Færsluflokkur: Lífstíll

Dótadagur!!!

Það kann ekki góðri lukku...

Það að láta gamla sjá um hlutina getur verið þægilegt en oftast er það klúður. Skipulagið er venjulega þannig á heimilinu að ég sé um að koma Spiderman í leikskólann og mamma hans sækir hann oftast. Það hefur gengið vel og ég gleymi næstum aldrei töskunni með aukafötunum og pollagallanum og stígvélunum og þessu helsta sem þarf að vera með í upphafi hverrar viku. Það hefur komið fyrir að ég hafi gleymt þessu en ekki oft, ég gleymi oftar ef það er eitthvað auka sem þarf að taka með sem ekki er búið að setja í töskuna fyrir mig áður en ég legg af stað. Ég gleymi líka iðulega að koma skilaboðum milli staða, ef það er eitthvað sem mamma Spidermans vill koma á framfæri við skólann eða kennararnir (heita ekki fóstrur í dag) vilja koma til skila heim til Spidermans (þetta einskorðast ekki við leikskólann, þetta er almenn skilaboðafötlun hjá mér).

Í gær brá svo við að ég sótti Spiderman líka vegna anna móður hans. Ekkert mál, geri þetta stundum líka. Svo leið og beið og næsti dagur rennur upp með sól í heiði - NEI ég gleymdi ekki að sækja hann!! - við örkum af stað í leikskólann. Þegar þangað er komið er mér tilkynnt pent að það sé DÓTADAGUR. Ha?? af hverju sagði mér enginn frá því í gær?? Hvað er að þessu liði. Jú tilkynningar höfðu verið hengdar upp á töflur og veggi skólans auk þess sem miði lá í hólfi drengsins þar sem skýrt var tekið fram að það væri dótadagur. Annar veikleiki hjá mér. Ég er ekki góður í tilkynningum, hvorki að sjá þær né lesa þær ef ég sé þær, hvað þá að koma upplýsingunum til mömmu Spidermans.

Spiderman tók þessu ótrúlega vel. Pirraði sig ekkert rosalega mikið á pabba sínum. Ég reyndar var ótrúlega snöggur að huxa miðað við að klukkan var rétt rúmlega 08:00 og bauðst til að skutlast heim og sækja eitthvað spennandi. 'Hvað á ég að sækja fyrir þig karlinn minn?'  -  'Eldbílinn sem ég fékk í skóinn!'  -  Hvaða bíll er það? Sjitt, hef ekki hugmynd... allaveganna ég bruna heim og sæki alla bílana sem bera einhvern vott um eld eða eldskreytingar. Arka niðreftir aftur og hafði þá rambað á réttan bíl (enda með 10 stk í fanginu) en ég er viss um að hann hefur ekki fengið þennan í skóinn.

Þ.


Það rann upp fyrir mér...

... hvað ég er að verða gamall þegar konan (sem er jafnaldri minn) hélt upp á 35 ára afmælið sitt. Fyrir 20 árum voru 35 ára gamlir karlar og 35 ára gamlar konur, ellismellir í mínum huga. Ég meina þegar ég var 16 ára og Íslandsmeistari í knattspyrnu, var mamma 35 ára. KOMMON!!! Hvert fór þessi tími??? Ég er ekki Íslandsmeistari í knattspyrnu í dag... liðið mitt er ekki einusinni Íslandsmeistari í knattspyrnu. Það eina sem maður gerir er að sofa, vinna, gefa krökkunum að borða, horfa á Kiljuna, lesa 2vær bls og sofa meira.

Annars heppnaðist afmælispartýið prýðilega. Súpa að venju. Ný týpa, Mexicosúpa með snakki og 'gvakamóle'... assskoti fín. Fullt hús af fólki en skvísan valdi samt frekar að fara úr miðju partýinu til að horfa á körfuboltaleik - fékk að fara með meistaraflokki inn á völlinn og svaka spenningur. Við vorum nú ekki alveg á því að leyfa henni að fara... en eftir á að hyggja hefði ég nú ekki meikað að vera allan tímann í afmælinu hennar mömmu þegar hún var 35 ára ef annað hefði staðið til boða.

Svona er maður gamall.

Þ. 


Sjitt hvað þetta er óþolandi...

Það er svo skrítið að stundum er ekkert að gerast, heilu helgarnar sem maður þarf ekkert að huxa og ekkert skipulagt, engin matarboð eða afmæli eða hvað þetta allt getur verið. EN svo þegar eitthvað er planað þá þarf allt að hrúgast inn á sama tíma... það liggur við að það þurfi að hlaupa á milli boða.

Hafið þið tekið eftir þessu?

Svo er það nú eitt með alla þessa daga sem tileinkaðir eru konum, það er konudagurinn, mæðra dagurinn, jafnréttisdagurinn, dagurinn sem konur fengu kosningarétt og fleiri dagar og fleiri dagar... og maður á alltaf að gera eitthvað skemmtilegt, koma á óvart eða gefa gjafir. Hvernig á maður að muna eftir öllum þessum dögum PLÚS afmælisdögum, trúlofunardögum og brúðkaupsdögum? Það eru ekki svona margir dagar tileinkaðir körlum. Við eigum bóndadaginn og svo eigum við afmæli en okkur er yfirleitt slétt sama um hitt.

Núna er konudagurinn að renna upp á sunnudaginn. Hvað á maður að gera þá? Eru menn búnir að ákveða sig? N1 blómvöndurinn? Bíó? Æ ég veit ekki... það sem er verra að konan á afmæli á sunnudaginn líka. Sumir myndu líta á það sem kost, þurfa bara að huxa um einn dag í stað tveggja. Það er misskilningur. Það er ekki hægt að gefa sameiginlegar gjafir. Þú verður að finna tvær fyrir sama daginn. Eins og það sé ekki nógu erfitt að finna eina???

Djöv... klemma

Þ.


Rjómantík...

Spiderman er rjómantískur.

Eins og lesendum er kunnugt hefur Spiderman rosalega gaman að því að gera sér glaðan dag. Ekki vantar hugmyndirnar þegar kemur að því að skipuleggja partý... reyndar vill hann oftar en ekki hafa partý... helst á hverju kvöldi. Partý í huga Spidermans er að poppa, fá sér kannski einn ís eða tvo og ef snakk er í boði þá þiggur hann það. Við gömlu fáum því oft eftirfarandi setningar í andlitið: 'Hey! ég veit... eigum við að hafa partý?' eða 'Hey! ég veit... eigum við að poppa?' eða 'Hey! ég veit... eigum við að horfa á mynd?'
Gamla settið reynir að halda partýum í hófi og stillum þeim á helgar... enda of gömul til að djamma í miðri viku (þó það hafi stundum verið gert á yngri árumhummmhummmm).

Nýjasta æðið flokkast reyndar ekki alveg undir partý, en það er rúgbrauð. Spiderman lifir á rúgbrauði þessa dagana og myndi ekki borða annað ef hann fengi að ráða. Rúgbrauð með smjöri, osti og marmelaði. Marmelaðið er spari. Þetta vill hann fá í morgunmat enda ekki búinn að átta sig á því að morgunkorn var fundið upp fyrir foreldra sem eru að flýta sér í vinnuna svo þau þurfi ekki að standa og smyrja ofaní liðið. Það fyrsta sem hann biður um þegar hann kemur heim úr skólanum er rúgbrauð og ef hann fær að ráða kvöldmatnum þá er það rúgbrauð.

Svo er það rjómantíkin. Spiderman missti þetta út úr sér um helgina í einni af notó stundunum í pottinum: 'Mamma, mikið er þetta rjómantískt'
Núna er allt sem er notó orðið 'rjómantískt'.

Þ.


Villt og galið...

Haldið þið ekki að litla fjölskyldan hafi skellt sér í bústað um helgina!?!? Þvílík snilld. Heitur pottur, geggjaður matur, sukk og leti... allt sem þarf til að eiga fullkomna helgi.

Við fengum kennarabústað (af því að konan mín er kennari) á Flúðum frá fimmtudegi fram á sunnudag. Bústaðirnir á Flúðum eru mjög mismunandi en við leigðum bústað sem var ekki mismunandi. Nýtísku smá-íbúðarhús með öllu. Það er nauðsynlegt að hafa allt... sérstaklega uppþvottavél.
Sílin voru heldur ekki í fýlu yfir pottinum og ef mér telst rétt til þá náðu þau að fara 4 sinnum á 3 dögum (potturinn náði ekki að hitna fyrir svefn fyrsta daginn).
Karlinn var ekki í fýlu yfir matseðlinum enda var um villt og galið að ræða (gæs og purusteik)... þar að auki var svo mikil leti að hann þurfti ekki að gera neitt, eða nánast ekkert, eða allaveganna ekkert sem varð honum ofviða.

Auðvitað er svo alltaf pínu stress þegar maður þarf að skila bústað... hvaða hótelstælar eru það að láta mann skila bústaðnum kl 12 á hádegi? Hvaða stress er það? Það væri gaman að sjá í hversu mörgum tilvikum einhver annar er að koma á sunnudegi til að vera virku dagana yfir vetrartímann í þessum bústöðum... en valkosturinn að kaupa þrif bjargar ansi miklu... fyrir lítinn pening má sleppa við skúringarnar og áhyggjurnar yfir því að ekki sé þrifið nægjanlega vel, auk þess sem um atvinnuskapandi aðgerð er að ræða... ég ætla hér með alltaf að kaupa þrif á bústöðum sem ég fæ afnot af í framtíðinni svo framarlega mér standi það til boða.

Þ. 


Sour Ram Testicles, Rotten Shark, Burned Sheepheads and Brennivín

'Þetta hljómar ekki vel á ensku' - sagði einhver við mig um daginn... en mikið rosalega er gaman og gott að borða þennan mat. Þorramaturinn er bara óhollur, feitur og kæstur, en allir hafa gott af því að éta af honum enda æðisgengilega góður.
Ég blótaði 3svar þetta árið og er farinn að hlakka til næsta árs. Sérstaklega var ánægjulegt að taka þátt í hinu árlega (frá og með 2009) fjölskylduþorrablóti sem haldið var hátíðlegt liðna helgi, þ.s. saman komu 'Skútustaðaskólastjórnendaniðjar' og blótuðu ógurlega. Það er lóst að 'frástaddir' geta ekki látið þennan viðburð framhjá sér fara næsta ár.
Skvísan er löngu hætt að vilja nokkuð með þennan mat að gera og því hefur von mín verið bundin við Spiderman. Það er ekki langt síðan hann úðaði í sig hákarl og maga, súrt og kæst (skvísan var líka þannig fyrstu árin) en nú hefur hann gefist upp og heldur að allur þorramatur sé eins á bragðið og lyktin af hákarlinum, nema harðfiskur og rúgbrauð sem hann borðar af mikilli innlifun í öll mál þessa dagana með tilheyrandi vindgangi.

Talandi um að eitthvað hljómi illa á ensku. Fyrir nokkrum misserum var staddur hjá okkur í vinnunni útlendingur, sem er ekki í frásögu færandi enda oft rennerí af þeim hjá okkur, nema ég er í því að láta þá smakka eitthvað sér-íslenskt eins og hangikjöt, mysing og kindakæfu... hvað í andsk... er kindakæfa á ensku annað en 'sheep-suffication'?? Það finnst útlendingum hins vegar ekki aðlaðandi nafn eða vænlegt til markaðssetningar.

Sunddagar miklir hafa verið undanfarið hjá Skvísunni, Spiderman og mér. Spiderman er ekkert endilega spenntastur fyrir rennibrautinni ógurlegu lengur... hann vill meira vera útí djúpu og þá helst þar sem einhver er að synda eða þ.s. sundþjálfarar standa fullklæddir á bakkanum... þá er skemmtilegast að hoppa útí og gera sprengju. Svo vill hann vera kútalaus í barnalauginni þ.s. hann getur með herkjum haldið nefinu uppúr þ.s. er grynnst. Þetta er ekki normal. Af Skvísunni þarf ekki að hafa áhyggjur, hún finnur iðulega einhvern leikfélaga og svo endar sundtíminn á því að reyna að finna hana í þessu ferlíki sem sundlaugin á Völlunum er.

Guð er vinsælt umræðuefni hjá Spiderman þessa dagana.
'Guð fór upp til himna með reyk' (geri ráð fyrir að ekki sé gerður greinarmunur á Guði og syni hans).
'Afhverju bjó Guð til tunglið pabbi?' 'Vildi hann kannski hafa ljós á nóttunni?'
Og tengt þessum trúarlegu umræðuefnum vill hann meina (réttilega kannski) að langafi hans og nafni sé í moldinni... hvað segir maður þá? Fer maður að kafa djúpt í trú og/eða hjátrú? Er þetta bara rétt? Skiptist hann upp í líkama og sál? Og er afi þá á tveim stöðum? Hvernig er það hægt? Endurholgast hann sem eitthvað annað? Í hvað? Hvernig útskýrir maður þetta í rólegheitum fyrir litlum Spiderman sem er að verða 5imm?

Þ. 


Æ, ég veit ekki...

Æ, ég veit ekki...
Æ, ég veit ekki...
Æ, ég veit ekki...
Æ, ég veit ekki...
Æ, ég veit ekki...
Æ, ég veit ekki...

Erum við ekki að fara úr kúknum í skítinn???

Þ.


hef næstum engu gleymt...

Ég fór með sílin á skauta á laugardaginn sem er ekki frásögu færandi nema ég hef líklega ekki stigið á skauta (á svelli) í rúm 20 ár. Ég gat ekki skorast undan pressunni þrátt fyrir vafasamar hásinar og ónýt hné. Það er samt ekki eins og mér hafi dottið þetta í hug - 'Hey, förum á skauta' - nei þetta var hópferð á vegum körfuknattleiksdeildar Hauka þ.s. skvísan stundar æfingar.

En að skautunum. Spiderman hafði aldrei farið á skauta en skvísan hafði prófað það fyrir um 4rum árum auk þess sem hún er liðtæk á línuskautum. Spiderman var hins vegar viss um að hann væri mjög góður á skautum og því ekkert líkur föður sínum í þeim efnum (eða þannig). Ég aðstoðaði þau í skautana áður en ég batt par undir iljarnar á sjálfum mér. Í kraðakinu týndi ég syninum fljótlega. Þar sem ég stóð upp og skimaði í allar áttir rak ég augun í hann, kominn út á mitt svellið... á rassinum. Ég dreif mig því að reima á mig vinstri skautann og æða út á svellið til að bjarga Spiderman. Honum fór fljótlega að leiðast það að geta ekki hoppað í hringi... eða standa í lappirnar yfir höfuð og dreif sig því aftur í kuldaskóna. Hann er nefnilega ágætur í því að skriðtækla. Ég skautaði því nokkra hringi með skvísunni en Spiderman hljóp um svellið og skriðtæklaði.

Ég komst að því að skautar eru eins og hjól, lærir það einu sinni og gleymir ekki aftur. Ég gat meira að segja skautað aftur á bak og gert allar helstu kúnstir... nema að stoppa. Ég treysti mér ekki í skrans-stoppið og varð því að taka 'ojojojojojojoj' og klessa á veggina til að stoppa.

En 'att ðe end off ðe dei' þá eru skautar í Skautahöllinni hin ágætasta fjölskylduskemmtun.

Þ.


Mér finnst ég eiga duglegustu stelpu í heimi!

Skvísan er byrjuð af fullum krafti í tannréttingum. Hún er búin að vera í viðtölum og skoðunum og myndatökum og máttökum og ég veit ekki hvað síðan síðla hausts. Í dag fór græjan uppí hana.

Ef ég skildi þetta rétt er hún með krossbit (efri og neðri hitta ekki saman), mikil þrengsli og verulega í hættu að fá skúffu. Fyrsta skrefið til að laga þetta er að festa góm í efrigóm sem þvingar allt draslið sundur og saman. 4rum sinnum á dag þarf að strekkja eða slaka, 13 vikur samfleitt. Þar fyrir utan á hún að vera með 'grímu' á nóttunni og helst eins mikið og hún getur heima við á kvöldin og um helgar, sem togar efra stellið fram. Þetta er vinnan framundan hjá okkur :) og þó aðallega hjá skvísunni. Tannlæknirinn fullvissaði okkur um það að fyrsta vikan yrði erfið, allt rosalega vont og hún ætti eftir að líða kvalir en önnur vikan yrði miklu verri... eftir það á þetta að skána.

Skvísan var nú bara kát með græjurnar, fannst spennandi að tala öðruvísi og var alveg ótrúlega jákvæð á allan hátt. Eftir á að hyggja er hún sennilega sú manneskja sem ég þekki sem ég treysti best í heiminum til að takast á við þetta verkefni á jákvæðan hátt og án kvartana.

Þú ert best!

Þ.


Uppgötvun ársins hingað til...

Ég heyrði af því um helgina og ég sannreyndi það í gær.

Það er bara eitt orð yfir þetta 'gargandisnilld'.

B O B A, boooomba.

Í ljósi þess að hverfandi líkur eru á því að maður sé að fara að ferðast eitthvað á næstunni og þess að ferðapunktar venjulegs einstaklings duga sjaldnar fyrir öðru en til Evrópu 1 fyrir einn (fyrir utan skatta og skyldur) er ákveðinn kostur að geta breytt flugpunktunum í verðmæti. Það er hægt að kaupa gjafabréf hjá hinum ýmsu netverslunum út í heimi, m.a. www.amazon.com, fyrir flugpunkta hjá Icelandair. Ekki það að mann vanti eitthvað... en ef mann vantar eitthvað þá fær maður tæpa krónu fyrir hvern punkt m.v. gengi dagsins í dag. Þetta er snilld. Það eina sem þarf að gera er að stofna 'account' hjá www.points.com. Einfaldara verður það ekki...

Kannski eru þetta gamlar fréttir? En það skiptir ekki máli hversu gömul þessi frétt er, hún virkar og hún er snilld.

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband