Færsluflokkur: Lífstíll

endurfundir...

Nokkrir gamlir félagar úr Hagaskóla hittust á öldurhúsi í bænum á laugardaginn. Við vorum að reyna að breiða út boðskapinn en einhverra hluta vegna mættu ekkert allt of margir... sennilega hafa ekki margir vitað af þessu, tveir voru í útlöndum, einn var að steggja, tveir 'beiluðu' og annar að halda uppá afmælið sitt en sá sér ekki fært að bjóða okkur hinum.
Við vorum saman komnir nokkrir sem höfðum ekki hist í ein 18 ár... en alveg ótrúlega gaman að fræðast um það sem á daga okkar hefur drifið, hvar menn eru staddir og skipuleggja næsta hitting. Auðvitað eru nokkrir sem enn halda hópinn en svo aðrir sem ekkert hafa verið í kontakt. Það var reyndar svo gaman og svo mikið rætt að maður rétt hafði sig heim um 01:30 sem verður að teljast seint fyrir gamla manninn mig. Það fór því rúmur hálfur vinnudagur í þetta og allir sammála um að hittast fljótlega aftur. Einn okkar er að spila á laugardaginn kemur og ekki ólíklegt að einhverjir okkar mæti... allaveganna þeir sem verða á landinu (sem voru afgerandi flestir í þessum hitting).
Óvænt og óformleg 'ríjúníon' eru frábær! Meira af þessu...

Þ. 


Stekkjastaur vann!!!

Uppáhaldsjólasveinninn minn vann kosninguna um vinsælasta jólasveininn sem hefur verið í gangi á síðunni síðan um miðjan desember.
Stekkjastaur hlaut afgerandi kosningu eða 50% greiddra atkvæða (2vö atkvæði).

Gleðilegt sítt hár

Þ.


Þá er það búið í bili...

Hátíð áts og leti er nú að mestu yfirstaðin. Get ég hvorki kvartað yfir því að hafa ekki fengið neitt að borða eða fengið að hvíla mig að vild. Eina vandamálið við þetta allt saman er að geta ekki hvílt sig fyrir áti eða öfugt. Ég hefði reyndar viljað lesa meira en vildi hvorki fórna letinni né átinu til þess. Það er nógur tími framundan til að lesa...

Sílin voru heldur betur kát þessi jólin. Kertasníkir breytti til og gaf þeim ný náttföt og mömmunni undirföt. Skvísan er á því að þessi Kertasníkir sé nú frekar skotinn í þeirri gömlu því hann hefur gefið henni sexí undirföt svo lengi sem hún man.

Aðfangadagskvöld var ekkert nema yndislegt. Fyrir utan eitt atvik þ.s. ég var næstum búinn að eyðileggja steikina og skamma konuna fyrir í þokkabót... sem betur fer var mér nú fyrirgefið sú yfirsjón enda var ég óendanlega sorrý yfir því rugli öllu saman. Maturinn var æðisgengilega góður, humarinn í forrétt eins og á besta restúrant, hreindýrið yfirnáttúrulega gott með öllu tilheyrandi og möndlugrauturinn í eftirmat hefur sjaldan verið betri.

Þá eru það pakkarnir. Spiderman hefur sjaldan verið spenntari. Þetta voru nú eiginlega fyrstu spenningsjólin því hann var sárlasinn í fyrra og jólin þar áður lék hann sér meira með pappírinn en gjafirnar. Hann var helst til of snöggur að rífa pakkana undan trénu og hljóp með þá til einhvers sem kann að lesa og spurði hvort þetta væri ekki örugglega 'Frá mér'. Hann vildi endilega að pakkarnir til hans væru frá honum... frekar skondið. Auðvitað áttu sílin meira en helminginn af gjöfunum og það var frábært að fylgjast með þeim rífa þá upp. 30ára draumur þess gamla rættist þegar sonurinn tók upp pakkann frá foreldrunum... forláta bílabraut. Auðvitað mátti ekki kaupa þá minnstu en sú stærsta var heldur ekki tekin... þessi þekur þó nærri 10 fermetra og krafturinn í bílunum til að byrja með var slíkur að þeir þutu upp um alla veggi þegar þeir þeyttust útaf brautinni í beygjunum og sveigjunum. Skvísan er orðin öllu dannaðri í þessu þó að spenningurinn hafi skinið í gegn. Milli þess sem sá gamli lék sér að bílabrautinni hljóp hann á efri hæðina og söng ABBA í singstar-græjunni sem skvísan fékk.

Þetta voru æðisleg jól.

Þ.

Þrettándi var Kertasníkir,
- þá var tíðin köld,
ef ekki kom hann síðastur
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með tólgarkertin sín.

höf. Jóhannes úr Kötlum

Það er þó eitt sem verður að athuga og það er tímasetningin á þessum gæjum. Samkvæmt þessu kemur sá síðasti á Aðfangadagskvöld þ.a. við erum líklega búin að færa þessa gaura einn dag fram í tímann. Afhverju gerðum við það? Er það útaf pakkasýsteminu og skódæminu? Ættum við ekki að færa þá aftur til baka?


Ekki langt í þetta núna...

Spenningurinn er að verða óbærilegur á heimilinu. Ég veit samt ekki hver er spenntastur, skvísan, Spiderman eða karlinn? Þetta er hörð keppni. Gærdagurinn var náttúrulega tekinn með trompi, síðasta höndin lögð á gjafirnar sem eftir voru, innpakkanir, jólagrauturinn, ofl, ofl.

Ég er nokkuð liðtækur í hinum ýmsu listgreinum undirbúningsins og ég hélt að ég væri líka rosalega góður að pakka inn og skreyta pakka... það er misminni eða mér hefur farið hrikalega aftur. Ég ætlaði ekki fyrir mitt litla líf að geta bundið slaufurnar á helv*** pakkana... djöv*** var ég orðinn pirraður á þessu. Á móti mér sat frúin og hló sig máttlausa af tilburðum mínum og tilraunum til að útbúa fallegar gjafir á milli þess sem hún pakkaði og skreytti 3já pakka á móti 1num hjá mér og hún gat meira að segja talað í símann á meðan hún var að þessu. KOMMON ég þurfti að nota kjaftinn til að gera hnútana!!!
Skvísan er orðin nokkuð góð í þessu og ég mun klárlega nýta mér þjónustu hennar í framtíðinni við að pakka inn mínum skömmtum.
Spiderman gengur um húsið og tekur eitt og annað úr hillum og skúffum til að pakka inn. Það verður gaman að finna hlutina aftur á morgun undir trénu.

Þ.

Ketkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag.-
Hann þrammaði í sveitina
á Þorláksmessudag.

Hann krækti sér í tutlu,
þegar kostur var á.
En stundum reyndist stuttur
stauturinn hans þá.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Meiriháttar jólaundirbúningur

Sunnudagurinn var tekinn snemma. Allsherjar jólaundirbúningur var skipulagður. Karlinn sótti sílin eldsnemma (10:00) og við byrjuðum í búðarrápi. Það er best að versla snemma á morgnana í Reykjavík. Við þurftum að kaupa allt í jólagrautinn og svo eitt leyndó.

Þegar heim var komið byrjuðum við á því að skella upp trénu. Í ár var farið varlega í stærðirnar því undanfarin ár hef ég þurft að saga af trjánum því ég held alltaf að það sé hærra til lofts en það raunverulega er. Núna smellpassar það... stærra en ég þegar það er komið í fótinn... það er viðmiðið. Sílin sáu svo alfarið um að skreyta og ég verð að segja að röðun kúlna og fígúra er nær óaðfinnanleg (þegar ég horfi á þetta sem sérfræðingur í jólatrjáaskreytingum).

Næst á dagskrá, piparkökuhús. Krakkarnir vildu náttúrulega gera kökur líka þ.a. þegar það kom að karlinum að gera hús var heldur lítið til af byggingarefni. Sú gamla þurfti því að hræra í nýtt. Þetta árið var ákveðið að gera húsið eftir minni, engin fyrirmynd og ekkert snið. Ég get vottað það að hitt er betra. Ákveða fyrirfram hvað hliðarnar eiga að vera stórar og þá sérstaklega þakið. Eftir kakósúpu át og sturtuviðgerðir var svo hrært í liti og krakkarnir skreyttu húsið. Annað eins hús hefur ekki sést. Reyndar vantar aðra þakplötuna (var of lítil) en ég lít á það sem fídus því nú fylltum við húsið af kökum og þá er þetta eins og þetta hefði átt að vera svona, 'hóm-meid' piparkökubox.

Rétt fyrir svefninn reif ég svo vatnslásinn á vasknum inná baði í sundur og gerði við stíflu og leka... bara svo það sé skjalfest að ég geri stundum eitthvað á þessu heimili.

Þ.

Ellefti var Gáttaþefur,
- aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af laufabrauði
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Laugardagur fyrir lítið... nema kveldið

Þessi blessaði laugardagur fór nú fyrir lítið. Einhver minniháttar heimilisverk og viðhald á nýja kofanum en að mestu fór hann í eitthvert rugl í verslunarmiðstöðvum borgarinnar.

Sílin fóru til afa S og ömmu B að skreyta jólatré og mikið var ég feginn að þurfa ekki að draga þau með mér í verslanirnar. Ég byrjaði á því að sækja pakka niðrí Landflutninga og þegar ég var rétt búinn að því var ég beðinn að koma við í Blómaval... og þá byrjaði ruglið. Það var ekki eitt stæði á bílastæðinu við Blómaval og mannmergðin inni var eftir því. Ég tróð mér framhjá fólki og reif úr hillunum það sem ég var beðinn um að kaupa og dreif mig út.
Fyrst sílin voru hjá afa og ömmu ákvað ég að klára það sem ég átti eftir að klára. Búðin sem ég þurfti að fara í er staðsett í Smáralind og í Kringlunni. Ég byrjaði í Smáralind. Vááá. Ég þurfti að leggja í Garðabæ því öll bílastæði í Kópavogi voru upptekin. Auðvitað var hluturinn sem mig vantaði ekki til þar svo ég hundskaðist í Kringluna. Þar fékk ég reyndar stæði rétt við innganginn eða svo gott sem. Þurfti að leggja bakvið HR. Ég fékk blessunarlega það sem mig vantaði og dreif mig út.
Ég er svo ánægður að börnin þurftu ekki að þvælast þetta með mér... komst reyndar að því að þau fóru aðeins í Smáralindina með ömmu og afa en það var bara stutt.

Sílin fóru svo í pössun til ömmu A og afa J um kveldið. Við gömlu vorum að fara í árlegan jólahitting í vinahópnum. Það er alltaf glatt á hjalla þegar við vinirnir komum saman og óvenju margir útlendingar mættir. Það var þó skarð fyrir skildi að PG var veðurtepptur í hinu stóra USA. Maturinn sveik engan og félagsskapurinn enn færri en engan.

Gleðileg jól strákar... og stelpur

Þ.

Tíundi var Gluggagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit inn um hann.

Ef eitthvað var þar inni
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Maður gerir bara of lítið af þessu...

Á föstudaginn sótti ég Spiderman - tilbúinn í jólafríið, ekki að spyrja að því. Það var svo gott veður að við feðgarnir ákváðum að drífa okkur út í garð, fara í snjókast. Spiderman vill ekki búa til snjókarla eða snjóhús, hann vill bara fara í snóstríð eins og snjókast nútímans heitir. Við klæddum okkur því upp og fórum út í garð og kaffærðum hvorn annan í snjó. Ekki leið á löng þar til vinirnir úr næstu húsum bættust í hópinn og átti ég í fullu fangi við að berjast við þá alla. Gleðin og ánægjan sem skein úr andlitunum var ósvikin. Afhverju er maður ekki alltaf útí snjóstríði?

Skvísan er hins vegar að verða unglingur. Hún fór í Kringluna með vinkonu sinni og skemmti sér vel með 1/3 þjóðarinnar. Vil samt taka það fram að hún var í fylgd með fullorðnum, ekki alveg komin með aldur í að vera sleppt einni...
Vinkonan fékk svo að gista og þær skemmtu sér vel við að reyna að vinna karlinn í Yatsy-i.

Spiderman var svo hóstandi alla nóttina og leið ekki vel... ég er alveg á því að hann hafi verið nægjanlega vel klæddur hjá karlinum þegar við vorum að hamast í snjónum en það er spurning hvort hamagangurinn með kaldri innöndun hafi farið illa í hann?

Þ.

Níundi var Bjúgnakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og hnuplaði þar.

Á eldhúsbita sat hann
í sóti og reyk
og át þar hangið bjúga,
sem engan sveik.

höf. Jóhannes úr Kötlum


sælla að gefa en þiggja...

Spiderman er svo kátur þessa dagana. Reyndar held ég að hann sé að verða ónæmur fyrir þessu með skóinn og sokkinn. Alls ekki vanþakklátur en svona... smá spenningur eldsnemma en svo er það búið og hægt að halda áfram með daginn. Í dag færði hann leikskólakennurunum sínum konfekt í körfu af því að í dag er dagurinn sem hann hefur beðið eftir í langan tíma. Síðasti dagurinn fyrir jólafrí. Rosalega var hann kátur og hann bræddi kerlingarnar alveg:

'gjössóvel, nammi með kaffinu og gleðileg jól'

Skvísan var svolítið erfið. Jólaball í morgun í skólanum og það var ekki alveg á tæru í hverju hún átti að vera. Hún er átta ára. Vá hvað þetta verður skrautlegra og skrautlegra með hverju árinu sem líður.

Þ.

Skyrjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann hlemminn o'n af sánum
með hnefanum braut.

Svo hámaði hann í sig
og yfir matnum gein,
unz stóð hann á blístri
og stundi og hrein.

höf. Jóhannes úr Kötlum


Jóli veit yfirleitt betur...

Sílin eru svo góð... ég vildi að jólarnir væru 365 talsins. Ég reyndar vakti frameftir í gær og hitti á Hurðasleiki... ég meina Hurðaskell (hvernig beygir maður þetta eiginlega?). Hann hefur verið svona 'sekkond feivorit' í gegnum tíðina. Það var ansi fróðlegt að ræða við hann um menn og málefni. Ég fór svo að spyrja að því hvað hann ætlaði að setja í skóinn hjá sílunum, 'hitabrúsa' sagði hann. Hitabrúsa handa 8 og 4ra ára? Er ekki í lagi með þig? Reyndar þurfti skvísan á þessu að halda í dag en Spiderman á nú eftir að fussa og sveia þér í sand og ösku fyrir þetta prakkarastrik. Ég held að hann hafi meiri áhuga á bílum og kubbum og jójóum og þessháttar... 'Alveg rólegur' sagði þá karlinn, Spiderman er svo mikið fyrir kakó að hann á eftir að fíla þetta í tætlur.
Og hvað haldiðði? Spiderman var svo kátur með Hurðasle...skell að hann dró þann gamla framúr til að fara að hita kakó í morgunmat. Jóli hafði svo sannarlega rétt fyrir sér og ég þurfti að éta allt ofaní mig með húð og hári.

Þ.

Sjöundi var Hurðaskellir,
- sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.

Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.

höf. Jóhannes úr Kötlum


þessi var sá hræðilegasti í minningunni...

Ég man nú ekki eftir að hafa verið hræddur við jólasveina þegar ég var síli... kannski misminnir mig en ég held samt ekki, ég man ekki eftir neinum sögum um mig sem patta grenjandi út af jólasveininum. Ég man hins vegar eftir því að hafa reynt að toga í skeggið á þeim og þegar ég var aðeins eldri reyndi ég að komast að því hver væri þar á bakvið í raun og veru.
Ivan Rebroff óperusöngvari fékk að kenna á því eitt sumarið í sveitinni þegar hann kom í mat (sviðakjamma sem hann snerti ekki) til afa og ömmu. Ég hef ekki verið hár í loftinu þegar þessi bangsi reif mig upp og það fyrsta sem mér datt í hug var að kanna hvort skeggið væri ekta... sem það var.
Skvísan er svona... ég man ekki til þess að hún hafi nokkurn tíma verið hrædd við jóla... og ekki einusinni smeyk við Grýlu og Leppalúða (sem hún hefur hitt) - hún vorkennir þeim bara meira.
Spiderman er ekki svona. Ég er ekki að segja að hann grenji, man nú ekki eftir því, en honum er ekki sama. Jóli hefur oft komið með tré heim til okkar á Aðventunni og ég skrifaði einhvern tíma pistil um það að Spiderman væri hræddur við jólasveininn. Eitt skiptið stökk hann uppí glugga og var þar í öruggu skjóli frá jóla. Núna er hann farinn að færa sig upp á skaftið. Örlítið óöruggur til að byrja með en svo er hann geim... til í galsann, hrópa og kalla og syngja með.
Við erum því farnir að ræða Grýlu og Jólaköttinn meira við feðgarnir... það er meira spennandi. Nýjasta nýtt er að lesa heilu jólasögurnar fyrir svefninn og þá er sá gamli oft með leikræna tilburði þegar kemur að því að raddsetja sögupersónurnar... sílunum stendur ekki alltaf á sama og því þarf alltaf að klára sögurnar því þær enda jú alltaf vel. Annars myndu þau líklega ekki sofna.
Önnur frábær uppeldisaðferð? ég veit ekki...

Þ.

Næsta erindi jólasveinavísnanna hans Jóhannesar er um þann sem mér fannst (í minningunni) alltaf óhugnalegastur, kannski ásamt Gluggagægi. Myndskreytingin í jólavísnabókinni (sem á að vera til á öllum heimilum, við eigum 3jár, ég á eina síðan 1978 og börnin sitthvora) gefur af sér gæsahúð...

Sá sjötti, Askasleikir,
var alveg dæmalaus. -
Hann framundan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti askana
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

höf. Jóhannes úr Kötlum


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband