Færsluflokkur: Lífstíll

Af því að páskana ber ekki upp um mánaðarmót...

Ég verð að viðurkenna að þrisvar á ári væri gaman að vera kennari og margir kennarar segja í gríni að það séu þrjár ástæður fyrir því að hafa valið þennan starfsvettvang. Jól, páskar og sumar. Öllu gríni fylgir þó alvara. 
Öfundaraugum lít ég til kennaranna í kringum mig þegar þessi frítími nálgast. Þeir eiga þetta svo sannanlega skilið - allaveganna kennararnir sem ég þekki sem leggja sig virkilega fram við vinnu sína og nota mikinn tíma við undirbúning og við að yfirfara próf og verkefni langt frameftir kvöldum. Launin eru bara ekki upp á marga fiska og þeim fer fækkandi eftir því sem fiskverðið hækkar.
Ef ekki væri fyrir þetta frí þá gæti ég ekki skilið fólk sem velur sér þennan starfsvettvang... og þó að þeir fái þetta frí þá á ég erfitt með að skilja fólk sem velur sér að vera kennarar ef það á ekki börn sjálf á leikskóla- eða grunnskólaaldri. Þetta er náttúrulega snilld fyrir barnafólk. Á almennum vinnumarkaði er ekki algengt að geta tekið frí um 2 vikur yfir jól, tæpar 2 vikur um páska og svo 10 vikur yfir sumartímann (almennir frídagar meðteknir). Ef farið væri eftir venjulegum samningum á almennum vinnumarkaði og báðir foreldrar útivinnandi þá duga frídagar ársins ekki fyrir öllu skólafríi krakkanna þó að foreldrar skiptist á að vera heima. Þá yrði ekki neitt sameiginlegt frí fjölskyldunnar. Fjölskylduvænt að búa við þessar aðstæður - veit ekki? Fjölskyldur eru reyndar samrýmdar á Íslandi í flestum tilvikum og flest börn eiga sjálfsagt ömmur og afa... vandamálið er bara að þau þurfa líka að vinna. Þetta hlýtur að vera erfitt fyrir einstæð foreldri og foreldra sem ekki eiga aðstoð vísa frá fjölskyldu, vinum og ættingjum.
Eitt verður þó að hafa í huga varðandi fríin í skólunum, þau eru ekki sveigjanleg. Þú semur ekkert við yfirmennina um að fá langa helgi þegar þér hentar að skjótast helgarferð í bústað eða til útlanda, þú semur ekkert um að fá frí í viku eða tvær frá miðjum ágúst fram í júní til að skjótast á ströndina, í skíðaferð eða Ameríkureisu. Frídagarnir eru fyrirfram ákveðnir fyrir þig.

Um leið og öfunda konuna mína þessa dagana þakka ég auðmjúkur fyrir að hún hefur valið sér þennan starfsvettvang.

Þ.


Allt annað að sjá karlinn...

Nú er maður 'dead sexy' - fékk göngugips í gær. Fyrir þá sem ekki vita er göngugips alveg eins og venjulegt gips en stillt þannig af að stíga má í það af fullum þunga og maður fær meiriháttar sóla undir ilina. Sólinn er reyndar 'uni-foot' - þeir framleiða bara eina gerð en margar stærðir - þeir eru ekki að hafa fyrir því að framleiða hægri og vinstri, nei uni-foot. Þetta gerir það að verkum að manni finnst maður vera hálf álkulegur þegar maður horfir niður fyrir sig. Ofan á þetta þá hafa þeir sennilega ekki breytt hönnuninni síðan 1970ogeitthvað. Gert er ráð fyrir því að þú eigir vel háa bítlaskó á hinn fótinn. Ef ég stend á gipsinu þá er ég hátt í 190 cm á hæð en venjulega er ég um 181, kannski 183 í hæstu skónum mínum.
Ég var búinn að hlakka mikið til að fá þetta blessaða göngugips og brúnin hefur lést á mér síðan í gær. Ég áttaði mig reyndar ekki á því að ég þyrfti að læra að ganga upp á nýtt og hef því ekki treyst mér til að sleppa hækjunum enn þá. Sálrænt - já - en líka er jafnvægið brenglað verulega þegar ökklinn er stífaður af í gipsi. Ég er því markvisst að vinna í gönguæfingum.

Þ.


1000 bjartar sólir

Las bókina '1000 bjartar sólir' um daginn. Bókin fjallar um líf tveggja kvenna í Kabúl, höfuðborg Afganistan á nokkurra ára tímabili og hvernig þær tengjast fjölskyldu og vinaböndum og mismunandi stríðshrjáðum tímabilum landsins. Megin efni bókarinnar fjallar um samskipti þeirra við karlpeninginn og þau samskipti eru eins og við er að búast hreint út sagt hræðileg. Ég get alveg mælt með því að lesa þessa bók... þó að ég sé lítill bókarýnir.

Í framhaldi af þessu sá ég svo frétt í gær sem hefði kannski ekki snert mig jafn mikið ef ég hefði ekki verið búinn að lesa bókina. Afganskri fjölskyldu hafði verið vísað úr landi í Svíþjóð og bjó við erfiðar aðstæður í flóttamannabúðum í Kabúl. Fjölskyldufaðirinn öryrki á ekki möguleika á að sjá fjölskyldu sinni farborða í karlaríkinu og bara þessi staðreynd gerir það að verkum að engar líkur eru á að þau eigi eftir að spjara sig. Þau þora ekki út úr íbúðinni því þau eru afkomendur ættbálks sem meirihluti afganskra múslima líta ekki á sem jafnoka sína og því eiga þau á hættu að verða ofsótt. Átakanlegast var svo að hlusta á eldra barnið, 9íu ára gamla stúlku, lýsa því hversu heitt hún saknaði 'heimilis' síns. Hún vildi bara komast aftur 'heim' þar sem hún gat farið í skóla, leikið við vini sína og verið úti að leika að vild. Stúlkan talaði lýtalausa sænsku (svo vel sem ég þekki hana) og af því má ráða að fjölskyldan hafði verið í Svíþjóð í nokkur ár.

Hvað gengur Svíunum til með þessu? Hvað munar um eina 4urra manna fjölskyldu? Maður veit svosem ekki hvað býr að baki en ég vona það að það sé eitthvað meira og mikilvægara...

Þ.


3-4 vikur

Enginn hafði rétt fyrir sér í könnuninni hér á vinstri spássíunni... allaveganna ekki alveg 100%

Ég lifði af í tæpar 4ar vikur, þ.a. rétt svar er 3jár til 4ar... þeir sem mótmæla þessu eru ekki í daglegum samskiptum við mig þessa dagana.

Ég hata gips og ég hata hækjur...

Þ.


Sumarbústaðarferð á 'einari'

Ég tók þá yfirveguðu ákvörðun að gefa frúnni sumarbústaðarferð í afmælisgjöf. Hún hreinlega elskar að fara í bústaðarferðir og þá er alveg sama hvort það er á sumrin eða helgarferðir á veturna. Hún varð því himinlifandi með gjöfina... í 3jár sekúndur... eða þangað til að það laust niður í hausinn á henni að hún þyrfti að sjá um allt og þá meina ég allt.

  • Ég hef venjulega séð um að pakka, hún finnur til föt en ég raða í töskuna en ég hef venjulega séð um útiföt á alla - nú þurfti hún að sjá um það (líka að finna tösku á háaloftinu).
  • Hún hefur alltaf séð um innkaup á mat en ég hef oft verið liðtækur í að keyra innkaupakerrur um verslanir - nú þurfti hún að sjá um það og pakka matnum.
  • Ég hef venjulega borið draslið út í bíl og raðað - nú þurfti hún að gera það.
  • Ég hef venjulega ekið - nú þurfti hún að gera það.
  • Ég hef venjulega borið draslið inn í bústaðinn - nú þurfti hún að sjá um það.
  • Hún hefur hins vegar alltaf séð um að ganga frá matnum í ísskápinn - og auðvitað gerði hún það líka.
  • Við höfum venjulega verið dugleg að skipta með okkur verkum í svona ferðum, hún eldar yfirleitt en ég hjálpa þá til við að ganga frá og vaska upp - nú þurfti hún að gera allt.
  • Við höfum venjulega hjálpast að við að pakka draslinu aftur - nú þurfti hún að gera það.
  • Ég hef venjulega pakkað í bílinn - nú þurfti hún að gera það.
  • Ég hef venjulega þrifið bústaðinn á meðan hún hefur haft ofanaf fyrir krökkunum - nú þurfti hún að þrífa og hafa ofanaf fyrir krökkunum (eða planta þeim í bílinn með mér og hlusta á útvarpið).
  • Ég hef venjulega keyrt heim - nú þurfti hún að gera það.
  • Ég hef venjulega borið draslið inn úr bílnum þegar heim er komið - nú þurfti hún að gera það.
  • Við höfum svo venjulega hjálpast að við að ganga frá þegar heim er komið - nú þurfti hún að gera það.

Sjálfsagt hefur hún fleiri hlutverk en upp eru talin í listanum og vil ég ekki gera lítið úr því, en þessi atriði bættust þá allaveganna við verkefnalistann hennar þessa afmælis-ferð.

Það tók svo steininn úr þegar við komum á föstudagskvöldinu að bústaðnum því það var svo mikill snjór að varla sást í hann. Hún þurfti því að moka okkur inn - verkefni sem venjulega hefði fallið mér í skaut.

Ég er svona að spá hvort þetta hafi verið jafngóð afmælisgjöf og henni var ætlað að vera? Ég gef henni kannski bara borvél á næsta ári.

Niðurstaðan er samt hálfógnvænleg því þegar konan er farin að taka að sér svona mikið af verkefnum heimilisins þá er alveg viðbúið að hún átti sig á því að maður er óþarfur...

Þ.


Að standa á 'einari'

Það er ótrúlegt hvað maður getur saknað þess að gera og framkvæma hversdagslega hluti. Hlutir (eða á maður kannski að segja athafnir?) eins og að hlaupa á eftir stráknum, skutlast út í bílskúr, hlaupa út í búð, taka bensín á bílinn, keyra bíl og pissa standandi.
Já pissa standandi (og mér er sama hvað Toggi pungsjampó segir) er einhvern veginn nauðsynlegt og það er athöfn sem maður saknar þegar maður er nýkominn úr aðgerð og er gipsaður á annarri löppinni og er sárþjáður og getur bara setið og legið. Sitjandi á dollunni og pissa er ekkert á við það að standa og láta buna hressilega í pollinn í miðjunni. Um leið og ég treysti mér til fór ég því að pissa standandi... en auðvitað bara á annarri löppinni. Ég skora á ykkur karlmenn sem lesið þetta að prófa... þetta er ekkert mál fyrst en maður verður ansi þreyttur ansi fljótt í þeirri löpp sem standa þarf í. Eitt sem þarf að huga að er staðan. Það er ekki hægt að standa með fótinn sem staðið er í á þeim stað sem hann er vanur að vera á (örlítið til hliðar við dolluna) heldur þarf fóturinn að standa nær algerlega fyrir miðju því þungi líkamans þarf að vera yfir stöðu fætinum og þá hallar allt systemið.
Já hlaupa á eftir stráknum. Spiderman var fljótur að átta sig á því að karlinn var ekki eins snar í snúningum og áður og á í erfiðleikum með að ná í skottið á honum. Drengurinn nýtir sér það til fullnustu og svo til að snúa hnífnum í söltuðu sárinu, finnst honum gaman að bjóða karilnum í kapp... og þá sérstaklega upp stiga.
Kvöldmatarreddingum hefur líka fækkað í kjölfar þess að ég er ekki ökufær og hvað þá búðarfær. Það er ekki svo auðvelt að skutlast eftir hlöndu eða skutlast í búð á leiðinni heim. Nú er bara étið úr ísskápnum og það sem betra er, frystiskápnum. Það var nú alveg kominn tími á að létta aðeins á kjarnorkustríðsbirgðunum.
Heimilisstörfin eru nánast á hold... sem er gott að mörgu leiti... nema vinnan lendir öll á konunni sem verður bara þreyttari fyrir vikið og ég fæ samviskubit yfir því að hún þurfi að gera allt fyrir utan það að ég held að hún sé komin með annað Excel skjal sem heldur utan um allt og ég fái reikninginn í sumar... ég á eftir að þurfa að borga þetta allt saman með áföllnum vöxtum... sem eru ekki lágir skal ég segja ykkur, ef þið haldið að vextir bankanna séu í ruglinu þá ættuð þið að sjá vaxtaálagið sem ég bý við.

Þ.


'Gróusögur eða í besta falli hauga-lygi...'

Aðalmál á dagskrá - sjúkrasagan.

Endurkoman á LSHSVFV (eða LandspítalaháskólasjúkrahúsviðFossvog) gekk framar vonum í gær. Allt lítur vel út, skurðurinn fínn og sinin enn saman eftir aðgerðina og engar óþarfa uppákomur. Ég náði loksins tali af lækninum sem ber ábyrgð á skurðinum og lagfæringunni, ungur hress gaur sem sagði mér allt sem ég vildi fá að vita og líka það sem ég vildi ekki vita.

Mér fannst t.d. ekkert gaman að heyra að ég þyrfti að vera í gipsi í 2vær vikur í viðbót þ.s. ég má ekki stíga í fótinn áður en ég fæ göngugips sem ég þarf að vera í næstu 4ar vikurnar. Eftir það má ég búast við a.m.k. 6 mánuðum í endurhæfingu og ég ætla rétt að vona að 5-7 km ganga á dag með golfsett á bakinu sé þar skv. læknisráði.

Eitt athyglivert kom þó fram þegar ég fór að spyrja hann útí hversu slæmt þetta hefði verið því ég stóð í þeirri meiningu að sinin hefði ekki slitnað alveg því ég hef heyrt að hún rúllist þá uppí hnésbót og þá þurfi að rista upp kálfann og sækja hana... Læknirinn hristi þá hausinn og glotti út í annað og sagði það hinar mestu Gróusögur eða í besta falli hauga-lygi. Hásinin er ekki teygja og spólast ekkert í burtu við að slitna. Mín hefði t.d. kubbast í sundur og bara vegna þess að það er vel strekkt á henni þá fór efri endinn eina 2-3 cm frá þeim neðri... allt og sumt.

Þar hafið þið það þeir sem hafa lifað með þessar ranghugmyndir í hausnum eins og ég.

Vonandi slítið þið aldrei hásin...

Þ.

 


Morgunstund gefur og gefur

Nú er aðeins farið að reyna á 'venjulega' daga, þ.e. allir að vinna og í skóla. Okkur kveið fyrir þessum dögum því gipsmaðurinn ógurlegi er ekki til stórræðanna við heimilisstörfin hvað þá að koma frá sér krökkum í skólann. Við tókum þann pól í hæðina (sumir vilja meina að þetta eigi að vera 'polí hæð' þ.e. hæð pólstjörnunnar en ekki eitthvert viðmið í brekku) að fara snemma í rúmið á kvöldin og rífa alla upp fyrir aldir. Þetta er að skila sér. Það eru meiri rólegheit við morgunstörfin, ekkert stress, ekki þarf að reka á eftir liðinu og öllum líður betur... nema ég er að drepast í 'fótnum'.

Eins og ég er mikill Bé maður (ef það er týpan sem vakir frameftir og sefur út) þá sé ég ótvíræða kosti þessa fyrirkomulags. Allaveganna á meðan ég er fatlaður. Ég hef heldur ekki verið að rembast við að vinna á kvöldin og fram á nætur enda alveg búinn á því eftir daginn á skrifstofunni og þarf bara að liggja í sófanum... hef ekki einusinni rænu á að spila PS3 eða horfa á bíó... ligg bara eins og skata og þigg kaffi og meððí uppí sófa. Einhvrejir kynnu að líta á það sem lúxus sem það er upp að vissu marki... þetta fer að verða neyðarlegt.

Þ.


Mættur til vinnu :)

Jæja, kominn í vinnuna. Búinn að sakna þess að geta ekki bullað í liðinu.
Aðal stressið var að koma öllum af stað í morgun og það verður aðalstressið næstu vikurnar. Núna þarf frúin að sjá um að koma drengnum í leikskólann en það hefur verið mitt hlutverk að skutla drengnum. Það fóru því allir að snemma að sofa í gær og allir klárir vel fyrir 8 sem er met á mínu heimili. Ekkert stress, ekkert vesen, bara allir klárir. Spurning hvernig þetta verður á morgun þegar frúin á að vera mætt og byrjuð að kenna kl 8??
Ég náði meira að segja auka kaffibolla í morgun á meðan ég beið eftir vinkonu minni sem var svo væn að sækja mig til vinnu.
Nú er bara að halda út og láta liðið færa mér kaffi á deskið...

'Kóngur einn dag...' hvenær verður liðið í kringum mig búið að fá nóg af því að stjana í kringum mig?

Þ.


Ómetanlegt að eiga góða að...

Undanfarna daga hef ég verið að gera mér betur og betur grein fyrir því hvað það er gott að eiga góða að.
Þegar hásinin fór hrúguðust allir nærstaddir að mér og vildu allt fyrir mig gera. Hringt var á spítalann, reynt að fá einhver sjúkragögn hjá starfsfólki Sporthússins (það eina sem var til var kælipoki og plástur) og síðast en ekki síst fylgdi vinur minn mér á spítalann eftir að hafa ónáðað konuna sína sjúkraþjálfann og beið með mér fram á nótt, stytti mér stundir, talaði við læknana og skutlaði mér svo heim.
Þegar heim var komið tók konan við og sá til þess að ég fengi sæmilegan svefn og að ég vaknaði í aðgerðina daginn eftir þrátt fyrir að vera sárlasin sjálf.
Tengdafaðir minn heimsótti mig svo á spítalann og stytti mér stundir á meðan ég beið eftir því að fá að vita hvort ég fengi að fara heim samdægurs. Síðar um kvöldið kom hann og sótti mig á spítalann og keyrði mig heim þar sem konan tók á móti mér með bros á vör (hmmm).
Konan hefur síðan séð um allt og alla á heimilinu og stjanað við mig. Ef hún á ekki skilið dekur í laugum eftir þetta allt saman (og það eru bara liðnir 3 dagar og 7 vikur eftir) þá veit ég ekki hvað.
Til viðbótar við þetta kom verðandi svili minn svífandi með PS3 tölvu sem hann vildi endilega lána mér í legunni. Leiðinlegt.
Nágrannar okkar hafa verið okkur ómetanlegir í að fara með strákinn og sækja hann á leikskólann morgna og kvölds. Auk þess sem granninn kláraði að tengja sjónvarpsloftnetið fyrir efri hæðina sem ég var langt kominn með. Kannski ég reyni að fá hann til að parketleggja fyrir mig á meðan ég er óvinnufær í gipsi???
Svo kom yfirmaður minn með skjá og lyklaborð fyrir mig þ.a. ég get sinnt vinnunni betur að heiman en ég veit ekki hvort það var af góðmennskunni einni saman (hehehe). Nú verð ég dreki. Jæja. Þar fyrir utan hafa Hafnfirðingarnir í vinnunni boðist til að taka mig með til og frá vinnu um leið og ég treysti mér til... öðlingar.

Það væsir ekki um mann allaveganna. Búinn að setja upp vinnuaðstöðu (sem ég hefði átt að vera búinn að gera fyrir 8 árum), PS3 og flakkara á neðri hæðinni og PS2 á efri hæðinni, konan sér um allt og alla og ekki síst mig, sér til þess að ég geti verið í rólegheitum og hafi allt til alls. Það eina asnalega í þessu er að ég get ekki gert neitt til að gleðja aðra... verð að muna að reyna að borga fyrir mig síðar.

Öllu þessu fólki vil ég þakka sérstaklega hugulsemina og megi hún ekki dvína næstu 6-8 vikurnar (sumir segja jafnvel 6-9 máunuði). Til viðbótar verð ég að þakka T og L fyrir að kíkja reglulega á síðuna mína og kvitta fyrir sig með óborganlegum hætti og níðingsskap í bland... gæti ekki verið kátari... nema ef hásinin hefði ekki slitnað...

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband