Færsluflokkur: Lífstíll

Best að rífa þetta upp aftur...

Ég er að fara í smá ferðalag og er að spá í að kveikja í blogginu aftur...

Sjáum hvort ég nenni því

Þ.


Skvísan eins og klettur í vörninni

Aðra helgina í röð var farið á knattspyrnumót og núna með skvísuna. Breyting á farþegalistanum... ALLIR með og þvílíkt stuð.

Spiderman I og II voru með okkur gömlu í kúlutjaldinu - djók - í sveitagistingu á frábærum stað (http://www.keldudalur.is/) rétt fyrir utan Sauðárkrók á meðan skvísan lá í hrúgu með liðinu í skólastofu. Reyndar er það líklega mest spennandi við þessar ferðir að losna við okkur gömlu.

Fyrsti leikur kl 0900 á laugardagsmorgun og veðurstofa Íslands laug að öllum. Góða skapið var samt með í för og karlinn fékk það hlutverk að stýra liðinu. Karlinn stýrði reyndar liðinu alla helgina því Haukarnir mættu með svo mörg lið að þjálfarinn náði ekki að sinna þeim öllum í einu. Og djö... stóð hann sig vel :)

Þetta byrjaði ekki vel. Tap í fyrsta leik og sumir huxuðu 'nú nú, verður þetta svona mót' en með breyttu leikskipulagi og frábærum 'pepp' ræðum var liðið rifið upp úr öldudalnum og næstu tveir leikir unnust auðveldlega. 4ði leikur tapaðist á algerum klaufaskap þ.s. mínar lágu í sókn en nýttu ekki færin og í stöðunni 1-1 og mínúta á klukkunni ákváðum við að gefa eitt. Ömurlegt. En eins og stórliðum sæmir rifum við okkur upp í síðasta leik og enduðum daginn á sigri sem var sálfræðilega mikilvægt.

Skvísan óx í leik sínum með hverri mínútunni. Hennar staða á vellinum er í vörninni og þær eru ekki margar sem fara framhjá henni. Þar fyrir utan er hún farin að taka upp á því að stýra samherjum sínum, skipa fyrir og hvetja. Sannur fyrirliði. Og af því að karlinn var á línunni þá fékk hún nokkrar mínútur í nokkrum leikjum í sníkjunni og var SVOOOO nálægt því að skora.

Seinni dagurinn var æðislegur. 22 stiga hiti og sól og frábærar aðstæður til knattspyrnuiðkunnar. Stelpurnar mínar voru í 4ða-5ta sæti eftir fyrri daginn og áttu bara 2vo leiki seinni daginn (hefðu verið í 3ja með jafntefli í klúðursleiknum). Þetta var vitneskja sem karlinn hafði ekki fyrir leik. En hvað um það. Fyrri leikurinn endaði í markalausu jafntefli við liðið sem var í sama sæti en þær fóru bara einu sinni yfir miðju. Seinni leikurinn var mikið þægilegri blóðþrýstingslega séð, 5-0 sigur og það á liðinu sem var í 2ðru sæti.

Lokaniðurstaða var 4ða sæti. Frábær árangur en grátlegt að hafa klúðrað þessum 2veim leikjum sem hefðu skilað liðinu í 2nnað sæti.

Frábær helgi, frábær félagsskapur og frábærar skvísur...

Þ.

 


Spiderman I í sníkjunni...

Skagamótið í fótbolta (Norðurálsmótið) fyrir 7unda flokk karla fór fram um liðna helgi og vorum við feðgar mættir til leiks. Það var sjálfsagt fyndin sjón að sjá okkur renna inn í fellihýsabyggðina á Yarisnum og rífa út litla kúlutjaldið en það fór vel um okkur :) og það er fyrir öllu.

Haukarnir mættu til leiks með lið í öllum styrkleikaflokkum og liðið hans Þráins eingöngu skipað leikmönnum fæddum 2004 þó að 7undi flokkur sé ætlaður árgöngum 2002 og 2003. Það var því vitað að á brattann yrði að sækja.
Föstudagurinn fór í það að raða liðunum í styrkleikaflokka. Spilaðir voru 3 leikir þ.s. guttarnir unnu 2vo verulega sannfærandi og töpuðu einum 2-0. Liðið endaði því í næst sterkasta riðli F-liða.
Á laugardeginum unnust 2eir nokkuð sannfærandi en 2eir leikir töpuðust þ.s. annar var í járnum allan tímann en hinn tapaðist á dómaraskandal :) - Dómarar í þessum mótum eru nefnilega sér kapituli útaf fyrir sig og verður ekki rætt nánar.
Á sunnudeginum tapaðist svo síðasti leikurinn, þó svo að okkar menn hefðu komist 1-0 yfir og jafnt var í hálfleik, 1-1, þá sprakk blaðran í síðari hálfleik og feykisterkir og taplausir andstæðingar okkar gengu á lagið undan vindi í síðari hálfleik.
Liðið endaði því í 4ða sæti í sínum riðli sem er frábær árangur og loka niðurstaðan sú að 4ir leikir unnust og 4ir leikir tapaðir.

Spiderman I hefur tekið miklum framförum undanfarið ár í fótbolta og áhuginn er þvílíkur. Hann er ekki lengur að suða um að fá að vera í marki, hann er ekki lengur að skriðtækla allt sem hreyfist (boltinn meðtalinn), en vandamálið núna (sem í raun ætti ekki að vera vandamál) er það að hann nennir ekki þessum þvögubolta, hann þarf pláss. 7undi flokkur er nefnilega svolítið þannig að allir sem inná vellinum eru hlaupa á eftir og í kringum boltann. Spiderman I þarf að vera í spili og fá pláss. Hann kvartaði sáran undan því að það væru allir fyrir honum og allir í hrúgu og að samherjarnir væru ekki mikið að gefa á hann. Hann brá því á það ráð að vera í sníkjunni... og það skilaði sér í 9íu mörkum í þessum 8a leikjum. Taktíkin var að halda sig aðeins fyrir utan hrúguna og spretta svo af stað þegar færi gafst.

Það var stoltur faðir og þreyttur Spiderman I sem komu heim seinnipartinn á sunnudag eftir frábæra helgi með frábæru fólki eftir frábært mót þar sem náðist frábær árangur og Spiderman I sannanlega markakóngur í sínu liði.

Þ.


Ferðasagan

Sú yfirvegaða ákvörðun var tekin af karlinum í vetur að fjárfesta í utanlandsferð handa frúnni í afmælisgjöf. Ef þessi ákvörðun hefði verið sett í nefnd hefði hún líklega aldrei orðið að veruleika (þess má geta að málið var svæft í nefndum í 5 ár).

Allaveganna... ferðinni var heitið til fitubollulandsins (USA), þangað sem ég hef nú bara einusinni komið áður og reyndar frúin bara komið þar við sem krakki. Í landi allsgnægtanna eigum við góða vini og því vísa gistingu sem stólað var á.

180510
Spiderman II var búinn að vera eitthvað órólegur undanfarna daga og Skvísan hélt því fram að hann léti svona af því að hann finndi á sér að mamma hans væri að fara, hann bara fattaði ekki að hann ætti að fara með. Spiderman II vaknaði því um kl 06 að ísl. tíma þennan morgun. Skvísan og Spiderman I fóru í skólann þ.s. Spiderman I tilkynnti hátíðlega að í dag væri frábær dagur af því að mamma hans og pabbi væru að fara og afi og amma stjóri ætluðu að koma og passa í viku (hann á það til að fá ristað brauð með sultu og heitt kakó í morgunmat hjá ömmu sinni).
Flugum svo út seinnipartinn, 6 tíma til MSP. Fengum aukasæti fyrir Spiderman II sem svaf ekki nema klukkutíma í vélinni. Kaninn er svo klikk í tékkinu til landsins að ég hélt að við kæmumst ekki mikið lengra en í forsalinn á vellinum áður en við þyrftum að taka flugið heim.
Eftir flugið var bíll tekinn á leigu og tæplega 5 tíma keyrsla tekin í einum rikk og 5 RedBull á bílstjórann. Ekki hægt að segja annað en að bílstjórinn hafi verið sæmilega útúrtjúnaður þegar hann steig út úr bílnum á áfangastað u.þ.b. 23 klukkustundum eftir að hann vaknaði um morguninn. Ekki vantaði gestrisnina hjá vinunum sem tóku okkur fagnandi, gáfu okkur að borða og útbjuggu gestaherbergið eins og á flottasta hóteli.

190510
Spiderman II var lengur en sólarhringinn að átta sig á tímamismuninum. Karlinn var því kominn á lappir rúmlega 05 að staðartíma eftir þá rúmlega 3ja tíma svefn. Yndælis veður og spenningur í loftinu varð til þess að ég hefði ekki farið í rúmið aftur þó ég hefði fengið borgað fyrir það (eða...). Heimilisfólkið þurfti vitanlega að sinna sínu og heimasætan á bænum átti að fara í skólann. Við Spiderman II fengum að fara með og það var gaman að labba um hverfið og átta sig á aðstæðum, fá að kíkja á söngskemmtun í amerískum grunnskóla og kíkja í fáránlega girnilegt bakarí.
Dagurinn var svo tekinn í rólegheitum með rölti um háskólabæinn Madison þ.s. þeir kunna víst að skemmta sér líka. Ís tekinn í ísbúðinni frægu sem mælist til þess að ef fólk er að leita sér að hollustu þá eigi þeir að fara annað og fá sér gulrót því þeir bjóða ekki upp á neitt ló kalorí, ló sjugar, ló fatt, ló noþþing. Öl við vatnið og á fleiri stöðum og chill í garðinum og veisla að hætti hússins um kveldið.
Frábær dagur.

200510
Spiderman II aðeins farinn að átta sig og svaf fínt. Dagurinn tekinn í s.k. átletti. Fengum fylgd og sætsín um sveitina og svo var bara látið vaða í verslanirnar. Tíminn var nú mislengi að líða hjá okkur hjónum en allt hafðist þetta. Kostakaup gerð á alls konar merkjavöru því þó að dollarinn sé 130 kall þá er samt töluvert ódýrara að komast í svona merkja-átlett.
Aftur endað í rólegheitum í garðinum hjá okkar kæru vinum og ég ætla nú ekki að ræða veisluna sem haldin var um kveldið. Nautalund frá Amish-fólkinu. Besta nautakjöt sem ég hef nokkurn tíma fengið. Það er gott að húsbóndinn er ekki þekktur fyrir annað en að taka til matar síns því annars hefði þetta litið illa út. Það sem ég gat étið...

210510
Litla fjölskyldan lagði af stað til Chicago. Það er nefnilega ansi merkilegt að ég hef komið tvisvar til US og í bæði skiptin til Chicago en aldrei til NY eða Boston eða þessar helstu borgir sem landinn heimsækir. En bílferðin tók sína stund og hitinn var sæmilegur. Spiderman II fannst þetta ekki skemmtilegur dagur. Hann virtist líka vera hálf slappur og þá er ekki gaman að hanga í bíl í rúma 3já tíma. Umferðarsultan var verri en þegar vegagerðin tekur upp á því að malbika aðalumferðaræðar Reykjavíkur og nágrennis milli kl 16 og 18 á föstudögum.
Hótelið sem við fengum var magnað, staðsett miðsvæðis og allt hið snyrtilegasta. Herbergið rúmgott og uppi á 37undu hæð. Æði. Seinniparturinn fór í að rölta um aðalgötuna og helsta nágrenni og finna steikhús. Spiderman II var orðinn ansi þreyttur undir það síðasta svo við fórum snemma í háttinn.

220510
Dagur 2vö í Chicago. Spiderman II orðinn lasinn. Var með töluverðan hita um nóttina og svaf ekki alltof vel. En út skildi arkað og við af stað. Spiderman II náði að sofna vel í kerrunni og frúin fékk smá útrás í einhverjum verslunum fyrir hádegi. Svo var smá ævintýri sem hefði mátt koma í veg fyrir en allt reddaðist þetta nú á endanum. Mad-fjölskyldan kom svo og hitti okkur seinnipartinn, um það leiti sem ég var að taka myndir af gluggaþvottamönnunum á næsta húsi. Ég var sem fyrr segir á 37undu hæð en tók myndir af þeim uppávið. Þetta er náttúrulega ekki eðlilegt. En jæja. Með vinunum örkuðum við meðfram vatninu að safnahúsi miklu þ.s. við skoðuðum m.a. þróunarsögu jarðarinnar og jarðarbúa. Einhver skilmisingur var við miðakaupin þ.a. við fengum ekki aðgang að ánamaðkahúsinu og áætlaður kokteill kom í veg fyrir að við næðum að leiðrétta það.
Eftir safnið var gengið í gegnum garðana til baka í bæinn og ákveðin ostakökuverksmiðja heimsótt. Þessi veitingastaður var eins og tíramísú að innan, frekar fyndið, en maturinn góður og bjórinn vel þeginn. Ekki hægt annað en að sofna sæll eftir þá útreið.

230510
Dagur 3jú í Chicago. Egg og beikon og allt hitt ruglið í morgunmat annan daginn í röð. Það er ekki skrítið að þetta sé kallað fitubollulandið, en mikið djö... er þetta nú gott. Ég væri sennilega nær 200 en 100 ef ég byggi þarna.
Sigling tekin í 35 stiga hita og sól um ána og vatnið. Meiriháttar og algert möst í svona ferðum. Spiderman II var samt ekki að fíla þetta svona til að byrja með enda lasinn og pirraður í hitanum. Hann var sáttari á neðri hæðinni í skugga og loftkælingu. Eftir siglingu var strollað meira um bæinn og margt skemmtilegt skoðað og skrafað.
Seinnipartinn var svo tími kominn á heimferð, já sko heim til Madison, því manni leið svo vel þarna að maður kallaði það bara að fara heim eftir fyrsta daginn. Bílferðin tók á Spiderman II en þó ekki eins löng og fyrri ferðir. Þegar heim var komið var farið í Indian-teikavei og með þeim betri sem maður kemst í. Bjór með því? uuu já.

240510
Farið að síga á seinni hlutann. Síðustu útréttingar teknar með trompi, einhverjar reddingar en ekkert golf. Sennilega það eina sem ég sakna að hafa ekki komist í og það var golf. Annars var dagurinn frekar rólegur í minningunni en endaði á brugghúsi bæjarins þ.s. við nutum matar og 14 tegunda af bjór. Ég er ekki að grínast með þetta. Bjórinn í Madison er sjúklega góður. Ef ég væri ekki nær 200 út af eggjum og beikon morgunmatnum með pönnukökunum, þá væri ég það út af bjórnum.

250510
Heimferðardagur. Auðvitað saknar maður Skvísunnar og Spiderman I, en mann langar ekkert heim... hefði kannski verið betra að senda bara eftir þeim? Við áttum allaveganna frábærar stundir með frábærum vinum á frábærum stað. Þurftum þó að leggja af stað fyrir hádegi þennan þrumuskýjaða þriðjudag. Við fengum nefnilega alla flóruna, sól og blíðu, sól og raka, rigningu og þoku, þrumur og eldingar og meiri sól. Bílferðin uppeftir til MSP virkaði styttri. Kannski af því að við keyrðum í björtu alla leið eða kannski af því að bílstjórinn var kominn í takt við umferðarhraðann og fór minna eftir skiltunum? Hver veit? Við náðum allaveganna að fá okkur snarl áður en við logguðum okkur inn á völlinn því það var búið að vara okkur réttilega við því að ekki fengist ætur biti þar inni. Auðvitað fórum við þá í stærstu verslunarmiðstöð í heimi, Mall of Amerika sem staðsett er steinsnar frá vellinum. Við höfðum nú hvorki vilja né tíma til að labba þar mikið um en maður gat heyrt í rússibananum í tívolíinu sem er þarna inni. Kaninn er klikk.
Á flugvellinum máttum við svo dúsa við ekki neitt í tæpa 3já tíma. Fengum að vita að vélin var full sem leiddi af sér þá staðreynd að við þyrftum einhvern veginn að koma okkur 3remur fyrir í 2veimur sætum. Það jákvæða við þetta allt saman var samt að vinur minn góður flaug okkur heim. Karlinn fékk meira að segja að sitja frammí við flugtak og lendingu sem var ákveðin lífsreynsla og bara jákvæð. Ég sá reyndar að flugmenn nota ekki helminginn af tökkunum og mælunum sem þeir eru með fyrir framan sig og ég efast um að þeir virki yfir höfuð.

260510
Lending í KEF og brunað heim og náðum Skvísunni og Spiderman I fyrir skóla. Það er ekki ljóst hver var kátastur í húsinu, við, börnin eða afi og amma sem komust heim í pásu.
Dagurinn leið svo með því að halda sér vakandi ef frá er skilinn rúmur klukkutími sem fór í svefn á pallinum. Það er svo gott að sofa úti. En með vökunni náðum við að snúa okkur í réttan gír strax næsta dag.

Þessi ferð var ævintýri og frábær í alla staði.

Takk fyrir okkur


Karlinn er svo langt frá því að vera í lagi...

Ég er nú bara einu sinni þannig gerður að þegar ég sef þá sef ég bara og það er fátt sem truflar það og ekki margt sem vekur mig nema ef vera skildi konan. Konan hefur nefnilega tekið það að sér að stilla klukkuna á heimilinu og pota mér framúr á morgnana. Nú þegar hún er í orlofi hefur það komið í minn hlut að koma skvísunni í skólann og Spiderman I í leikskólann. Ég held að ég standi mig bara ágætlega í því þó ég fái stundum að heyra það að fatavals-sjatteringarnar séu kannski ekki alveg fullkomnar og það gangi ekki að senda skvísuna í skólann með slegið hárið dag eftir dag. En þau komast í skólann og það er nú fyrir öllu.

Spiderman II er ekki alveg að fatta það að það eigi að sofa eins og pabbinn á nóttunni. Ekki það að ég verði mjög var við það því ég vakna nú ekkert þó hann sé að umla þetta og ég hef ekki græjurnar til að sinna hans brýnustu þörfum. Það kemur þó fyrir að konan verður ansi þreytt á þessu brölti og pikkar (varlega orðað) þá í mig og biður mig um að aðstoða. Það er ekkert nema sjálfsagt mál að sinna drengnum, rétta honum snuddur, færa hann milli rúma, strjúka honum eða vagga í svefn. Ég get alveg og hef alveg gert þetta nokkrum sinnum. Það óhuggulega við þetta allt saman samt er að ég man yfirleitt ekki eftir að hafa staðið í þessu stússi daginn eftir.

Spiderman I á það til að lauma sér uppí um miðjar nætur. Skiptunum fer fækkandi því sú var tíðin að drengurinn náði ekki að sofa heila nótt í sínu herbergi og kom þá gjarnan oftar en einusinni yfir í okkar herbergi. Þetta truflar mig ekki því ég sef bara. Konan sefur ekki eins vel við þessar aðstæður og á það þá til að pikka (varlega orðað) í mig og biður mig að fara með drenginn yfir í hans eigið herbergi. Það er minnsta málið og ég sé alfarið um þessa flutningsþjónustu á mínu heimili. Það óhuggulega við þetta allt saman samt er að ég man yfirleitt ekki eftir að hafa staðið í þessu stússi daginn eftir.

Skvísan er nú eins og pabbi sinn og sefur nú bara fastar ef eitthvað er. Það þarf ansi mikið til þess að hún vakni upp og það þarf ansi mikið til að vekja hana á morgnana yfir höfuð.

Liðna nótt lenti ég hins vegar aldeilis í því. Spiderman I laumaði sér yfir um leið og Spiderman II vaknaði til að fá sér sjúss. Við þetta tækifæri pikkaði (varlega orðað) konan í mig og bað mig um að fara með Spiderman I yfir í sitt herbergi. Það sem ég heyrði var hins vegar 'Klukkan er 20 mínútur yfir' sem á venjulegum degi þíðir 'Drullaðu þér framúr karl og vektu krakkana í skólann'. Það skipti engum togum, ég strunsaði með drenginn yfir í hans herbergi og óð inn í herbergi skvísunnar og vakti hana og sendi hana fram til að bursta tennur og hafa sig til. Þegar hún var vöknuð og farin fram og búin að bursta og svona kom konan fram og spurði mig hvað í ósköpunum ég væri að gera, klukkan var 04:00.

Það er nefnilega ekki bara erfitt að vekja mig... ég er alveg kex þegar ég er svona nývaknaður eða ekki vaknaður.

Þ.


Gleðilega síða hárið...

Kæru vinir... megið þið og ykkar eiga gleðilegt 2010.

Spiderman er samur við sig. Á aðfangadagsmorgun fékk hann gat á hausinn. Var í reipitogi við vin sinn og fékk spottaendann með járnsylgju í augað. Við þurftum að klemma á honum augnlokið því þau eru ekki oft saumuð hvort eð er. Glóðurauga þessi jólin hjá Spiderman.

Um daginn kom hann hlaupandi, hoppandi og skoppandi upp í sófa til mín. Vandamálið var að lendingarsvæðið sem hann hafði var ca 3 cm. Auðvitað hrundi hann úr sófanum og auðvitað lenti hann á flakkaranum okkar og auðvitað voru allar fjölskyldumyndirnar þar inni og auðvitað er diskurinn ónýtur. Karlinn átti náttúrulega afrit af öllu... nema júlí og ágúst í fyrra (2009 er í fyrra). Kunnugir vita að í júlí kom 3ja sílið (ekki búinn að fá viðurnefni) og ég geng því með krosslagða fingur allan daginn og vona að NASA nái að redda þessum myndum.

Spiderman er hrifinn af flugeldum. Systir hans er það líka. Munurinn á þeim er samt sá að skvísan er varkár. Spiderman tapaði sér gjörsamlega á gamlárs. Hann ætlaði í allar sprengjurnar og helst allar í einu. Það var alveg sama hvað ég sagði honum oft að taka ekki sprengjur nema að spyrja mig og að hann ætti að láta eldsýturnar vera, hann var alltaf kominn inn í skúr að sækja meira. Kvöldið var samt slysalaust en það munaði litlu á nýjársdag þegar hann komst í rokeldspýturnar og kveikti í einni inni í bílskúr á meðan hann var að bíða eftir mér... karlinum brá heldur betur þegar hann kom að honum í reykfylltum skúrnum umvafinn skoteldaafgöngum.

Á jólaballi um daginn leið honum ekki sem best, var eitthvað slappur, vildi ekki vera með. Það er frekar ólíkt honum og við stíluðum því inn á það að hann væri veikur. Þegar lætin róuðust og flestir voru komnir í veitingar ákvað ég að fara með hann inn í salinn þ.s. tréið stóð. Við leiddumst þarna eftir ganginum feðgarnir og fórum hægt yfir. þegar við komum inn í salinn, sleppti hann hendinni á mér og skellti sér í eitt handahlaup áður en hann labbaði sér rólega til mín aftur og við settumst niður og spjölluðum um jólasveinana.

Svona er Spiderman.

Þ.


Redneck ferð ársins...

Það var mikill spenningur í hópnum þegar lagt var af stað úr bænum kl 18:11 síðastliðið fimmtudagskvöld. Búið að redda pallbíl með stærsta bassaboxi sem sögur fara af, pakka haglabyssunum og gommu af skotum í skottið, hlaða talstöðvarnar og gps tækin og koma við í búðinni og kaupa kjöt og kartöflur. Grænmeti er ekki liðið í redneck-ferðum.
I-poddinn tengdur í græjurnar og rúllað af stað undir dynjandi rocktónlist og hatturinn á sínum stað. Ferðin gekk vel þrátt fyrir smá slæd og hálku og eftir að hafa séð einn á hvolfi í Skagafirðinum var aðeins slegið af olíugjöfinni.
Ræs 8:30 á föstudegi og nestið smurt og skjálfti í hægri vísifingri. Hraunið í Mývatnssveit skartaði sínu fegursta nema skortur var á fuglum. Sáum þó nokkra og eitthvað var plaffað. Eftir langan dag og allt uppí 22km göngu var farið heim með aflann og brunað beint í Jarðböðin. Það er fátt betra en að láta líða úr sér eftir góðan dag. Auðvitað var svo grillað um kvöldið og mikið af sögum flugu á milli fram á nótt.
Ræs 8:30 á laugardegi og nestið smurt. Skjálftinn í hægri vísifingri enn til staðar. Nú var ákveðið að fara austur fyrir hraunið og upp í fjöll. Keyrðum austur fyrir Þrengslaborgir og suður í Bláhvamm. Ekkert eðlilega magnað landslag. Eitthvað sáum við minna af fugli en seinnipartinn sáum við 30 fugla í hóp lengst upp í fjalli. Við á eftir. Þegar við vorum tæplega hálfnaðir leit ég niður og gjörsamlega fraus. Ég komst ekki áfram og ekki til baka. Hlíðin var svo snarbrött. Ef ég hefði rúllað niður hefði ekkert stoppað mig, ég hefði farið alla 300 metrana og varla verið að skrifa þetta núna. Ég hafði mig þó að lokum niður en þetta var ekki eins mikið redneck og ferðin gaf til kynna. Við enduðum svo í lóninu aftur um kvöldið og grilluðum.
Ræs 9:30 á sunnudegi og pakkað í bílinn. Við getum huggað okkur við það að koma heim með u.þ.b. 35 kg af kjöti til baka þó að megnið af því hafi einhvern tíma borið ull en ekki fiður.

Frábær ferð engu að síður og nú er maður alveg veikur í að komast í meiri fugl... aftur og aftur og aftur.

Þ.


Kom ekki tómhentur heim

Þá kom aððí...
Karlinn búinn að fara fyrstu rjúpnaveiðiferðina...

Fór með 2veim grönnum upp á Holtavörðuheiði á laugardaginn. Við okkur blasti svarta þoka en ákáðum að það yrði gott veður síðar um daginn og lögðum af stað í fjallið. Við vorum með 5 GPS tæki þ.a. við reiknuðum með að rata til baka, einhvernveginn og það hafðist.
Ferðin var svona ljómandi. Það rættist úr veðrinu, þokan tók sig og fullt af fugli (sérstaklega þarna fyrst og síðast). Ég er nú ekki vanur fjallgöngum svona í seinni tíð og þetta tók töluvert í... tæpir 15 km í labbi og rúmlega 800 m hækkun í snjó (hörðum sem betur fer) og stórgrýti. Ég hefði helst viljað skilja bæði hnéin eftir uppi á fjalli og vinstri nárann í austurhlíðinni, en það var ekki í boði.

Önnur rjúpnaveiðiferðin er í skipulagningu. 4ra daga ferð norður í Mývatnssveit með 'gæd'. Það er eins gott að maður nái í jólamatinn því þó ég hafi ekki komið tómhentur heim þá náði ég ekki í matinn fyirr alla. En skotnýtingin er enn í lagi þrátt fyrir að ég hafi nú ekki stundað þetta og ekki hef ég farið á æfingasvæðið í þessu sporti frekar en golfinu... 30%

Þ.


Rjúpan skeit á bílinn...

Fjölskyldan gerði sér (nokkura) daga mun í síðustu viku og skellti sér í bústað á Flúðum. Það er ekki eins og þetta hafi verið í fyrsta sinn sem við tökum okkur bústað þar á leigu enda yndislegt með afbrigðum að njóta lífsins í þessari kyrrlátu sveit. Sílin hamast upp um fjöll og firnindi og konan leggur sig fram við að elda sérstaklega góðan mat handa karlinum (man reyndar ekki til þess að hafa fengið eitthvað annað en reglulega góðan mat hjá frúnni - sem er gott).

Það er tvennt sem stendur uppúr eftir þessa ferð fyrir utan þetta venjulega afslappelsi og matarát.

Annars vegar var það allur rjúpnafjöldinn sem herjaði á bústaðinn og nágrenni. Það var ekki þverfótað fyrir þessum steikum í sveitinni. Þetta er bæði gott og vont. Gott af því að maður getur verið nokkuð viss um að það sé nóg af þessum fugli um þessar mundir og vont af því að nýliðin helgi var fyrsta leyfilega veiðihelgin á árinu og ég í fjölskylduferð í bústað. Eins og glöggar lesendur hafa ekki látið fram hjá sér fara öðlaðist ég veiðiréttindi í haust auk réttinda til að meðhöndla skotvopn og var því ekki til friðs mig klæjaði svo að komast í veiði... en nei ekki þessa helgina. Til að kóróna svekkelsið vaknaði ég á sunnudagsmorguninn og leit út í blíðviðrið og sá að rjúpnafjölskylda hafði setið á tengdamömmuboxinu mínu og skitið all hressilega... bara svona til að nudda saltinu.

Hins vegar var það Spiderman I sem átti enn eitt gullkornið. Þannig var að faðirvorið hafði eitthvað gleymst í kvöldverkunum í sveitinni hjá okkur feðgum en mamman ætlaði að sjá til þess að halda guðrækninni við. Spiderman I var eitthvað latur við þetta og eftirfarandi samtal átti sér stað:
Spiderman I: 'Er Guð ekki bara í Hafnarfirði?'
Mamma: 'Nei elskan, Guð er alls staðar'
Spiderman I (hugsar): 'Vá, er hann svona stór?'

Ætli það sé ekki best að klikka svo út með eftirfarandi texta úr leikskólauppfærslu Spidermans I á ABBA söngleiknum Mamma Mía:

'Mamma Mía, datt í drullupoll
 Æ, æ, hvernig kemst hún uppúr?'

Þ.


Alltaf að finna eitthvað nýtt á veraldarvefnum...

Það er svo merkilegt að maður er alltaf að finna eitthvað nýtt á veraldarvefnum.

Nýjasta uppgötvun mín er 'offissíjal' heimasíða Tom Waits (tomwaits.com). Ég var einhvern tíma búinn að setja hana í 'feivorits' þ.a. ég er eiginlega að uppgötva sama hlutinn aftur nokkrum árum síðar. Þessi síða er alveg mögnuð og það eina sem vantar inná hana er að leyfa manni að niðurhala lögunum sem þó er hægt að spila, eitt í einu reyndar en það er alveg ótrúlegt úrval laga sem hægt er að spila. Þar fyrir utan er alls konar fróðleikur og fréttir á síðunni og hægt að skoða 'mjúsikk-vídeó' og allt. Rúsínan í pullunni er svo frítt download af nokkrum nýjum lögum... eins konar 'tíser' fyrir nýjustu plötuna Glitter and Doom Live.

Á síðunni má sjá að kappinn hefur gefið út einar 23 skífur og ég sem hélt að ég væri alvöru vifta (e. fan) en ég held að ég eigi bara 6 eða 7 þeirra.

Þ.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband