum á útspörkunum líka og þá verðum við í góðum málum. Það verður ekki auðvelt að koma tuðrunni framhjá minni í sumar, því get ég lofað...

Úrslitin í einstökum leikjum eru horfin úr minni en liðið sigraði 5 leiki með núlli, gerði 1-1 jafntefli við FH sem í raun var hálf svekkjandi þ.s. okkar stelpur voru miklu sterkari aðilinn í leiknum en voru búnar að spenna sig svolítið hátt fyrir leikinn gegn erkiféndunum. Eina tapið var fyrir Álftanesi sem endaði einnig með 16 stig og stóðu því með þeim uppi sem sigurvegari mótsins. Tapleikurinn var líka svekkjandi því rétt fyrir jól var spilaður æfingaleikur við sama lið sem vannst vandræðalaust... vanmat eða dagsform?? Stelpan var þó ekki í marki alla leikina heldur skiptust þær á en hún tók þó tvo síðustu leikina og spilaði því 5 af átta leikjum í marki og fékk ekki á sig mark.

Eftir að hafa skrifað þetta og lesið yfir þá skil ég að það má vart á milli sjá hvort okkar feðgina er montnara í dag.

Þ.


Ragnar Lárusson 13.12.1935 - 31.12.2007

Ömmubróðir minn lést eftir langvinn veikindi á gamlársdag. Blessuð sé minning hans.

Nánustu aðstandendum votta ég samúð mína.

Þ.


Yddarinn á lofti...

Gleðilega síða hárið...

Aldeilis kominn tími á að blog-blýanturinn verði yddaður. Ætli þetta sé ekki lélegasta blog-árs byrjun mín í langri blog-sögu (sennilega annað árið). Allaveganna vonast ég til að halda úti smá fréttaskýringum af mér og mínum en sneiða hjá þjóðfélagsumræðunni að mestu eins og ég hef gert undanfarin ár.

Árið fer heldur betur vel af stað. Allir temmilega grömpý eftir vel heppnað og óvenjulangt jólafrí. það er erfitt að rífa sig í gang, smyrja hjólin og dusta ryðið.

Markmiðið hjá karlinum er að vera sundskýlufær snemmsumars. Ekki eru til sundtjöld í fataskápnum sem dekka vöxtinn í dag... en það er ein flott speedoo skýla sem býður mín... árgerð 1988... hvernig væri það...?
Þegar hefur verið hafist handa við reglulega hreyfingu. Búið að taka fram skóna og búið að fara nokkrum sinnum í rækt. Í gær var svo fyrsti mánudagsboltinn. Jú karlinn verður á mánudagskvöldum í bolta. Þó ég segi sjálfur frá þá hef ég engu gleymt hvað tækni varðar og sendingarhæfni... miðið í skotum hefur aðeins skekkst en ég geri ráð fyrir að ná að stilla það af fljótlega. Heimsfrægar og vel heppnaðar utanfótarsnuddur sáust þó nokkrum sinnum í gær og vöktu kátínu og gleði meðspilara en ótti færðist yfir andlit andstæðinganna því þegar karlinn kemst í gang þá er fátt sem í vegi hans getur orðið. Ég sá líka nokkra kosti við öll kílóin því þau voru vel nýtanleg í ýmsum návígum. Barátta um lausa bolta var æði ójöfn ef karlinn í öllu sínu 95kg. veldi var á staðnum...

Þ.


Jólakveðja...

Gleðileg jól og farsælt komandi sítt hár...

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband