Færsluflokkur: Lífstíll
2009-10-14
Vinur minn Yasser Arafat
Vinur minn gæti verið Yasser Arafat. Ég uppgötvaði þetta eftir að hafa spjallað aðeins við hann í gær. Sagan segir að Arafat hafi aldrei sofið á sama stað 2vær nætur í röð vegna hræðslu við banatilræði andstæðinga sinna. Vinur minn er nú kannski ekki svona paranojaður en hann á kost á því að sofa í mismunandi herbergjum í húsinu sínu alla vikuna án þess að þurfa að sofa í sama herbergi 2 nætur í röð. Ég stakk upp á því við hann að hann legði þetta til við konuna sína. Hann gæti undirbúið þetta vel, þóst halda að einhver væri að fylgjast með sér og gert sér upp alls konar paranoju og svo upp úr þurru leggja þetta til...
'Heyrrru essskan, getum við skipt um herbergi milli nátta?'
Hvernig ætli þetta komi út?
Ég er virkilega spenntur fyrir þessu?
Vona að hann láti verða af þessu og taki svo mynd af konunni þegar hann styngur uppá herbergja niðurröðuninni... hann verður nefnilega að setja þetta upp í excel...
mánudagur = herbergi 1
þriðjudagur = herbergi 2
osfrv.
Nú ef hann verður leiður á þessu getur hann alveg eins notað excel til að gefa sér random tölu, svona eins og þegar eðlisfræðikennarinn okkar í MR var að velja okkur upp á töflu í gamladaga.
Hann heitir Simmi og var í sundlaugablárri peysu.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2009-10-06
Það er þetta með snjóinn
Í gærmorgun átti ég í rökræðum við Spiderman I um snjó. Af því að það var kalt og af því að það var ísing á bílnum þegar við lögðum af stað, þá var hann alveg viss um að snjórinn kæmi. Ég var að reyna að segja honum að við þyrftum kannski að fylgjast aðeins með veðurfréttunum til að fá hugmynd um hvort eða hvenær snjórinn kæmi, því þó það væri kalt og þó það væri ís á bílnum væri nú samt ekkert víst að það kæmi líka snjór. En nei hann var harður á því að snjórinn kæmi þennan sama dag og takið eftir því að við vorum að ræða þetta í gærmorgun!!
Skemmst er frá því að segja að Spiderman I hafði aldeilis rétt fyrir sér og það þarf ekki að taka fram að hann var frekar kátur með þetta allt saman. Ég rétt náði að draga hann inn í kvöldmat rúmlega 1900 og þá var hann búinn að vera sleitulaust úti frá því að hann kom úr leikskólanum. Það þarf heldur ekki að taka fram að drengurinn var alsæll, búinn að fara í snjókast með félögunum og sjálfsagt hafa þeir gert einhver prakkarastrik líka, eitthvað sem maður fær ekki að heyra af... Vona bara að mér hafi tekist að kenna honum að borða ekki gula snjóinn.
Skvísan er nú ekkert minna hrifin af snjónum, þó hún sé orðin svo mikil skvísa að það tekur 40 mín á morgnana að velja sér föt. Hún er orðin hættulega 'pikkí' á það sem hún vill vera í og það er ekki alltaf nákvæmlega sama dress og mamma hennar hefði kosið en sá gamli lætur sér yfirleitt fátt um finnast. Það er helst að hún er ekkert endilega að velja föt eftir veðri og vindum og getur valið hnausþykka galla í sól og blíðu en helst ekkert nema pils þegar frost og snjór eru úti. Ætli hún verði þá ekki bara að læra það 'ðe hard vei' að stundum þarf maður að taka tillit til hitastigsins við val á klæðnaði. Það vona ég allaveganna.
Spiderman II gerir ekkert annað en að stækka og þroskast. Hann heldur orðið sæmilega haus þó að maður sé kannski ekki farinn að stilla honum upp í setstöðu alveg sjálfum. Hann lætur sér fátt um finnast um snjóinn en það kemur örugglega fyrr en mann grunar.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-09-28
Sindri Svend
Litli kútur fékk nafnið Sindri Svend við hátíðlega athöfn í gær. Foreldrarnir eru ægilega stoltir, ekki bara af honum heldur líka hinum sílunum. Spiderman I fékk að segja nafnið á Spiderman II og skvísan hélt á honum undir skírn og söng svo einsöng fyrir alla. Það var frábært.
Einni gátunni færra.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-09-25
Luftslottet som sprängdes
Ég get alveg viðurkennt að ég hef ekki verið þekktur í gegnum árin fyrir að lesa mikið af bókum. En með aldrinum hefur mér lærst að það er hin besta skemmtan. Iðulega næ ég nokkrum blaðsíðum áður en ég lognast útaf á kvöldin. Skemmtilegast finnst mér að lesa góðar spennusögur og nú er ég fastur í Stieg Larsson.
Ég fékk fyrstu bókina 'Karlar sem hata konur' í jólagjöf í fyrra og las hana 'med det samme'
Aðra bókina 'Stúlkan sem lék sér að eldinum' fékk ég á enskri hljóðbók og hún rúllaði í spilaranum nótt eftir nótt (þurfti svolítið að spóla til baka þegar ég sofnaði út frá sögunni)
Og þegar mér áskotnaðist þriðja bókin 'Loftkastalinn sem sprakk' var ég ekki lengi að grípa tækifærið. Hún er reyndar á sænsku og það hægir aðeins yfirferðina. Vona bara að ég verði búinn áður en myndin kemur.
Fyrsta myndin var nefnilega snilld og ég er aðeins búinn að sjá úr annarri og hún verður ekki síðri. Meiri hasar og meiri hraði en fyrsta sagan býður uppá.
En rosalega getur maður verið kex...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-09-18
Löggiltur morðingi...
Ég fékk frábæra jólagjöf í fyrra frá konunni og sílunum, skotveiðinámskeið. Bæði veiðikortanámskeið og byssunámskeið. Að loknum þessum námskeiðum og meðfylgjandi prófum er ég löggiltur morðingi (eins og verðandi svili minn benti mér á). En það má ekki myrða allt og það sem má myrða má ekki alltaf myrða. Ég lærði það. Mikið hlakka ég samt rosalega til að komast í fyrsta leiðangurinn.
Ofangreind námskeið voru mjög góð. Sérstaklega veiðikortanámskeiðið, fræðandi og vakti mann til umhugsunar. Það var líka skemmtilegur karl sem hélt fyrirlesturinn. Það er reyndar ótrúlegt að menn séu ekki skyldaðir til að fara á þennan fyrirlestur reglulega, kannski á 5 ára fresti, því sjálfsagt er það margt sem breytist í þessu. Rjúpnaveiðitímabilið breytist á hverju ári orðið, þó að veiðitíminn sé sá sami skv. rammanum þá breytir umhverfisráðherra sem fer með valdið raunverulegum veiðidögum. Það er reyndar ógrinni af tegundum sem má veiða og ég skil ekki afhverju maður er bara ekki alltaf úti á túni að skjóta... kemur kannski að því. Það eina sem mætti setja út á námskeiðið var prófið sjálft en það er ekki auðvelt að greina fugla á mynd sem er prentuð á blað í stærðinni 1,5 x 2,0 cm. Prófið Sílamáv. Hann er eins og Svartbakur, hvað þá á svona mynd. Mér skilst reyndar að þetta sé betra núna eftir að þeir prenta prófið í lit.
Byssunámskeiðið var líka mjög gott... svona fyrri hlutinn. Það var tvær kvöldstundir og þá fyrri var farið yfir vopnin sjálf, byssur og skotfæri. Fyrirlesarinn, byssusmiður, vissi ALLT um byssur og því sem þeim fylgir. Það var fróðlegt og gaman að hlusta á hann. Síðari hlutinn fjallaði meira um öryggi og löggjöfina í kringum byssur og meðferð þeirra. Lögfræðingurinn sem átti að vera með þann lestur mætti aldrei svo byssusmiðurinn kom aftur. Hann var ekki alveg að slá í gegn þá, enda aldrei haldið þennan fyrirlestur og ef hann hefði ekki verið svona skemmtilegur fyrri daginn, hefði ég ælt í kramarhúsið sem ég var búinn að búa til úr bókasafnsbókinni.
Allt endaði þetta svo með prófi og ég sem ekki hafði farið í próf í 10 ár stóðst pressuna. Maður var svona í menntaskólafílingnum, las ekki bókina en hlustaði sæmilega. Labbaði allaveganna út með rúmlega ágætiseinkunn í báðum. Karlinn seigur.
Lokadagurinn var svo verkleg kennsla og það var verulega gaman fyrir gaur eins og mig sem hef ekki oft skotið úr byssu... líklega um 20 ár síðan ég gerði það fyrst og síðast. Hittnin var góð með rifflunum og ekki slæm með haglaranum í leirdúfunni (50%).
Það var reyndar eitt sem böggaði mig töluvert við þetta... ég hef aldrei séð svona marga Redneck-a saman komna á einum stað... vissi ekki einusinni að það væru svona margir til á Íslandi.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
'Mamma er GAS-ólétt...' - Spiderman er á því að mamma hans sé gas-ólétt og skilur ekkert í því að maður liggji stundum á skeljunum af hlátri...
Það er rétt hjá honum, eða það sem hann meinar... konan er vel ólétt enda ekki nema 11 dagar í pantaða skurðstofu. Já 3ðji keisarinn... eftir 2vo er bara eitt í boði. Það er fínt. Höfum gert þetta áður, þekkjum ekki hitt og núna eigum við meira að segja pantaðan tíma þ.a. það er engin óvissa í þessu. Hin sílin voru sótt eftir langa göngu framyfir (eins og það heitir) en núna verður þetta bara 'punktlig' - keisari fyrir hádegi, golf eftir hádegi. Ekkert vesen, engar spurningar.
Annars er allt að verða klárt og það er ekki beint mér að þakka. Konan er búin að sjá um þetta allt saman sjálf og lætur engan bilbug á sér finna (hvað sem það merkir nákvæmlega eða orðrétt). Ég hef ekki farið fram úr mér í því að stjana í kringum hana eins og áður þó ég hafi rétt eina og eina hjálparhönd. Hún er hetja og á allan heiður skilinn.
Nafnið er það eina sem vefst fyrir okkur...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-07-01
'Pabbi þarf að vinna í nótt...'
Spiderman er að fara á kostum þessa dagana. Það er allt svo gaman, það er gaman úti að leika með vinunum hvort sem það er fótbolti eða köngulóaveiðar, hjól eða njósnaleikur. Það er heldur ekki lítil upphefð að vera kominn í flokk í fótboltanum... farinn að æfa með 8unda flokki hjá Haukunum (þó hann haldi með KR og Chelsea líka). Hann ætlar nefnilega að verða 'fótboltamaður' þegar hann er orðinn stór og við gömlu ættum því að njóta þess ef þeir asnast ekki til að setja launaþak í Evrópuboltanum og banna ekki mafíósunum og olíufurstunum að kaupa sér lið. Sjáum hvað setur. Gamli er líka duglegur að draga Spiderman út í sendó og skjótó og núna upp á síðkastið er líka suðað um hendó. Þetta eru allt boltaleikir sem snúast um að senda boltann á milli með mismikilli áherslu á mörk... mitt mark er oftast mun stærra og hreyfanlegra en hans sem þó getur verið ansi hreyfanlegt líka... en þá á hinn veginn.
Spiderman er líka farinn að taka upp á því að syngja dægurtónlist og þá helst á útlensku enda er það mun líklegra til árangurs. Hann á þó eitt og eitt uppáhalds íslenskt... t.d. Baggalútslagið Pabbi þarf að vinna í nótt. Textanum hefur hann aðeins hnikað til og hljómar söngurinn eitthvað á þessa leið:
Pabbi þarf að vinna í nótt
Hann þarf að hitta kellingar
Hann þarf að hitta kellingar
og fara'ðeins með þeim niðrí bææææ
Pabbi þarf að vinna í nótt
Ekki fara að gráta elskan mín
Ekki fara að gráta mamma mín
Þó pabbi þurfi að vinna í nótt
Hann þarf að hitta kellingar
Hann þarf að hitta kellingar
og fara'ðeins með þeim niðrí bæææææ
Pabbi þarf að vinna í nótt
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 23:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-04-01
Allt í plati, rassagati...
Dagurinn byrjaði glæsilega... eftir að hafa vaknað fyrir allar aldir (sem tekur töluvert á hjá karlinum) skellti ég mér í ræktina og tók hressilega á því. Á leiðinni heim voru svo ótrúlegar tilkynningar í útvarpinu að ég mundi allt í einu eftir því að í dag er fyrsti apríl.
Auðvitað var enginn kominn á fætur þegar ég kom heim og ég fór í það að vekja liðið. Þegar sílin voru búin að þurrka stýrurnar úr augunum ákvað ég að plata... ég kallaði til þeirra af neðri hæðinni og sagði þeim að það væri kanína í bílskúrnum. Auðvitað hlupu þau til og inn í bílskúr án þess að finna kanínu. Þá gat ég kallað sigri hrósandi 'FYRSTI APRÍL'. Skvísan tók þessu með bros á vör en Spiderman lagðist í gólfið og öskraði að það mætti ekki plata. Hann langaði virkilega að sjá kanínuna hoppa um í bílskúrnum. Kannski á mörkunum að mega plata börnin svona en ég stóðst ekki mátið.
Eftir að hafa róað Spiderman niður, fóru þau upp til að hafa sig til fyrir skólann... kallar þá ekki konan kasólétta á mig og segist þurfa aðstoð því hún sé með svo miklar blóðnasir. Hún hefur nefnilega verið að fá blóðnasaköst undanfarið sem enduðu hjá lækni og brennt var fyrir æðar í gær. Auðvitað stökk ég til og hljóp upp stigann, inn á bað, náði í pappír og inn í svefnherbergi þ.s. ég bjóst við að sjá rúmið mitt á floti... hvað haldiððði... konan lá þar í mestu makindum með sílunum og þau kölluðu í einum kór 'FYRSTI APRÍL'. Ég varð brjálaður. Ég ætlaði ekki að láta ná mér í þetta skiptið en hvað gerir maður ekki fyrir ólétta konu með blóðnasir. Þetta er ekki sanngjarnt. Ég flokka svona gabb í sama flokk og ef ég myndi hringja í lok vinnudags í hana og biðja hana að sækja mig á spítalann því ég hefði lent í árekstri. Dettur mér í hug að gera svoleiðis? Nei. En konan? Hún var búin að plana þetta gabb í marga daga...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2009-03-26
Fastur í 90tíu +
Góður vinur minn benti mér fyrir margt löngu á frábært markmið sem ég hef nú sett mér.... 'Stefna að því að vera í betra líkamlegu formi 35 ára en 30 ára og vera í betra formi 40 ára en 35 ára'
Ég stefni ótrauður á þetta núna.
Ég þarf svosem ekki mikið til að vera í betra formi í ágúst 2009 en ég var í fyrir 5 árum af fjölskyldumyndum að dæma... það er önnur saga... hitt verður þá meira 'tsjallens'.
Ég hófst því handa í febrúar af fullum þunga að koma mér í form. Byrjaði í boxi. Box er bæði skemmtileg íþrótt og gríðarlega erfið sem tekur á nánast öllu sem til þarf til að koma sér í gott form. Eftir 3jár vikur í boxi varð ég að hætta þ.s. hnén fóru að gefa sig. Ég hefði haldið að hásinin yrði til vandræða en það var ekki. Hnén hafa aldrei náð sér eftir húsbyggingarnar þrátt fyrir speglun. Hnjáverkir eru leiðinlegir því þá getur maður eiginlega ekkert gert. Skýringarnar voru þær að ég væri of þungur (ha??? hættulega nálægt 3ja stafa tölu) og þyrfti að létta mig EN ég mátti ekki hreyfa mig! OK!?!?! Hvernig fer maður þá að?
Þetta eru kannski pínu ýkjur... ég má hjóla og synda og nota gönguskíðavélina í ræktinni og styrkja efri hlutann að vild og gera nokkrar æfingar fyrir lappir. Ég má ekki hlaupa og hoppa og taka djúpar hnébeygjur (þar fór boxið) eða fara í tækið þ.s. maður setur lóð framan á sköflunginn og réttir úr hnjánum. Eftir að hafa fengið tilsögn í þessu ákvað ég að kaupa mér kort í ræktina sem ég get líka notað í dýrustu sundlaug Evrópu (þó hún sé bara hálfnað verk) svona ef ég skyldi gugna á þessu öllu saman þá gæti ég allaveganna notað kortið til að fara með krakkana í sund. Ég hef nefnilega einusinni eða tvisvar átt svona kort en ekki nýtt það til fullnustu (hmmm).
Þó ég segi sjálfur frá þá er ég ótrúlega duglegur að fara í ræktina. Ég er búinn að eiga þetta kort í 20 daga og hef ekki misst út nema 4 daga í æfingum (mætt 16 af 20). Vandamálið sem ég stend hins vegar frammi fyrir er að ég virðist vera fastur í 90+ - rokka á vigtinni frá 90,5 til 91,5 (já ég vigta mig daglega... ekkert sjúkt). Mig vantar þennan herslumun til að sunka undir 90. Markmiðið var að komast niður í 85 í maí og ég hef því nokkurn tíma til stefnu en hann styttist óðum og ég fer að verða stressaður. Þetta byrjaði nefnilega helv... vel í boxinu þ.s. ég smurði af mér um 3,5 kg á 30 dögum en ræktin hefur bara skilað kílói á góðum degi en engu þess á milli (þegar maður vigtar sig daglega tekur maður eftir því að maður rokkar kíló+ til og frá milli daga).
Ég trúi því samt að þetta muni skila sér að lokum og að í ágúst 2009 verði ég í betra formi en ég hef nokkurntíma verið undan farin 5 ár... jafnvel í betra formi en ég hef í raun verið undanfarin 10-15 ár eða frá því að ég hætti að æfa keppnis-íþróttir reglulega.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2009-03-16
Annar spotti...
Fyrir þá sem ekki vita það nú þegar þá er 3ja sílið á leiðinni.
Sónar í morgun og það er eins 100% og hægt er að hafa það í sónar (vilja ekki gefa afdráttarlausari svör) að það er nýr skæruliði á leiðinni. Það er mikið búið að spekúlera í þessu innan fjölskyldunnar og hef ég venjulega verið talinn versti spámaðurinn.
Fyrsta barn - ég var alveg á því að það væri stelpa til að byrja með eða þangað til ég sá sónarmyndina þá skipti ég um skoðun og var klár á því að þetta væri strákur. Við vildum ekki fá að vita kynið í það skiptið en mér fannst þetta bara eitthvað svo strákalegt... ekki það að ég væri einhver sérfræðingur í sónarmyndum (hafði nú ekki séð þær margar ef einhverjar fyrir þennan tíma). En viti menn, stelpa var það.
Annað barn - ég var alveg viss um að það væri strákur í upphafi en svo fékk ég bakþanka... fór að hugsa... ég var nú á þessum tíma soddan 'stelpu-pabbi' þ.s. skvísan snéri mér um fingur sér eins og ekkert væri sjálfsagðara. Ég fór því að hallast að því að þetta væri stelpa. Annað barn og við vildum vita kynið. Auðvitað var það strákur.
Þriðja barn - ég var sannfærður að nú kæmi önnur stelpa, veit ekki afhverju en svona var það bara... þangað til ég fór að pæla aðeins meira í þessu... nei líklega er þetta strákur. Og af því að ég var í sama mynstri og með fyrsta barn var ég farinn að telja mér trú um að þetta væri stelpa þó ég héldi að þetta væri strákur. En hvað haldiððði? Strákur að öllum líkindum.
Þetta minnir mig óþægilega á stærðfræðikennarann minn í 4 bekk í MR sem hafði aðeins eitt ráð fyrir okkur þegar kom að prófum (vorum að læra sinus og kosinus) 'Það er alltaf öfugt við það sem þú heldur.'
Að öðru... Þvottavélin okkar dó aftur og enn fyrir síðustu helgi. Ég er tiltölulega nýbúinn að fá hana úr viðgerð en nú kom upp önnur bilun. Þessi vél hefur dugað okkur í rúm 9 ár og samkvæmt sérfræðingum er meðallíftími þessara tækja ekki nema 7 og þannig réttlætti ég kaup á nýrr vél. Þvílíkur munur. Ekki datt mér í hug að þvottavélar gætu verið nánast hljóðlausar. Ég elska þessa nýju vél. Sérstaklega af því að ég er ekki búinn að læra á hana enn þá og ÞARF að láta þvo af mér. Hvað haldiðððði að ég komist upp með það lengi?
Gamla vélin fór á haugana. Ég var mikið búinn að pæla í því hvort ég ætti að fá þá nýju senda heim fyrir 2.500 ISK og múta svo bílstjóranum til að taka þá gömlu með sér fyrir 2.000 ISK (gangverðið í dag) en svo kom nýskan upp í mér auk þess sem þvotturinn var farinn að hrannast upp eftir vikuna og ég gat ekki beðið fram á mánudag (í dag) til að fá hreinar nærur. Ég fékk því jeppann hjá tengdó og skutlaðist á laugardaginn og sótti vélina. Verslunarstjórinn vippaði henni með mér í skottið. Nágranninn hélt á gömlu vélinni með mér út og nýju inn (gott að eiga góða granna) og svo renndi ég upp á Sorpu með vélina upp á von og óvon um að einhver myndi skutla henni með mér í gám. Ég var þá alltaf með plan B sem var að skilja vélina eftir í jeppanum hjá tengdó og 'þykjast' hafa gleymt að koma við á Sorpu. En Sorpa stóð fyrir sínu og einn rúmlega 60tugur kubbur tók hana nánast á eigin spýtur úr skottinu og vippaði henni í gáminn. Snillingar á sorpu.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)