Færsluflokkur: Lífstíll

Spiderman lærir ensku

Spiderman er í stuði þessa dagana. Eftir langt sumarfrí (mamma hans er kennari) byrjaði leikskólinn um daginn. Hann unir sér vel í skólanum en ég gæti trúað að það þurfi nú að hafa aðeins fyrir honum. Þó að hann hafi ekki yfir neinu að kvarta finnst honum ómögulegt að geta ekki verið í fríi. Hann talar oft um það að hann vilji fara í sumarfrí, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt, langt sumarfrí og þegar hann er kominn í þetta langa sumarfrí þá vill hann fyrst fara til Egilsstaða í bústað og sund og svo til Tenerife... hann á nefnilega eftir að smakka einn ís á Tenerife. Á Tenerife fattaði hann að það eru ekki allir eins og hann, þ.e. það tala ekki allir íslensku. Hann talaði náttúrulega bara íslensku við allt og alla en það voru ekki allir sem skildu hann og hann skildi ekki alla. Við þennan samskiptaþröskuld fékk hann gríðarlegan áhuga á ensku. Setningar eins og 'hvað þýðir ís á ensku', 'hvað þýðir fjórir á ensku', 'hvað þýðir pabbi á ensku', voru og eru enn mjög algengar auk þess sem hann kallar mömmu sína sjaldan annað en 'mom' eða 'momy'. Nú er svo komið að drengurinn er farinn að telja á ensku og stendur sig með prýði. Ef fram heldur sem horfir og áhuginn helst verður hann orðinn talandi á enska tungu fyrir 5ára aldur.

Þ.


Matarboð eru æðisleg...

Mikið rosalega er gaman að borða góðan mat og ef maður getur gert það í góðra vina hópi þá fullkomnar það ánægjuna.

Í síðustu viku héldum við í vinnunni hið árlega lokaða golfmót sem ávallt endar í grilli. Þetta árið hrúguðum við öllu liðinu heim til mín og það var hreint út sagt frábært. Ég ætla ekkert að tala um úrslit mótsins að svo stöddu en maturinn var æðislegur og félagsskapurinn frábær. Venjan er að direktörinn standi við grillið því hann spilar ekki golf og ekki var brugðið út af venjunni. Á boðstólnum voru svína- og lambasteikur, bakaðar kartöflur, 3rennslags sósur, ferskt salat og grillað grænmeti. Þessu var svo skolað niður með viðeigandi veigum. Eplakaka í eftirmat... nú fer ég að verða svangur.

Í gær var okkur svo boðið í mat til P og G. S var á landinu og þurfti auðvitað að reyna að ná hittingi. Það er allt með það sama þegar maður hittir þennan hóp, það er rosalega gaman og enginn skilur afhverju hittingarnir eru ekki fleiri og tíðari. P stóð í eldhúsinu að sinni alkunnu snilld og ég verð að segja að mér leist ekki á blikuna þegar ég sá hann britja bananana yfir kjúklingabringurnar og klikkaði út með því að hella þeyttum rjóma yfir allt saman. Matseðillinn saman stóð af forrétti - léttgrillaðar hráskinkurúllur með osti og melónu, aðalrétti - fyrrgreindur kjúklingaréttur með banana og karrýrjóma, eftirréttur - kaffi, konfekt og koníak. Auðvitað öllu skolað niður með viðeigandi veigum. Ásamt gestgjöfunum P og G og okkur voru Þ og S, S, og M... sem kom reyndar bara í konnan því hann er að búa til kjallara í húsinu sínu... nú þarf ég að athuga hvort ekki sé eitthvað bitastætt í ísskápnum...

Þ.


Sumarfríið búið... í bili

Einu sinni enn er sumarfríið búið. Ég væri alveg til í að vera í 4ra mánaða sumarfríi, 1ns og hálfs mánaðar jólafríi, mánuð í páskafríi og haust og vorfríi þess á milli... ég sé það núna.

Annars var þetta frí bara snilld.

Eftir rólyndis par daga heima fórum við famelían til Tenerife við Afríkustrendur. Flugið þangað suðreftir tekur um 6 tíma í niðursuðudós og dósin auðvitað smekk-full af sólarþyrstum löndum mínum. Fólk er misjafnt og fólkið fyrir framan okkur í þessari ferð var mjög misjafnt. Ár og dagar síðan ég hef lent í öðru eins en allaveganna við komumst á leiðarenda þreytt og sæl eftir ferðalagið. Það örlaði á smá hita og svita hjá karlinum þegar hann burðaðist með níþungar ferðatöskurnar upp á 4ðu hæð í lyftulausri álmunni en herbergið var í fínu standi á 2veim hæðum með 2veim svölum og útsýni yfir garðinn.
Litla fjölskyldan var ekki lengi út í sólina morguninn eftir og reyndar vorum við örugglega oftast með þeim fyrstu út hvern einasta dag og krakkarnir yfirleitt fyrstir í laugina. Hitinn góður fyrstu dagana og sól allan tímann. Hitinn fór þó yfir 40 gráður við sundlaugina í sólinni síðustu dagana sem jaðrar við að vera of heitt þó það sé gola og hægt að kæla sig í laug. Ég kvarta samt ekkert yfir því, vildi bara segja ykkur frá því.
Við gömlu höfðum gert ráð fyrir því að Spiderman myndi vera eins og þeytispjald um stóran garðinn og kviðum því pínulítið að þurfa að elta hann uppi í tíma og ótíma. Þessar áhyggjur reyndust óþarfar því drengurinn var eins og hugur manns, fór ekki lengra en reglur sögðu til um, lét okkur vita ef hann vildi bregða sér lengra frá sólbekkjunum en augu okkar náðu og þar fram eftir götunum. Á öðrum degi voru keyptar snorkl-græjur handa liðinu og eftir það sást bara í græna skýluna og appelsínugulu armkútana og fjólubláu öndunarpípuna. Drengurinn tapaði sér í snorkli.
Nýlega var opnaður vatnsleikjagarður fyrir börnin í hótelgarðinum og það var ekki lítið vinsælt að fara í hann. 6 rennibrautir, brú, klifurgrindur og alls konar afþreying fyrir börnin. Pabbar máttu ekki fara í rennibrautirnar. Krakkarnir gátu verið endalaust í garðinum.
Af því að pabbar máttu ekki fara í rennibrautirnar á hótelinu varð að heimsækja vatnsrennibrautagarð af dýrari gerðinni. Reyndar er þetta allt voðalega svipað en engu að síður rosalega gaman í smá stund. Börnin töpuðu sér alveg og Spiderman rétt slapp upp fyrir hæðartakmarkanir hættulegustu brautanna... hann fór því í allar brautirnar þó svo að móðurinni hafi ekki alltaf litist á blikuna (þess má þó geta að móðirin tapaði sér líka í æsingnum). Eftirminnilegast úr þessum garði er þó líklega höfrungasýningin sem við fórum á.
Til viðbótar við vatnsskemmtanir fórum við í 2vo dýragarða. Þennan venjulega, stóra sem tekur allan daginn og er með alls konar dýr. Garðurinn sjálfur var rosalega fallegur og svo duttum við inn á tvær sýningar. Skvísan var meira að segja kölluð upp á svið í þeirri fyrri (seinni sýningin var meira hrægammar og stærri ránfuglar þ.a. fólk var ekki kallað upp á svið heldur beinlínis skipað að sitja allan tímann). Skvísan skottaðist á sviðið og skildi náttúrulega lítið í ensku og enn minna í spænsku en gerði sér þó grein fyrir því að verið var að byggja upp spennu fyrir því að einhver risa fugl væri á leiðinni inn á sviðið. Ég verð að játa það að þar sem ég stóð með myndavélina var ég kominn með hnút í magann því ég var ekki viss hvernig Skvísan tæki því að fá hrægamm með 2ja metra vænghaf á axlirnar. Þetta var þá bara einhver hrekkur og lítill fugl kom og settist á hausinn á henni. Þetta var einn af hápunktum ferðarinnar... taka þátt í sýningu.
Hinn garðurinn sem við fórum í var óvenjulegur að því leiti að mest áhersla er lögð á apa og gestirnir geta gengið inn í búrin til þeirra (flestra) og gefið þeim að borða. Krökkunum fannst þetta æðislegt... og reyndar pabbanum líka. Við vorum fyrst inn í garðinn og það var lítil traffík. Aparnir voru því vitlausir í nestið sem við höfðum handa þeim. Við gáfum litlum hr. Níelsum og Lemúrum vínber og gulrætur á meðan þeir snuðuðu í kringum okkur. Innar í garðinum var svo hægt að gefa stærri öpum og þar voru simpansarnir skemmtilegastir. Einn þeirra frekastur sem frussaði á hina apana og okkur. Á leiðinni út þegar við vorum eiginlega alveg búin með nestið lentum við í áköfustu öpunum, aftur hr. Níels og Lemúrar. Þeir gerðu sér lítið fyrir og stukku á okkur, klíndu banana í hausinn á mér og pissuðu á bakið á mér og einn reyndi að skríða ofan í handtöskuna til að komast í blautþurrkur sem voru í pokanum. Krakkarnir veltust um af hlátri þegar pabbinn reyndi að forða gersemunum. Við sáum líka eðlu með niðurgang sem var frekar fyndið (af því að við lentum ekki undir bununni).

Sem sagt - frábært frí - æðislegur staður - meiriháttar krakkar - ekkert golf (en sísonið er ekki búið)

Þ. 


Golf og mest spennandi úrslitaleikur sem ég hef séð hingað til...

Það er búið að vera mikið að gera í golfinu.
Karlinn var með í meistaramótinu (sun-mán-þri) og spilaði eins og engill... fyrsta daginn... 84 högg sem er ansi frábær árangur m.v. forgjöf 26. Enda kom í ljós að karlinn leiddi 5ta flokk eftir fyrsta daginn og reyndar var þetta besti hringurinn í flokknum allt mótið. Ég endaði reyndar í 6tta sæti sem skýrist af því að ég spilaði eins og fífl dag númer 2vö og ekkert sérstaklega vel dag númer 3. Ég verð að taka það fram að 5ti flokkur hjá Keili spilar á homma-teigum en það styttir völlinn töluvert en á móti lækkar vallarforgjöfin og þrátt fyrir það náði ég 40 pkt þennan fyrsta dag... sem ég lifi enn á.
Miðvikudagurinn fór í að klára hliðið við nýja pallinn.
Fimmtudagur var 500kg hollið mætt á Kiðjaberg. 22 stiga hiti en töluvert rok. Eintómir snillingar í þessu holli. Mönnum gekk misvel en miðað við forgjöf þá var þetta ansi þéttur pakki og réðust úrslit á fleiri pkt skoruðum á seinni 9íu. Fjöldi pkt er ekki gefinn upp en ég var kominn með 1/3 af mínum heildar pkt eftir 3jár holur... semsagt byrjaði eins og engill en datt svo í ruglið sem ég náði ekki almennilega að rífa mig uppúr.
Þennan sama fimmtudag var risa-knattspyrnumót Símans sett í Kópavogi þ.s. dóttirin sýndi knatttækni alla helgina. Ákveðið var á síðustu stundu og bara af því að eitthvert lið dró sig úr keppni að senda 7unda flokk kvenna á þetta mót. Hreint út sagt frábært mót og úrslitin skemmdu ekki fyrir. Stelpurnar unnu alla 3já leiki sína á föstudeginum, spiluðu svo við Grindavík og töpuðu 3-2 í hörkuleik þ.s. Haukastelpurnar fengu á sig klaufalegt sjálfsmark sem réði úrslitum. Annað sætið í riðlinum tryggði þáttökurétt í topp fjórum og skvísurnar gerðu sér lítið fyrir og lögðu FH í leik sem réði því hvort spilað yrði um 1rsta eða 3ja sæti. Úrslitaleikurinn var svo við Grindavík... aftur. Nú mættu mínar ákveðnar til leiks og ljóst að það átti ekkert að gefa eftir. Leikurinn var harður og hraður og óhuggulega spennandi. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik þ.s. bæði lið áttu góð færi en skildu markalaus. Seinni hálfleikur þróaðist í meiri varnarvinnu hjá Haukastelpunum sem samt fengu sín færi en náðu að bjarga nokkrum sinnum á línu og halda hreinu. Í fyrsta sinn í sögu 7unda flokks var gripið til framlengingar. Framlengingin var markalaus og því var ákveðið að bæði lið fengu gullpeninga og bikar. Mótshaldarar fá hrós fyrir það að eiga nóg af verðlaunum.

Þ. 


Tommur og sentimetrar...

Ég er búinn að vera að bisast við að hrófla upp litlu pallskrípi við húsið. Þessi smíðavinna hefur tekið miklu meiri tíma og orku en ég bjóst við. Það sem fer mest í taugarnar á mér er hversu undið og snúið, sprungið og hvistað, beyglað og bogið þetta helv... timbur er sem byggingavöruverslunin selur mér á uppsprnegdu verði. Það er ekki nokkur leið að hafa þetta helv... í lóð og maður þarf að sveigja og beygja hverja einustu helv... spítu. Pallurinn er þó kominn upp með skjólveggjum og blómakössum og nýtur fjölskyldan blíðunnar á honum á meðan ég kúldrast þetta í innivinnunni minni. Ég er þó ekki búinn því ég á eftir að smíða og setja upp forláta hlið auk þess sem ég tók þá yfirveguðu ákvörðun að smíða í kringum ruslatunnurnar mínar í leiðinni. Það verður eitthvert ævintýri.

Hvað er svo með þetta tommu-tal? Afhverju þráast menn og þá aðallega þeir sem eru sérfræðingar, við að tala um 2" / 4" o.s.frv.? Afhverju nota menn ekki sentimetra? Þó að menn slái um sig með tommumælingum í þykkt og breydd þá tala þeir aldrei um svo og svo mörg fet í lengdunum... nei... þá á að nota metra eða helst sentimetra. Maður kaupir ekki 2vær rúmlega 9íu feta 2" / 4" spítur... nei þú kaupir 2vær 2" / 4" 390 sentimetra spítur. Afhverju má ekki biðja um 4,5 x 9,5 og 390 á lengd? Í ofanálag held ég meira að segja að 2" séu nær 5 sentimetrum en 4,5 þó að spíturnar séu það... þetta er svo gargandi vitlaust.

Þ. 


Djöv... fór þetta í taugarnar á mér

Ég er bara ekki vanur svona viðmóti.

Morgungolfið í morgun var með öðru sniði. Í stað þess að spila á mínum heimavelli, Hvaleyrinni, var mér boðið í Heiðmörk að spila á velli Odfellow-a.
Þegar maður er svona snemma á ferðinni lendir maður í því að hitta á vallarstarfsmenn vinna vinnuna sína með prýði. Það þarf að slá grasið og bera á, breyta holustaðsetningum og teygum og annað sem til fellur og ég hef ekki hugmynd um. Venjan er nú samt sú og það er undantekningarlaust virt á mínum heimavelli að þegar golfari nálgast holuna þá bíða vallarstarfsmenn á meðan slegið er inn á flöt og leikmaður púttar. Meira að segja þegar ég hef verið einn að spila þá víkja menn. En ekki á velli Oddfellow-a. Þar eru golfarar fyrir vallarstarfsmönnunum og þeir ekki virtir viðlits. Í tvígang þurfti ég að bíða heillengi eftir því að starfsmenn lykju sér af á flötunum og þeir voru ekki mikið að flýta sér (ég hef séð menn flýta sér). Ekki var vinkað og ekki voru menn beðnir afsökunar á töfinni... ég er drullufúll með þessa framkomu. Í hollinu mínu í morgun var leikmaður úr GR sem ekki kannaðist við annað en að golfurum væri gefinn rétturinn á að spila þ.a. þá eru allaveganna tveir klúbbar á landinu sem leyfa golfinu að rúlla og slættinum að bíða... eru fleiri?

Þ.


Loksins

Hvað hefur RUV farið illa með mörg stórmót í íþróttum? Stundum er bara sýnt frá hluta dagskránnar eða hluta leikja. Ef tveir viðburðir eru á sama tíma er kastað til krónu og öskrað 'þursinn eða þorskinn?' til að velja annan fram yfir hinn eða báðum jafnvel sleppt því það er eitthvað annað í dagskránni sem ekki má hnika. Menn hafa ekki verið að drepa sig á því að kanna möguleikann á því að fá leyfi fyrir annarri rás til að senda út á. Ég talaði um þetta síðast 20.01.08. og allt stefndi sömu leið með EM sem hefst á morgun... þartil ég frétti af því að loksins loksins hafa menn girt sig í brók og fengið leyfi til að opna auka-rás til að senda út leiki... neytandinn hefur því val í þeim tilvikum sem leikir eru á sama tíma. Vonandi verður þetta að venju og í raun ætti íþróttadeildin að mínu viti að nota þetta tækifæri og fara að nota aðra rás. Það er svo mikið af fólki sem vill sjá meira af íþróttum og það eru jafnvel fleiri sem vilja ekkert af þeim vita en flestir eiga 2vö sjónvörp og þá má halda friðinn á flestum heimilum í landinu.

Þ.


Sjövull er sveiflan að detta inn...

Þetta er að skila sér.

Þrotlausar æfingar kl 06 á morgnana (best að æfa sig með því að spila) og svo tveir tímar hjá kennara...

Skellti mér 9 holur í morgun fyrir vinnu og í þessari líka litlu blíðu. Karlinn á stuttbuxunum og hlýrabol (eða því sem næst) enda ekki nokkur sála á vellinum sem gæti sjokkerast. Spilaði nú bara sæmilega á minn mælikvarða... sprengdi 2vær, 2svar dobbúl og rest á 1num yfir (þ.s. ég átti að para 2vær - helv... pútterinn leitar svo til vinstri).

Eftir kennsluna er búið að breyta gripinu og sveiflunni og þegar ég hitti hann þá liggur hann í 250m beinn í loftinu. Ég get tekið gleði mína á ný. Það sem er líka gleðilegt við þetta er að járnahöggin eru ekki eins mistæk og mun lengri en áður. Það liggur við að það þurfi að lengja þessa íslensku velli fyrir mig svo ég fái að njóta mín almennilega, þurfi ekki alltaf að vera að tsjippa inná eftir drævið...

Það er bara eitt í þessu og ég lofa ykkur að ég mun ná tökum á því fyrr en síðar á þessu sumri... og það er að ná 85 kg sveiflunni þó ég sé 95 kg. Á það til að ýta skrokknum á undan mér með hægri olnboganun í stað þess að koma honum útfyrir velmegunina. Þetta leiðir til þess að ég á það til að galopna kylfuna og smella út til hægri... en ef ég næ þessu þá dett ég undir 20 í sumar... ekki spörning abátit.

Þ.  


Litli geðsjúklingurinn hann ég...

Maður getur stundum dottið í hrikalega vitleysu.

Eins og lesöndum ætti að vera orðið ljóst þá hefur lítið farið fyrir golfiðkun í vetur... reyndar var ekki spilað óhóflega í fyrrasumar heldur. Þrálátar yfirlýsingar um æfingar í vetur döguðu uppi án þess að til aðgerða væri gripið.

Föstudaginn 9.5 fór ég í fyrsta sinn að spila í langan tíma. Ekki frásögu færandi nema hvað að ég mætti á völlinn kl 06:00 að morgni (átti þá eftir að keyra norður í land í 6,5 klst. - sjá færsluna á undan).

Golf er einhvern veginn þannig að maður vill alltaf spila meira og meira. Ég haltraðist því alla morgna (þri - fös) í síðustu viku á bilinu frá 06:00 til 06:30 níu holur. Með þessu nær maður góðum níu fyrir vinnu eða sjúkraþjálfun. Það er misjafnt hvort maður nái að draga aðra geðsjúklinga með sér í vitleysið en ef ekki þá töltir maður bara einn. Skorið er nú samt þannig að það er betra að hafa aðra með því ég er ekki fær um að telja svona hátt margar holur í einu. Ef ég para ekki eða fer holurnar á skolla þá hætti ég bara að telja... ég þarf því ekki að telja mjög mikið.

Á sunnudaginn harkaði ég af mér og píndi mig í 18 holurnar allar. Ákvað að skila skorkorti upp á 20 punkta því ég er hvort eð er að spila svo langt frá þeirri þó háu forgjöf sem ég er með. Ég ætla að halda áfram að skrá á mig skor og ég ætla að halda áfram að geðsýklast þetta kl 06:00 á morgnana... engin traffík, ekkert rok, bara þægilegt.

Að lokum má svo geta þess að froskar anda með húðinni (líka) - nei ég meina að lokum þá verð ég að segja frá því að ég braut odd af oflæti mínu og pantaði mér kennslu. Ég er orðinn svo þreyttur á ómögulegum og óstöðugum upphafshöggum. Þegar ég er í stuði þá er driverinn að skila mér 250 m þráðbeint í loftinu en oftast er ég ekki í stuði og núna er í tísku að smella dræfinu í vinstri niður skrúf ca. 50 m sem er hvimleitt þegar hommateigurinn er lengra frá.

Ég get því sagt með stolti að golfið er komið af stað.

Þ. 


Ævintýraferðin...

Hvítasunnuhelginni var eytt norðan heiða.

Ætlaði að losa mig snemma úr vinnunni á föstudaginn og bruna með famelíuna norður í land... en losnaði rétt fyrir 1700 þannig að við lögðum ekki af stað fyrr en um 1800.

Ferðin gekk vel framan af. Var á tíma á Blöndósi og þar fengum við okkur sósu og salat. Veðrið var svosem ekki upp á marga fiska og við lentum í snjókomu og hvassviðri á Holtavörðuheiðinni og allan Hrútafjörðinn. En við héldum ótrauð áfram á sumardekkjunum. Vatnsskarðið var hins vegar ekkert spes á sumardekkjum þetta föstudagskvöld. Það var varla að maður hefði það upp skarðið því hálkan var þvílík og rokið eftir því og Öxnadalsheiðin var sínu verst. Ég var alveg hættur að sjá milli stika og ef hálkan er erfið upp í móti þá er hún skelfileg niður í móti. Gamli kom á móti okkur og létti bílinn niður heiðina þ.a. ég hefði meira grip.

6 og hálfur norður til Akureyrar. Þetta var bara eins og í gamla daga.

En það var þess virði. Krakkarnir nutu sín þvílíkt í sauðburðinum og þó að ærnar reyndu að lemja Spiderman þá var hann ekkert að kippa sér upp við það og hoppaði bara ofaní krærnar til þeirra. Þau náðu að verða vitni að burði og fengu að halda á lömbunum, sópa garða og gefa hey. Ég fékk að moka skít... það var svosem ekki mikið annað hægt að láta mig gera með löppina svona lélega. Krakkarnir fengu líka að fara á hestbak og svo gátu þau endalaust fundið sér verkefni milli þess sem hlaupið var um túnin í boltaleik.

Við fórum líka í sund á Akureyri. Akureyrar-laugin er tær snilld og algerlega til fyrirmyndar. Þar eru líka skemmtilegar rennibrautir og krakkarnir hefðu getað farið 100 ferðir ef ég hefði ekki stoppað þau í 87.

Ferðin heim gekk áfallalaust fyrir sig. Það erfiðasta var að fara út 18 stiga hitanum á Akureyri. Það kemur líka gott veður í Hafnarfirði bráðum.

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband