Færsluflokkur: Lífstíll

Ég ætlaði ekki að vera með 'kreppublogg'

Það var aldrei ætlunin að vera með kreppublogg enda hundleiðinlegt að vera með þessa kreppu á heilanum. Staðan er samt sú að á meðan maður á enn einhvern aur þá eltist maður við ýmiskonar tilboð. Það eru nefnilega allar líkur á því að allt muni hækka í verði næstu misseri og alveg eins gott að kaupa það núna sem maður veit að maður þarf að nota á næstunni... ef maður þarf ekki að taka það á 30% yfirdrætti... þá er það ekki endilega hagstætt.

Dæmi um kreppuna hjá mér:

Spæderman vill hafa ljós í herberginu sínu á nóttunni sem er ekki gott þegar maður þarf að spara rafmagn, en hvað um það, geðheilsa hans er mér mikilvægari en auka 100 kr í rafmagn. Ég setti upp jólaseríu hjá honum í desember 2007 sem hann vildi endilega hafa áfram og gengdi hún hlutverki næturlýsingar þar til um daginn að hún gaf sig. Í nokkrar nætur hefur því verið kveikt á lampa í herberginu sem gefur allt of mikla birtu frá sér. Ég ákvað því að endurnýja jólaseríuna og fór í Húsasmiðjuna því þeir hafa auglýst jólaseríur á sama verðinu og í fyrra. Ég hef samt ekkert fyrir mér í þeim efnum, þ.e. hvort verðið sé raunverulega sambærilegt og í fyrra, hvort þetta sé sama krónutalan eða hvort þetta sé sama verðið á sambærilegu verðlagi miðað við verðbólgu eða hvort þeir séu bara að ljúga til að auka viðskiptin... en allaveganna ég keypti handa honum seríu.

Við það að fara og kaupa seríu í herbergið kveiknaði hjá mér jólaþrá. Ég er nefnilega innst inni alger jólasveinn í öllum skilningi þess orðs. Ég elska jólin, hef alltaf gert og mun alltaf gera. Ég ákvað því að fara heim og rífa fram seríurnar og tékka hvað væri í lagi og hvað vantaði. Ég er venjulega með um 14-16 seríur í gangi í desember fyrir utan þær sem fara á tréið og ég hef þar að auki ekki hent mörgum seríum í gegnum tíðina þ.a. safnið er orðið ansi veglegt, sérstaklega í ljósi þess að ég hef alltaf fundið nýja staði í húsinu til að hengja upp nýjar seríur sem ég hef þurft að kaupa, plús það að ég hef verið þeirrar skoðunar að það sé ekki þess virði að reyna að gera við seríur sem ekki kveiknar á heldur sé það miklu betra að kaupa nýjar. Það er svo óheyrilega leiðinlegt að reyna að finna út hvaða pera er farin fyrir utan það hversu dýrar perurnar eru. Ef menn nenna að eltast við ónýtar perur á annað borð þá getur það borgað sig að kaupa litla seríu í sama stíl, frekar en að kaupa sett af perum.

Vegna þess að það er kreppa og ég hafði tíma þá datt mér í hug að fara í viðgerðir í gær. Eitthvað sem ég hef ekki gert hingað til (nema ein og ein pera sem augljóslega er ónýt). Ég setti hverja seríuna í samband af annarri og mér til furðu og gleði voru flestar þeirra heilar... en það voru nokkrar sem kveiknuðu til hálfs (eða minna) og nokkrar sem voru alveg dauðar. Þá byrjaði fjörið. Ég byrjaði að reyna að laga... Eftir um klukkustund var ég kominn með heila seríu... en ég var ekki lengur jafn spenntur fyrir því að laga fleiri seríur og tók yfirvegaða ákvörðun um að henda restinni.

Ég skrifaði því niður á blað hvað vantaði til viðbótar til að lýsa upp heimilið í desember og ætla í Húsasmiðjuna í dag.

Þ.  


Munurinn á sílunum...

Ég er svoooo ríkur!!
Ég á 2vö yndisleg börn, stelpu og strák.

Fyrirfram hefði maður alveg getað ímyndað sér að nokkur munur væri á hegðun og öðru atferli sílanna með því að byggja á kynferði.
Stelpan ætti þannig að vera snyrtipinni, skipta sér af vali á fötum og öðru dóti, vera dugleg í skólanum, leika með dúkkur, uppáhaldslitur = bleikur, osfrv.
Strákurinn ætti þannig að vera drullugur upp fyrir haus og standa á sama, vera alveg sama hvort hann sé yfirleitt í fötum, vera til vandræða í skólanum, leika með bíla og byssur, uppáhaldslitur = blár eða svartur, osfrv.

Þetta er ekki alveg svona einfalt þó að margt standist prýðilega. Undanfarið hef ég aðeins verið að bera þetta saman.
Stelpan er vissulega dugleg í skólanum en það er strákurinn líka þó hann sé nú bara í leikskóla (ef frá er talið þegar hann henti steini í hausinn á besta vini sínum um daginn þ.a. það blæddi ógurlega).
Strákurinn er hins vega snyrtipinninn, hefur sterkar skoðanir á því í hvaða fötum hann vill vera í en stelpan fer yfirleitt bara í þau föt sem til eru höfð fyrir hana. Hann er líka þannig að það má ekkert sullast við matarborðið án þess að það sé þurrkað upp um leið á meðan stelpan tekur ekki eftir því að hún er með spaghettí hangandi í eyranu. Það tók samt steininn úr í fyrrinótt þegar hann vaknaði upp með andfælum og neitaði að sofa með 'Herramannasængina'... við urðum að skipta á rúminu kl 03:24.
Stelpan hefur aldrei haft áhuga á dúkkum þó hún eigi fulla kassa af þeim, hún leikur hins vegar mikið með bangsa og önnur tuskudýr. Strákurinn hefur jú áhuga á byssum og bílum, þá helst bílum sem hann getur klesst en áhyggjuefnið er perlið. Ekki það að ég sé á móti því að hann perli því það er góð æfing fínhreyfinga og samhæfir huga og hönd, en afhverju þarf hann að perla með bleiku? Það er allt bleikt sem hann gerir. Hvar er svart og blátt?
Stelpan er dundari en strákurinn ærslabelgur (sem er eftir bókinni).
Stelpan er ekki mjög hrifin af bleikum. Gulur og reyndar rauður eru í uppáhaldi. Ég veit ekki alveg hvar ég hef strákinn. Eins og fyrr segir vill hann perla bleikt...
Það hefur hingað til verið lítið mál að segja stelpunni til, hún er fljót að læra og hún veit muninn á réttu og röngu. Eftirminnilegt atvik átti sér stað þegar hún var um 3ja ára, þá krotaði hún með litum í bók. Eftir örlitlar skammir og útskýringar um að maður litar í litabækur, hefur hún ekki sett eitt strik í allar þær bækur sem hún hefur átt um ævina. Strákurinn á það til að krota út um allt og þá sérstaklega á sjálfan sig. Það er alveg sama hvaða aðferðum er beitt, útskýringum, skömmum eða yfirlýstum vonbrigðum, hann heldur áfram um leið og maður hefur snúið sér við.
Ég man heldur ekki til þess að það hafi verið vandamál að kenna stelpunni að borða bara hreinan snjó. Ég er að reyna að kenna stráknum að láta allaveganna gula snjóinn vera. Honum er alveg sama hvort snjórinn sem hann borðar er af dekkjum heimilisbílsins eða úr sandkassanum, bara að það sé snjór.

Svona mætti lengi telja...
Eitt er samt merkilegt að börn haga sér nær undantekningalaust eins og englar í návist annarra hvort sem um vini eða ættingja er að ræða eða ókunnugra. Það trúir manni því enginn þegar maður segir lygilegar ævintýrasögur af börnunum.

Þ. 


Leikhús(er)lífið

Ég var búinn að gleyma hvað það er gaman að fara í leikhús. Sú var tíð að við hjónin vorum áskrifendur af sætum í einu leikhúsanna og sáum allt (í því leikhúsi). Síðan eru liðin ár og fleiri leikhús stigið fram í dagsljósið þ.a. ég er ekkert viss um að ég myndi endilega vilja eiga svona áskrift. Vandamálið við að eiga ekki áskrift er að þá gefur maður sér ekki tíma til að fara í leikhús og það er gaman að fara í leikhús.

Ég segi þetta alltaf þegar ég er nýbúinn að fara í leikhús.

Í 'Ástandinu' er ekki sjálfgefið að fara í leikhús en við nýttum okkur boðsmiða SPRON og völdum létta stykkið 'Fólkið í blokkinni'. Þungi möguleikinn hefði endanlega skrúfað fyrir skapið á mér held ég.

Fólkið í blokkinni er hin skemmtilegasta sýning um ekki mikið. Leikurunum tókst bara að gera persónurnar skemmtilegar, óþolandi og pínlega hlægilegar. Segir kannski meira um leikarana en handritið. En í stuttu máli fjallaði þetta um misgáfaða einstaklinga og mislukkaðar fjölskyldur sem búa saman í blokk í Breiðholti (ég gat ekki skilið það öðruvísi, hvar eiga Hólahólar annars að vera). Inn í þetta fléttast ein mislukkaðasta hljómsveit sem sögur fara af og samanstendur af íbúum blokkarinnar og auðvitað eru tvö ástarævintýri sem eru frekar fyrirsjáanleg allan tímann.

Uppúr stendur samt túlkun Hallgríms Ólafssonar (leiðréttið mig ef ég fer leikaravillt) á einhverfa stráknum sem er miðdepillinn í sýningunni að mínu mati... Eftir áralanga reynslu mína af því að vinna með fötluðum rifjuðust upp margir snillingar sem ég hef fengið að hitta í gegnum tíðina.

Útkoman samt hin besta skemmtan.

Þ.


Lenti í svona 'asnalegu'...

Þurfti að bruna í útréttingar, ég þurfti m.a. að láta skipta um perur í bílnum mínum. Af því að nýir bílar eru smíðaðir með þeim eiginleikum að enginn kemst að neinu sem reglulega þarf að skipta um nema japanskir bifvélavirkjar eða starfsmenn Toyota, þá varð ég að fara á verkstæði Toyota (smurningsstöðvargæjarnir sem ég díla alltaf við áttu ekki séns).
Ekki í frásögufærandi nema ég hitti á mann sem ég þekkti ágætlega þegar við vorum 10-13 ára. Reyndar höfum við ekki sést né talast í þau rúm 20 ár sem liðin eru síðan þá. Við tókum spjall... svona kurteisis (er það með 'y'? afhverju eða afhverju ekki?) spjall. 'Hvað ert þú að gera?' - 'Já, vinnur í banka?' - 'Banking Invest, já' - 'Ekkert að gera?' - æ þið vitið og allt það sem fylgir umræðum síðustu 2ja til 3ja vikna. En svo lenti ég í því. Við vorum nefnilega líka að tala um eitt og annað og ég datt út í samræðunum og var eitthvað að láta hugann reika... svo kom að því að ég átti að svara einhverju og mér fannst ég þurfa að svara 'já, einmitt'... hann horfði eitthvað skringilega á mig og ég fór að huxa hvort ég hefði átt að svara öðruvísi en á meðan ég huxaði það sagði hann eitthvað meira og það eina sem mér datt í hug að segja var 'einmitt'.
Ég hef ekki hugmynd um hvað við vorum að tala um. Mig grunar að svörin hafi ekki verið í samræmi við umræðuna. Afhverju sagði ég bara ekki 'fyrirgefðu, en ég náði því ekki alveg um hvað þú varst að tala...' ???

Þ.


Fréttalausa helgin.

Rosalega líður mér miklu betur í dag en fyrir helgi. Ástæðan er einföld og hún felst ekki í því að einhver stjórnmálaspekingurinn eða fjármálagúruinn hafi komið með bestu lausnina á 'Ástandinu' - nei, við hjónin fórum með krakkana okkar í bústað um helgina. Já við splæstum í bústaðaferð í kreppunni (fengum reyndar bústaðinn leigðan á viðunandi verði) og við kveiktum ekki á útvarpi eða sjónvarpi nema til að horfa á barnatímann með börnunum. Fréttalaus helgi... og Ísland á sínum stað þegar við komum til baka seint í gærkvöld (haaa?). Fjölskyldan slapp því við allt raus um þjóðargjaldþrot, heimsstyrjöld við tjallana og lánalínur til Rússlands.

Þ. 


Ég á ekki til orð yfir ruglið sem búið er að vera í gangi og er að keyra allt í kaf

...

Þ.


'Ekki fyrir hvítan mann...'

Ég bara steingleymdi þessu.

Á leiðinni í vinnuna í gærmorgun var ég að hlusta á Bylgjuna í útvarpinu. Þar var Jafet S. Ólafsson að útskýra Skortsölu í fjármálaheiminum. Allt gott og blessað með það og ágætis útskýring. Það sem gerði mig hins vegar kjaftstopp var orðalag sem ég hef ekki heyrt í áraraðir en var kannski notað ótæpilega í mínum vina og kunningjahóp á sínum tíma. Jafet er þá að tala um það að enginn standi vörð um krónuna og að einstaklingum og litlum fyrirtækjum svíði vitanlega undan ástandinu eins og það er. Í framhaldinu kom þessi gullna setning (ca eftir 7 mín):

'Það er ekki fyrir nokkurn hvítan mann að gera áætlun í þessu umhverfi'

Viðtalið í heild má nálgast hér http://www.bylgjan.is/?PageID=1857 undir '23. september, þriðjudagur'.

Þ.


Mundu að þvo buxurnar þínar...

Ég er nú ekki þekktur fyrir að versla mér föt á hverjum degi og lendi stundum í því að mig sárvantar eitthvað. Venjulega eru það gallabuxur sem mig vantar... þær vilja slitna á versta stað og eina skýringin er sú að ég hlýt að vera með pungsíðari mönnum. Þegar kemur að því að ég þarf að endurnýja þá labba ég alltaf sama rúntinn. Vandamálið er bara að ég er bæði nýskur á að eyða peningum í föt á sjálfan mig og svo vil ég heldur ekki kaupa skítug föt eða götótt. Í nokkurn tíma hefur maður nefnilega bara getað fengið ógeðslega dýrar gallabuxur (mér finnst allt dýrt sem kostar meira en ISK 10.000) eða gatslitið og skítugt.

Þegar ég átti afmæli í sumar (já takk fyrir að muna eftir því) þá fékk ég gefins forláta Levi's gallabuxur, orginal, dökk-bláar, beinar, hreinar og án gata (semsagt aungvir 'díteilar') rétt eins og ég vil helst hafa slíkar flíkur. Ég hafði náttúrulega gefið upp mál því seglið var keypt í US þar sem ódýrast er að versla (jafnvel enn þrátt fyrir hrun krónunnar - efni í annan pistil). Buxurnar hefðu því átt að passa... en... eitthvað hef ég styst í annan endann eða þeir hafa lengt í tommunni þar westra. Buxurnar pokuðu á mér og náðu vel niðurfyrir iljar. Ég skildi ekkert í þessu.

Jæja allaveganna... fyrstu viðbrögð voru að reyna að fá buxunum skipt fyrir annað númer. En þar sem ég er svo gamaldags greinilega og hallærislegur þá sáu verslanir á höfuðborgarsvæðinu sér ekki fært að taka við buxunum. Sniðið sennilega ekki verið til á Íslandi síðan 1992. Það varð því ekkert úr því að mér tækist að koma þeim í verð.

Næsta skref var bara að fara og láta stytta buxurnar enda var ég ánægður með þær að öðru leiti. Það gekk nú aldeilis greiðlega fyrir sig og innan dagsins var ég kominn með í hendurnar nothæfar buxur.

Rosalega var ég kátur...

Í buxunum gekk ég daginn út og inn... en það kom að því að ég þurfti að skella þeim í þvottavélina. Ég hefði betur gert það áður en ég sendi buxurnar í styttingu því þegar ég ætlaði í þær í morgun kom í ljós að sennilega hafði ég ekki styst og enn ólíklegra var að menn hefðu breytt tommunni. Þarna stóð ég úti á miðju gólfi í buxum sem náðu niður á miðja kálfa.

Héðan í frá þarf maður að spyrja hvort buxur styttist í þvotti og þó að svarið sé nei þá er líklega best að maður skelli þeim einn hring í vélina áður en maður lætur klippa neðan af þeim.

Þ.


Mér finnst...

Mér finnst að báðir vinir mínir sem greiddu atkvæði í skoðanakönnuninni 'Ertu ekki til í að bjóða mér í mat?' gefi sig fram eða hið minnsta hafi samband og bjóði mér í mat.

Ég verð hins vegar að játa að ég varð fyrir gríðarlegum vonbrigðum með þátttökuna í þessari könnun.

'Gediðði lánað okkur bræðrunum einn bolla'f sy-hykri?'

Þ.


Skil ekki alveg þetta fésbúkk...

Það eru allir með facebook síður. Hvað er með það? Ég skil þetta ekki alveg... eða sko... ég loggaði mig inn á facebook fyrir nokkrum misserum sjálfsagt í þeim tilgangi að sjá einhverja síðu eða svara einhverju kommenti frá einhverjum sem sendi mér póst þess efnis að hann vildi vera vinur minn. Í fyrsta lagi hélt ég að við værum vinir hvort sem það væri skráð á alheimsnetinu eða ekki... en allveganna nú er það dokkjúmenterað. Við hljótum að vera ánægðir með það!?!
Facebook er í mínum huga enn sem komið er bara staður til að drepa tímann og nóg er það sem fer í það að vafra þar um. Jú það er gaman að sjá framan í gamla kunningja og vini sem maður hefur ekki hitt, séð eða heyrt í í áraraðir en svo er fídusinn búinn. Ég kann allaveganna ekki að gera neitt annað markvert. Það er líka hægt að taka þátt í alls konar leikjum, spurningakeppnum og könnunum og metast við vini sína hver fær hærra skor eða hversu líkan kvikmyndasmekk menn hafa.

Ég sakna þess að geta ekki lesið bloggfærslur frá vinum mínum sem dottnir eru í facebook.

Annars er allt við það sama. Spiderman vill bara vera í fríi. Við vorum í bústað um helgina og hann var ekki á því að vera bara 2vær nætur... 10 er algert lágmark! Hann er ekki eðlilegur nautnaseggur. Hugmyndir hans um alls konar partý poppa upp á hverju kvöldi:
'Hey! ég er með hugmynd. Eigum við að hafa snakk-partý?'
'Hey! ég er með hugmynd. Eigum við að hafa ísa-partý?'
'Hey! ég er með hugmynd. Eigum við að hafa popp-partý?'
'Hey! ég er með hugmynd. Er ekki laugardagur?'
'Hey! ég er með hugmynd. Eigum við að horfa á mynd?'
Þetta er svona það helsta sem vellur uppúr honum... Hvernig verður þetta á seinni árum?
Skvísan er að verða svo mikil skvísa að foreldrarnir eru einumof halló. Hún fór með mömmu sinni á MammaMía myndina um daginn og þegar sú gamla fór að syngja með lögunum horfði sú litla (ekki svo litla) á móður sína og tilkynnti henni að svona gerði maður ekki í bíó, það væri enginn að syngja nema hún! Þvílík skömm og hneysa (hvernig skrifar maður hney/isa?).

Þ.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband