Er iggí læji?

Þá er vinur minn, Jose Mourinho eða Hósei eins og ég er vanur að kalla hann, horfinn á braut. Þetta er mikill missir fyrir ensku knattspyrnuna og ekki síður fyrir ensku pressuna - sérstaklega þar sem það lítur ekki út fyrir að hann taki að sér lið á Englandi í nánustu framtíð - eða hvað??? Hvað með Tottenham???

Það er alveg sama hvar þú stendur í ensku pólitíkinni - boltinn verður ekki eins...
- ef þú dáðir hann þá áttu eftir að sakna hans án frekari málalenginga
- ef þú þoldir hann ekki þá áttu eftir að sakna hans því þú hefur talað um hann a.m.k. einusinni í viku síðan hann kom til Chelsea (meira en þú hefur talað um knattspyrnustjóra þíns egins liðs)

Þ


Ert' iggi að buggl' ímér?

Hrikalegt ástand hefur verið á heimilinu undanfarna daga. Kaffivélin gafst upp eða svo gott sem. Fyrir þá sem ekki þekkja vel til þá eigum við hjónin forláta kaffimaskínu sem sér um að mala og hella uppá einn bolla í einu. Það er hægt að fá mis stóra og sterka bolla og það er meira að segja hægt að skúmma mjólk með aðstoð maskínunnar. Þessi vél sem er ómissandi í lífi okkar hjóna, tók upp á því að skammta heldur naumt á okkur kaffið. Það fór að taka óratíma að fá úr henni örfáa dropa. Heimilisföðurnum þótti þá sniðugt að keyra sjálfvirkt hreinsunarferli vélarinnar. Þega það var við það að klárast heyrðist 'PÚFF'... vélin starfaði eftir það en hún var send í viðgerð.

Núna er vélin búin að vera í viðgerð á þriðja dag og verulegur skjálfti kominn í heimilisfólk vegna koffínleysis. Brugðið er á það ráð á morgnana og reyndar seinnipartinn líka, að skella sér í næstu hús og suða út bolla og bolla. Vona að vélin fari að verða klár fljótlega...

Þ.


Kreisí...

Ég hef alveg dottið úr bloggstöði. Þetta er svona þegar maður hefur ekkert að segja eða allt sem maður hefur að segja kemur engum við...

Undanfarna daga hefur verið ansi mikið að gera í vinnunni, sem er gott að mörgu leiti en það slítur óþarflega mikið í sundur hjá manni frítímann. Næstu dagar og vikur eru líklegar til að vera svipaðar þ.a. þið skuluð ekkert endilega búast við mörgum færslum á síðunni.

Búið er að vinna á lista konunnar hvað varðar húsið en betur má ef duga skal. Allar rennihurðar eru komnar á sinn stað þó það eigi eftir að loka veggjum, allar flísar eru komnar á gólf þó það eigi alfarið eftir að ganga frá bílskúrnum (þ.m.t. flísar) og skoða möguleika á veggjaflísum hér og þar um húsið. Það er verið að vinna í því að fá píparann til að laga sturtuna... og ef hann kemur ekki bráðlega þá labbar konan út. Garðurinn var sleginn í gær (vonandi í síðasta sinn fyrir veturinn) og kartöflur teknar upp. Það vakti mikla kátínu hjá krökkunum að taka upp allar Barbapabba kartöflurnar.

Helgin breyttist í rólegheitahelgi... krakkarnir suðuðu út gistingu hjá ömmu og afa á laugardeginum og við gömlu skelltum okkur í kvikmyndahús og sáum Veðramót. Ágætis ræma það. Náðum meira að segja að fara út að borða á Sali-Mal eða hvað indverski staðurinn heitir niðrí Austurstræti. Góður matur - ég elska indverskan mat. Á sunndeginum var farið með grísina í Húsdýragarðinn. ÞL hefur líklega ekki farið í garðinn eftir að hann lærði að tala og YR hefur ekki farið svoooo lengi. Þau skemmtu sér konunglega. Eftir garðinn fengu þau svo að fara með frænku sinni og kærastanum hennar í keilu. Það var sport. Við gömlu vissum þá ekkert hvað við áttum af okkur að gera og enduðum á að dotta í sitthvorum sófanum. Hvað er langt síðan ég dottaði um miðjan dag?? Þvílík snilld. Gera þetta oftar.

Nú styttist óðum í að ég dragi konuna til Parísar. Ætlum að eyða viku í rómantík... eða sko ég verð eitthvað að vinna framan af en restin af vikunni fer í rómantík og kaffihúsaferðir og lista-eitthvað. Meira um það síðar...

Þ.


Stórafmæli - tengdó 60

Í gær var haldinn mikill fagnaður til heiðurs tengdaföður mínum sem varð sextugur 29.08
Meðfylgjandi er talan sem ég hélt, nöfnum hefur verið eytt út af einskærri tillitssemi við þá sem koma við sögu:

Kæri afmælis, afmælisfrú, afmælisbörn, afmælisbarnabörn og afmælisgestir. 

Fyrir ykkur sem þekkið ekki vel til, þá heiti ég Þórir og er tengdasonur afmælis. 

Leiðir okkar afmælis lágu fyrst saman fyrir um 15 árum – svo aftur fyrir um 14 árum og loks endanlega fyrir 11 árum. Það var samt ekki alfarið honum að kenna að þetta tók svona langan tíma, dóttir hans spilaði stóra rullu í þeim Dallas.  

Ég verð að byrja á því að viðurkenna það hér og nú að ég þoli ekki tannlækna. Ég er einn af þeim sem liggur með hælana og herðablöðin í stólnum og næ bara að opna örlitla rifu og og ef þið haldið að ég sé stífur af stressi því ég ákvað að halda þessa ræðu fyrir framan 150 manns, þá er það misskilningur. Mér finnst bara óþægilega mikið af tannlæknum hérna inni. 

Reynsla mín af karlinum er annars afar góð, hann er ekki mikið að æsa sig yfir hlutunum, þó að konan haldi kannski öðru fram, hann er vinnusamur, þó að konan myndi kannski þiggja meiri aðstoð á ryksugunni, hann er hnyttinn, þó að konunni finnist hann kannski segja alltaf sömu brandarana. En hávaxinn er hann ekki, þó að konunni finnist það kannski. 

Ég hef fengið að njóta gestrisni og ástar þessara hjóna öll þessi ár og ég er afar þakklátur. Þessi tala er eins konar upprifjun á nokkrum hlutum sem ég hef tekið eftir í fari karlsins í gegnum tíðina. 

Afmælis og eldamennskan
Afmælis hefur gaman að því að búa til góðan mat og nóg af honum. Óskrifaðar reglur heimilisins eru að eiga meira en nóg ef einhver er að koma í mat. Ekkert er neyðarlegra en að vera búinn með matinn og gestirnir ekki saddir. Hjónin kaupa því alltaf 2-4 skömmtum of mikið af öllu. Fyrstu vikurnar mínar í fjölskyldunni voru mér afar erfiðar. Í fyrsta lagi þá er ég mikill matmaður, ég borða nánast allt og mikið af því. Í öðru lagi aldist ég ekki upp við það að grillað væri mánudaga, þriðjudag, miðvikudaga, fimmtudag, föstudag, laugardaga og sunnudaga. Ég borðaði því þangað til allt var búið. Hjónunum leist nú ekki á það að eiga ekki afganga svo daginn eftir var keypt enn meira og viti menn ég borðaði bara meira... svona gekk þetta þartil ég gat ekki staðið upp frá matarborðinu einn daginn. Á tveimur mánuðum þyngdist ég um 15 kg. og ég er enn að reyna að ná þeim af mér. Dóttir þeirra hefur þessa sömu tendensa, kaupa aðeins meira en nóg af öllu. Ég hef þurft að læra að hemja mig og það gengur svona misvel... þau eru nefnilega lista-kokkar bæði tvö, saman og í sitthvoru lagi. 

Afmælis og garðurinn
Karlinn er mjög stoltur af garðinum sínum enda hefur hann eytt miklum tíma í að rækta hann upp og gera hann fallegan. Fljótlega eftir að ég flutti í húsið gat ég nú ekki annað en boðist til að taka að mér garðslátt og trjáklipperí til að hafa upp í leiguna. Ég sé enn þann dag í dag eftir því að hafa nokkurn tíma boðist til að taka þetta að mér. Garðurinn er um 1100 fm af grasi allur umlukinn trjám.  Karlinn hefur að sjálfsögðu ekki staðið einn í því að koma upp fallegum garði, hann hefur leyft frúnni að sjá um kartöflurnar og svona þetta praktíska sem kannski er ekki alltaf það skemmtilegasta á meðan hann hefur verið að dúlla sér inní hlýju gróðurhúsinu.  Dóttir hans er mjög svipuð í þessu, hún vill hafa þetta allt svona stórt og mikið eins og hjá pabba en fattar ekki að það þarf líka að vinna leiðinlegu vinnuna sem lendir þá á mér. 

Afmælis og tölvan
Karlinn á í ástarsambandi ... með tölvunni sinni. Reyndar á hann allaveganna þrjár tölvur sem hann skiptist á að pikka í. En hver á ekki í ástarævintýrum við allaveganna þrjár á þessum aldri? Karlinn eyðir gríðar miklum hluta af tímanum sínum fyrir framan tölvuskjáinn. Mér finnst reyndar ekkert skrítið að ekki séu fleiri en tvö tölublöð á ári hjá Tannlæknablaðinu því ég hef séð karlinn og góð vin hans og kollega lemja inn hálfsíðugrein í blaðið og ef allir eru eins öruggir á lyklaborðið og þeir þá er ekki að sökum að spyrja. Þeir hittust kvöld eftir kvöld, ekki til að semja greinina því þeir voru löngu búnir að því, nei til að slá textann inn í tölvuna. Á einum tímapunkti hóaði karlinn í mig, sem hann gerir stundum ef hann á í vandræðum með elskurnar sínar, og ég kláraði að vélrita greinina fyrir þá á 2 mínútum eftir að hafa tekið ‘Caps Lock’ af. Dóttir hans er hins vegar ekki þessi sami tölvufíkill en vandamálin sem ég þarf að leysa fyrir hana eru af svipuðum toga. Hún er samt verri að því leitinu til að lagfæringarnar þurfa að eiga sér stað strax, án tillits til þess hvort ég sé í sama landshluta eða ekki. Ég held stundum að hún haldi að það sé svona ‘laga-takki’ í vinnunni hjá mér sem lagar allt sem böggar hana. 

Afmælis og veiðin
Eins og þið öll vitið eflaust, hefur karlinn gríðarlegan áhuga á því að vaða ár landsins og lemja vatnsyfirborðið með bandspotta. Í minni sveit lögðum við bara net, vitjuðum síðar um daginn og veiddum alveg fullt... en nei hann þarf að reyna að veiða fiskinn með einum spotta... og það sem verra er, hann á það til að sleppa þeim. Hver er þá tilgangurinn með þessu? Allaveganna hann hefur greinilega mjög gaman að þessu og hefur haft frá blautu barnsbeini. Það eru til myndir af honum – og einni þeirra hefur verið stillt upp við gestabókina - með stöngina í annarri og pínulítinn titt í hinni og drengurinn líklega ekki eldri en 10 vetra. Sumarið er því ekki tími tölvunnar hjá karlinum. Hann reyndi einu sinni að smita mig af þessari bakteríu, sendi mig á kastnámskeið til Ármanna og allt... ég náði bara ekki þessari 10 í 2vö sveiflu og spottinn liðaðist alltaf niður yfir hausinn á mér.  Dóttir hans getur líka gripið í stöng. En þið skuluð passa ykkur því venjulega lemur hún bakkann meira en vatnið og þar að auki gefst hún ekkert upp og lætur stöngina ekkert af hendi ef hún á annað borð hefur fengið hana í hendurnar. 

Karlinn og utanlandsferðir
Karlinn hefur ferðast um allan heim með fjölskylduna sína. Það er gaman að hlusta á þau rifja upp ævintýraferðir til Tahilands, Kína, Brasilíu, Ítalíu og fleiri staða. Skemmtilegra er þó að ferðast með honum. Hann hefur einstaklega gaman að því að skoða nýja staði og upplifa menningu annarra þjóða – ekki síst matarmenningu. Það er líka aðdáunarvert að horfa uppá yfirvegun hans og einbeitni að ná sem mestum lit á sem skemmstum tíma. Karlinn getur legið tímunum saman út við sundlaugarbakka á sólríkum stöðum og lesið reifara og látið sólina létt steikja sig.  Dóttir hans er svona líka... hún getur legið tímunum saman í sólinni og gert ekki neitt. Ég þarf alltaf að vera að gera eitthvað. 

Karlinn og pólitíkin
Sá gamli er gallharður sjálfstæðismaður og hefur alltaf verið. Það varð því uppi fótur og fit þegar það uppgötvaðist að sá sem hér talar var í raun laumu-kommi... eða hann heldur því allaveganna fram. Þessi uppgötvun karlsins fékk mjög á hann og lengi vel vissi hann ekki alveg hvernig hann átti að snúa sér í þessu. Ekki vildi hann missa slátturmanninn og ekki vildi hann reka hann úr húsi og hryggbrjóta dóttur sína. Hann hefur því alltaf snúið þessari umræðu upp í grín. Ekki það að ég hafi nokkurn tíma gefið upp við nokkurn mann hvar ég stend í pólitík enda ekki mjög pólitískur einstaklingur. Dóttir hans er svona líka, blá í gegn. 

Afmælis og Sorpa
Karlinn fer reglulega í Sorpu. Frúin fer nú líklegra oftar, en ef það þarf að fara með kerruhlöss af garðúrgangi eða stærri hlutum, þá brunar karlinn út í hraun með allt draslið. Þegar ég stóð í byggingarframkvæmdum tóku forráðamenn Sorpu upp á því að rukka fyrir hvern rúmmetra af rusli sem maður þurfti að losa sig við. Ég var eitthvað að kvarta yfir þessu við karlinn og hann skildi ekkert um hvað ég var að tala, hann hefur aldrei þurft að borga neitt. Ég ákvað því að fá hann með mér í eina ferð til að sjá hvernig hann færi að. Venjulega stoppar maður í afgreiðslunni til að fá leiðbeiningar um hvert maður á að fara með ruslið, en ekki sá gamli, hann hefur farið svo oft að hann veit hvar allir gámarnir eru... fyrir utan að ef hann er ekki að fara með garðúrgang þá fer allt í blandaða gáminn hjá honum hvort eð er. Karlinn brunaði því á jeppanum upp á rampinn, við stukkum út og hentum af okkur ruslinu. Á leiðinni út segir hann svo: ‘Sko, maður þarf ekkert að borga – það eina sem þarf að gera er að vera í skítagallanum með lekandi hor og á 5 milljón króna jeppa og þá sleppa þeir manni alveg’. Dóttir hans fer ekki á Sorpu. 

Afmælis og íþróttir
Karlinn er mikill íþróttamaður. Hann hefur í gegnum tíðina spilað hnit með félögum sínum á veturna og staðið á höndum fyrir barnabörnin á sumrin. Hann hefur reyndar ekkert brennandi áhuga á að horfa á knattleiki, en ef hann sest fyrir framan leik, þá verður honum ekki haggað fyrr en í leikslok. Hann veit reyndar ekkert endilega hverjir eru að spila og algeng spurning er: ‘Hverjir eru rauðir?’. Í vor skráðum við okkur saman á karlanámskeið í einni líkamsræktarstöð bæjarins. Þetta var hluti af því að ná af sér þessum 15 kg. sem ég bætti á mig á þessum 2veim mánuðum fyrir 11 árum. Ég var nú ekki alveg viss hvernig þetta færi allt saman, sá karlinn einhvern veginn ekki fyrir mér hoppandi í erobikk tímum eða lyfta lóðum í klukkutíma 3svar í viku. Karlinn er nú bara þannig gerður að ef hann er búinn að bíta eitthvað í sig eða taka að sér einhver verkefni, þá hættir hann ekkert við heldur klárar dæmið og það gerði hann með stæl. Það var því mér til mikils happs að hafa hann með – það voru fá tækifæri til að svindla eða skrópa – karlinn hringdi alltaf klukkutíma fyrir tíma til að tryggja að ég kæmi örugglega. Dóttir hans er svona líka – ef hún bítur eitthvað í sig eða tekur að sér einhver verkefni þá er ekki staðið upp frá því hálfkláruðu. 

Afmælis og barnabörnin
Karlinn er mikill barna-karl. Það er aðdáunarvert að fylgjast með öllum barnaskaranum hlaupa upp um hálsinn á karlinum og fagna honum eins og þjóðhöfðingja í hvert sinn sem þau hitta hann. Afi og amma eru alltaf aufúsu gestir á heimili okkar. Hann er líka snöggur til að samþykkja það að passa sílin þegar við unga fólkið þurfum á að halda. Hann veit líka að frúin sér um að vakna á nóttunni ef það er vesen og eldsnemma á morgnanna þegar barnatíminn byrjar. 

Afmælis og frúin
Ég held að við getum öll verið sammála um að karlinn er vel giftur maður. Frúin stendur eins og klettur við hlið hans og hann er nú eiginlega hálfónýtur ef hennar nýtur ekki við. Ef við rifjum aðeins upp það sem á undan er komið í ræðunni.

  • Eldamennskan – hann gæti náttúrulega ekki staðið dag eftir dag í eldhúsinu ef frúin sæi ekki um að fara útí búð, leggja á borð og ganga frá.
  • Garðurinn – hann ætti ekki svona fallegan garð ef frúin sæi ekki um að reita arfann, hreinsa beðin eða borgaði núverandi sláttur- og trjáklippimönnum.
  • Tölvan – hann gæti ekki setið endalaust fyrir framan tölvuna ef frúin væri ekki þessi þolinmóða og skilningsríka týpa.
  • Veiðin – frúin fer með bónda sínum í alla veiðitúra. Hún veiðir ekki mikið sjálf en hún sér til þess að veita honum félagsskap í pásunum og bíltúrunum milli veiðistaða.
  • Utanlandsferðir – hann færi ekki til útlanda ef frúin krefðist þess ekki að fá allaveganna eina viku á sumri í frí frá vinnu og veiðum.
  • Pólitíkin – frúin er bandamaður karlsins í pólitík og saman geta þau spjallað um óslitna sigurgöngu Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
  • Sorpa – karlinn myndi ekki vita hvað Sorpa væri ef frúin hefði ekki kynnt honum ótvíræða kosti þess fyrirtækis.
  • Íþróttir – frúin sér til þess að kaupa viðeigandi íþróttadress fyrir hverja grein, hún heldur fötunum hreinum, sendir hann með handklæði og hreinar nærbuxur og passar uppá að ekkert gleymist. Ef frúin pakkar ekki í töskuna, mætir hann með hana tóma... honum dettur ekki í hug að tékka sjálfur hvort allt sé með.
  • Barnabörnin – við þurfum ekkert að ræða hlut frúarinnar í þeim efnum.
Lokaorð

Kæru hjón – ég vil enda þetta á því að þakka fyrir allt sem þið hafið gert fyrir mig og fjölskyldu mína í gegnum tíðina og óska ykkur til hamingju með daginn.


Nú stoppar maður ekki...

Ég hef nánast ekkert spilað golf í allt sumar - en nú stoppar maður ekki.

Mót á heimavelli á laugardaginn, betri bolti... eins gott að partnerinn standi sig því það er hámarksforgjöf 18 og ég er með 23 á vellinum...

Vonumst til að grísa á eina og eina holu...

Þ.


Það hefur aldrei verið eins tæpt...

Úrslitin á golfmóti Nobex liggja nú fyrir. Þetta hefur aldrei verið jafn tvísýnt og í gær, tvö lið efst og jöfn. Mitt lið með 19 pkt á fyrri 9 og 15 á seinni en sigurliðið með 17 á fyrri og 17 á seinni. Hvað er með þessa reglu um að seinni eigi að gilda?

Allaveganna, við skemmtum okkur konunglega og það er ágætis tilbreyting að eiga séns og ná fuglum og pörum á skorkortið holu eftir holu. Ég verð að viðurkenna að þreytan sat í mér eftir Verahvergismótið í fyrradag og núna get ég ekki lyft hægri hendi... segir mér að æfingarleysið og úthaldið er algerlega ekkert og að ég hljóti að vera að gera eitthvað vitlaust í sveiflunni. Ég var búinn að básúna gríðarlegar framfarir mínar við upphafshöggin og því var komin veruleg pressa á mig að sjá um þá hlið mála í liðinu. Það gekk nefnilega rosalega vel og aldrei betur en á sunnudaginn... en í gær... well... say no more... ætli ég hafi ekki náð 2-3 dúndur drive-um, 3-4 nothæfum og rest var rugl...

Nóg um það. Við urðum sem sagt í öðru sæti með jafn marga pkt og sigurvegararnir. Verðlaunin voru samt ekki af verri endanum eða flug og gisting fyrir 18 manns sem eru örugglega stærstu og veglegustu verðlaun sem ég hef nokkurn tíma unnið til. Meira um það síðar...

Þ.


Allt á spani...

Ég er líklega drauma golfklúbbsmeðlimur allra klúbba og annarra... ég borga gjöldin en mæti eiginlega ekki eða allaveganna mjög sjaldan þ.a. ekki er ég að taka pláss á vellinum frá öðrum. Ég er reyndar í leyfi þetta árið enda eins gott því til dagsins í gær hafði ég spilað 1 x 18 og það ekki einu sinni á heimavelli. Núna, þegar langt er liðið á ágústmánuð, er ég að spila tvo daga í röð. Ég spilaði á 'uppáhalds' vellinum mínum í gær, Verahvergi, og reyndar verð ég að segja að ég hef sennilega aldrei spilað svona vel á þessum velli - Xaði bara eina (venjulega Xa ég allaveganna 12 holur). Í dag er svo Texas Scramble mót í vinnunni og það á að spila í Kiðjabergi sem er raunverulega einn af uppáhalds völlunum mínum (spilaði þar hinar 18 sem ég hef spilað í sumar). Ég hlakka ekkert eðlilega til. Texas Scramble fyrirkomulagið hentar mér einkar vel sem golfara því ég er eiginlega mjög óstabíll spilari, ef ég hitti drive-in (og trúið mér ég er að hitta þau með nýja drivernum sem ég fékk gefins í sumar) þá hitti ég ekki annað högg, ef drive-in eru ekki að gera sig þá er líklegra að ég plumi mig á brautinni, vippin eru ýmist ofaní eða klesst við pinna eða (oftar) alltof stutt eða allt of löng og að síðustu þá er ég líklegri til að setja niður 12-14m pútt en 20-80cm pútt. Furðulegur spilari... ég veit... Þetta er samt alltaf jafn ógeðslega gaman.

Þ.


ofnæmi fyrir 33

Nú er maður gamall.

Það er líka ljóst að ég höndla aldurinn illa. Eftir að hafa haldið smá famely-boð í gær, mest fyrir stelpuna sem varð 7 um daginn, lagðist ég í hvíta nautið og náði ekki að standa upp aftur. Þegar ég dröslaðist á efri hæðina endaði ég í faðmlögum við postulínið, svaf svo ekkert í nótt en var ákveðinn að mæta til vinnu í morgun. Eftir morgunbaðið endaði ég aftur í ælunni... sjitt hvað ég var slappur. Ég reif mig samt í vinnuna en ég veit ekki hvort það var skynsamlegt... dagurinn er að verða búinn og ég held að ég hafi skánað (vinnulega séð) þegar á leið daginn en ég er alveg búinn á því. Það verður því ekkert af frekari framkvæmdum heima fyrir í kvöld (flísalagði forstofunnu sísona upp úr þurru fyrir afmælið).

Er þetta ekki ofnæmi fyrir aldri?

Þ.


Hvíta nautið

Mikil framkvæmdar og innkaupagleði hefur heltekið heimilið að undanförnu. Verslunarmannahelgin fór t.a.m. alfarið í flísalagnir, búið er að panta restina af hurðunum, verið er að skoða flísar í forstofuna og bráðum fyllist stofan af alls konar parketflísasýnishornum. Ef fram heldur sem horfir stefni ég á að parketleggja blandað mósaík... hef ekki séð það áður en einhver verður að taka að sér að vera 'trendsetter'.

Bestu kaupin í langan tíma voru þó líklega hvíta nautið. Gömlu sænsku jálkunum í sjónvarpshorninu var skipt út í vikunni fyrir forkunnarfagurt hvítt ítalskt naut. Nautið liggur í horn og rúmar mun fleiri gesti en gömlu sænsku sessurnar. Þvílíkur munur. Ég sé fram á að liggja þarna kvöldlangt í vetur og glápa á tiltölulega nýlega sjónvarpið mitt (sjá eldri færslur).

Þ.


Frábær helgi að baki...

Löng og ströng en frábær helgi að baki. Stelpan var að keppa á Pæjumóti á Sigló. Þvílík snilld.

YR er nýbyrjuð að æfa. Eftir fyrstu æfinguna kom hún heim og sagðist þurfa takkaskó og að hún ætlaði á Pæjumót. Jú við ákváðum að stefna á það án þess að vita hvort hún myndi endast í boltanum. Áhuginn hefur hins vegar ekkert nema vaxið í sumar og nú er hún staðráðin í því að æfa í vetur líka (sem er gott). Auðvitað er búið að græja hana upp og nú á hún allt til alls.

Fyrsti leikur var innbyrðis viðureign Haukar og Haukar B (YR er í Haukum B). Þetta var nú frekar mikil einstefna (í átt að B markinu) en YR átti samt skot í stöng og ég get svarið það ég var búinn að sjá hann inni og kominn á hnén í fagnið en... Lokatölur 4-0 tap.

Annar leikur var við A-lið Þróttara í Reykjavík. Það var alger einstefna og lokatölur 8-0 tap.

Þegar hér var komið við sögu vorum við foreldrarnir í B liðinu búin að átta okkur á stöðunni. Við héldum áfram að hvetja okkar stelpur og öskra okkur hás. Markmiðið var að sem flestir gætu hreinsað frá marki og að flestir myndu hlaupa í rétta átt og að við fengjum sem fæst mörk á okkur. Þriðji leikur dagsins var því verulega spennandi.

Þriðji leikur var við Leikni (ef ég man þetta rétt). Stelpurnar lentu undir snemma leiks en sýndu mikla baráttu og náðu að skora sitt fyrsta mark - og þvílíkur fagnaður (ekki síður hjá foreldrum). YR heldur því fram að leikurinn hafi endað 1-1 en ég held reyndar að hann hafi tapast 2-1 en ég er ekkert að leiðrétta stelpuna.

Eftir leik var farið í 'tjaldið' og afmælissöngurinn sunginn og YR - 7jö ára - bauð upp á köku. Frábær stemning í hópnum.

Fjórði leikur (laugardagur) var við A lið KR sem var feikilega öflugt. Stelpurnar stóðu sig feikilega vel og héldu markinu hreinu langt fram eftir hálfleiknum. YR sýndi oft snilldartakta í marknu og varði mörg þrumuskot (markmenn voru 2veir í B liðinu sem skiptu með sér hálfleikjunum). Lokatölur voru 4-0 tap en frábær árangur á móti svona sterku liði þ.s. tölfræðin var örugglega nálægt því að fá á sig 30 skot á móti 0 skotum á hitt markið.

Fimmti leikur var við A lið Þróttar frá Neskaupsstað. Þær voru ansi grófar þó ég segi sjálfur frá og þetta var fyrsti leikurinn þ.s. ég varð vitni af 'brjáluðum' pabba sem sagði okkur að fara og horfa á eitthvað annað ef við þyldum ekki að horfa upp á tuddaraskapinn í hinu liðinu. Ég náði að halda mig á mottunni. Lokatölur 6-0 tap.

Sjötti leikur var við A lið Stjörnunnar (sem endaði í öðru sæti á mótinu). Ég held að Haukarnir hafi aldrei komist yfir miðju og ég hætti að telja í 8-0. Stelpurnar voru samt hvergi bangnar og sungu hástöfum Ol'e Ol'e eftir leik.

Sjöundi leikur (sunnudagur) var við B lið Þróttara úr Reykjavík. Þetta var gríðarlega spennandi leikur og okkar stelpur náðu að skora annað mark helgarinnar og jöfnuðu 1-1 rétt fyrir leikhlé. Síðari hálfleikur var aðeins erfiðari og niðurstaðan 3-1 tap. Markið samt ákveðinn sigur.

Áttundi leikur var svo aftur við Haukaliðið sem spilað var við fyrsta daginn. Aftur máttum við þola tap en núna var leikurinn jafnari. Okkar lið var búið að taka þvílíkum framförum. Niðurstaðan 3-1 tap... mörkin farin að hrannast inn.

Níundi og síðasti leikurinn var svo við Hauka C. Nú reið á að klára mótið með stæl og viti menn... 4-1 SIGUR. Ánægjan skein úr hverju smetti (líka foreldrum).

Niðurstaðan frábær helgi. 7 flokkur Hauka A lenti í 3 sæti eftir að hafa verið taplausar lentu þær í því að tapa 1-0 fyrir Víkingum A (sem sigraði mótið) og í raun mjög ósanngjarnt því Haukar lágu í sókn allan leikinn. 7 flokkur Hauka í heild fengu svo heiðursverðlaunin 'prúðasta liðið'.

Þ. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband