Jæja þá er ég farinn af stað aftur. Lönd sem byrja á 'S' eru vinsælust svona fyrri part árs. Búinn að vera í Sádí, er núna í Svíþjóð og á leiðinni til Suður Afríku... hvar er Spánn??? Afhverju er ekki hægt að senda mig til Spánar?
Þetta leit reyndar ekki vel út til að byrja með því Grímsvötn hafa sett strik í reikninginn hjá mörgum ferðalangnum. Þeir ákváðu samt að opna Drulluv... ég meina KEF í tæka tíð fyrir mig þ.a. flugið mitt til CPH stóðst upp á mínútu (bæði brottför og lending). Ég vildi ekki vera allt of seinn út á völl því að ég gerði ráð fyrir röðum í 'tékkinninu' og var meira að segja svo séður að tékka mig inn heima og prenta út 'bordingpass' og allt. Það var hins vegar tekin ákvörðun um að hafa 'baggass-droppið' fyrir þá sem tékka sig inn heima, lokað í dag þ.a. ég græddi ekki á því OG lenti í röð. Ég verð hins vegar að hrósa 'Æslander' fyrir þá ákvörðun að hafa öll innritunarborðin opin (í fyrsta sinn sem ég verð vitni að því) og hóa í allt röskasta liðið sitt, því röðin gekk eins og í sögu.
Næst tók ég þá yfirveguðu ákvörðun að splæsa á mig nýjum glerjum í gleraugun mín. Ég kom askvaðandi inn í gleraugnabúðina og bað um ný gler. Það var varla hægt að sjá út um gömlu fyrir rispum og ég er ánægður með umgjörðina mína og sé ekki ástæðu til að skipta, fyrir utan að ég nenni ekki að máta nýtt 'lúkk'. 10 mínútur sagði hann. Ég fór því hálfblindur í sjoppuna að kaupa beiskan sem er nauðsynlegur í öll ferðalög og tóbak sem er eiginlega nauðsynlegra í allt. Ég komst hins vegar að því að það er ekki til tóbak í KEF... ég hefði sennilega drepið einhvern ef ég hefði ekki verið á leiðinni til Gautaborgar og vitandi að ég var með smá nesti í töskunni. Þar fyrir utan virtist ekki vera til beiskur (hann fannst reyndar). Þegar ég svo ætlaði að sækja gleraugun var viðgerðarmaðurinn eitthvað skrýtinn í framan. Hann hafði nefnilega brotið umgjörðina mína. Einmitt. Frábært. Ég á leiðinni í 4ra vikna ferðalag og ekki með gleraugu. Hann bauðst til að reyna að gera við þau sem ég þáði með semingi því ég er ekki að treysta því að viðgerðin haldi í 4rar vikur. Afgreiðslukonan var spenntust fyrir því að vita hvenær ég hefði keypt gleraugun hvort það væri fyrir meira en 3rem árum, því það væri bara 3ja ára ábyrgð á þessari týpu. HALLÓ!!!! ÞÚ braust gleraugun mín og það hefur ekkert með mína ábyrgð að gera!!! Ég gaf þeim 30 mín til að bjarga þessu, því á þessum tímapunkti voru bara 30 mín í 'bording'. Ég endaði á að fá ný gleraugu að láni og á að koma við á leiðinni heim eftir 4rar vikur til að greiða úr þessu... og þau tilkynntu mér þessar elskur að þau yrðu einmitt bæði í fríi þá... mjög öruggt. Ég er hins vegar mjög ánægður með þessi nýju gleraugu, þau eru stór en þau venjast. Eina vandamálið er að af því að við vorum öll að flýta okkur þá eru þau eitthvað vanstillt, eitthvað þröng og eru farin að meiða mig eftir einn dag. Ég verð flottur eftir 4rar vikur.
Flogið var yfir Akureyri og suðaustur yfir Egilsstaði til Köben. Skyggni gott en ég sá ekki neinn strók úr Vatnajökli. Flugið náttúrulega eldsnemma og ég lítið sofinn þ.a. ég var búinn að plana góðan svefn á leiðinni... hann fór fyrir lítið. 4ra manna fjölskylda í sætinu fyrir framan mig með 2vær litlar skvísur á hoppi og grenji aldrinum og það sem verra var, strákur fyrir aftan mig á aldur við Spiderman I sem spilaði tölvuleikina af krafti alla leiðinni. Það hefði verið í lagi ef hann hefði spilað á sitt eigið spil, en nei hann spilaði á snertiskjáinn í hnakkanum á mér. Það var alveg sama hversu blíðlega ég bað hann eða mömmu hans um að hætt, allt kom fyrir ekki. Hvaða pæling er það að vera með tölvuleiki á snertiskjá í hnakkanum á næsta manni. Ég geri það hér með að tillögu minni að 'Æslander' loki fyrir þennan möguleika.
Til Köben komst ég og náði að sturta einum stórum fyrir flugið til 'Jutteborj'. Þá er maður bara í Reykjavíkurflugvallarstemmaranum. Labba út í vél og vélin ekki af stærri gerðinni. Þessi leggur var sem betur fer sá stysti í ferðinni, ca. 35 mín.
Tékkaði mig svo inn á hótelið hérna í Gautaborg. Herbergið er svona álíka stórt og hornskápurinn í eldhúsinnréttingunni minni. Eins gott að þurfa ekki að vera hér í 3jár vikur. Ég ákvað svo að taka röltið og sjá hvort ég myndi ekki eftir einhverju héðan, því fyrir þær lesendur sem ekki vita þá bjó ég í Gautaborg þegar ég var 7jö og 8ta ára gamall (þess vegna er ég hérna á þessari ráðstefnu, ég er 'ðe svídiss spíking eidjent'). Ég man ekki staf. Það er eins og ég hafi aldrei komið hingað. Það eina sem ég man eftir af því sem ég hef séð eru bláu sporvagnarnir og kanínan á fánanum í Liseberg.
Þetta verður eitthvert bíó...
Það er líka spurning hvernig samvinnan fer hjá okkur, mér og kollegum mínum 2veimur. Annar frá UK og hinn frá NED. Þetta verður haft í minnum sem ICESAVEtríóið, ekki ICYtríóið (sem reyndar keppti í Svíþjóð ef ég man rétt. Vann ekki 'DiggiLúDiggilei' 1985?).
Þ.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.