2007-08-08
Stórmót í uppsiglingu
Þá er komið að því. Best að hlaða rafhlöður myndavélanna, stilla sig af og strauja KR treyjuna... stelpan er að fara á Sigló með alla famelíuna í eftirdragi. Knattspyrnumót yngstu stúlknaflokkanna verður um komandi helgi.
Ég lenti í smá dillemmu þegar þetta mót kom upp. Ég vildi endilega taka þátt af fullum krafti og helst vildi ég vera liðsstjóri... en þá áttaði ég mig á því að liðsstjórar þyrftu kannski að vera í Haukabúning og málaðir í framan og svona... það gengur eiginlega ekki í mínu tilviki. Ég ákvað því að hætta við umsókn mína um liðsstjórastöðuna. Góðir vinir hafa bent mér á að það sé allt í lagi að hvetja önnur lið til dáða þegar um svona fjölskyldutengsl er að ræða - ef ég er í KR treyjunni innanundir.
Ég vona svo innilega að stelpan standi sig og liðið hennar nái langt í þessari keppni. Ég veit ekki hvort okkar er spenntara fyrir þessu móti, ég eða hún. Það er reyndar annað vandamál í stöðunni. Stelpan vill endilega vera í marki. Það er svosem góð og gild staða inni á vellinum og auðvitað ómissandi fyrir liðið en þið ykkar sem hafið séð 7unda flokk kvenna spila gerið ykkur kannski grein fyrir því að þetta er sennilega erfiðasta staðan á vellinum. Læt ykkur vita hvernig þetta fer... vona að henni verði samt ekki alfarið kennt um öll mörkin sem eiga eftir að rúlla inn... vona líka að útispilararnir sjái þá til þess að það verði skoruð fleiri... taka Brassataktíkina á þetta... spila bara sókn... skora fleiri en þeir fá á sig.
SH - 'Svo er bara að halda hreinu og skora eitt - þá vinnum við leikinn'
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-08-03
Enn einn snillingurinn á leið í götuna...
Um daginn (snemma í vor) var ég að vaska bílinn minn sem er ekki frásögu færandi nema framhjá mér rennir maður, bakkar og skrúfar niður rúðuna... gamall skólabróðir og félagi, Eyvindur Sólnes er búinn að festa kaup á húsi í götunni. Ég verð að lýsa ánægju minni yfir þessum tíðindum því álíka snillingar eru vandfundnir fyrir utan það að loksins flyst golfari í götuna og KR-ingur í þokkabót. Það verður húllumhæ 15 ágúst þegar við tökum vel og fagnandi á móti Eyva og hans fjölskyldu.
Eins og ég hef sennilega margtuggið, býr ótrúlega samheldið og skemmtilegt fólk í götunni minni. Krakkarnir una sér vel saman, farið er í útilegur, haldin eru grímuböll, afmæli, útigrill, fullorðins partý ofl ofl. Nýi nágranninn á eftir að svínfalla inn í þetta prógram.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-07-17
Bjargvættur götunnar...
Undanfarið hefur örlað á því í hverfinu að haldin séu s.k. sms-partý. Krakkar á unglingsaldri hafa þá oft í leyfisleysi en stundum með leyfi, boðið til sín vinum til veisluhalda. Þegar um leyfisleysispartý er að ræða, flýgur fiskisagan ansi hratt og er gsm tæknin óspart notuð til að koma skilaboðum á framfæri um foreldralaus hús í bænum. Þetta eru engin ný sannindi en ég heyrði fyrst af þessu í vetur.
Síðastliðna helgi var svo haldið partý í götunni minni. Töluverð læti voru í krökkunum og mikil bílaumferð með tilheyrandi spóli, flauti og skransi, héldu mörgum vakandi. Krakkarnir þurftu að taka lagið og míga utan í tjaldvagna og henda glerjum og dósum um alla götu. Þetta er ekki gaman. Aumingjans foreldrarnir þegar þeir koma heim vitandi að um 200 krakkar hafa verið að ganga berserksgang í húsinu þeirra. Allaveganna man ég eftir því sem krakki að sófasett voru borin út í garð og ýmislegt misjafnt gert í virðingarleysi við eigur annarra... hvernig er þetta þá í dag? Eitthvað skárra? Veit ekki... Vandamálið er fjöldinn sem mætir. Í gamla daga voru þetta kannski 50 krakkar max... núna hleypur þetta á hundruðum og eins og ég segi það voru líklega hátt í 200 krakkar í þessu umtalaða partýi (sem er ekki það fjölmennasta í götunni til þessa).
Þá er gott að þekkja löggu. Og það er einmitt ein í húsinu við hliðina á mér. Og hann var á vakt í Reykjavík en kallaður út í götuna sína í Hafnarfirði (sem segir sitt um umfang aðgerðarinnar - alls voru 5 lögreglubílar mættir). Hann ásamt félögum sínum, sáu til þess að smala liðinu úr götunni og þeir sem til sáu (ég reyndi að sofa eins og skata) vilja meina að lögreglan hafi rekið liðið út götuna eins og kindahjörð... hvert þeir fóru með krakkana veit ég ekki, en besta leiðin hefur sennilega verið að leigja langferðabíl(a) undir pakkið og keyra í bæinn.
Löggan í götunni er því 'starfsmaður mánaðarins'
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Rosaleg ferðahelgi að baki. Rosalega gott að vera kominn heim. Við erum ekki mikið útilegufólk... við eldri í fjölskyldunni allaveganna.
Fyrst var farið með götunni í Varmaland í Borgarfirði. Yndislegt veður, frábær félagsskapur og ágætis tjaldstæði með þeirri þjónustu sem til þarf (eins og sundlaug). Um kvöldmat voru allir orðnir klárir með tjöldin... eða sko... við með tjald en aðrir með fellihýsi. Búið var að parkera bílunum og mynda skjólvegg um búðirnar... eða sko... við á bíl en aðrir á jeppa. Allir krakkarnir í einni kös í rugbý-i... eða sko við með 2vo krakka en aðrir með 3já eða fleiri... Þetta kvöld gekk allt út á þetta, benda á allt sem gerði okkur öðruvísi en hin. Ég er ekki viss með fellihýsið og krakkafjöldann en alveg til í að ræða þetta með jeppann. Ég á orðið ansi marga bandamenn í götunni hvað það varðar.
Laugardagsmorgun, vöknuðum í rigningu. Vissi að ég átti eftir að pakka tjaldinu og raða í bílinn... sem er ekki gaman þegar allt er blautt. Var því kannski ekki í svaka stuði. Við hentumst samt í sund með öllu liðinu og hentum krökkunum til og frá. Það var ekki óalgengt að heyra karlmenn öskra 'fariði frá krakkar, pabbi er að leika sér!' eða 'krakkar, leikið ykkur í djúpu lauginni svo þið séuð ekki fyrir!' - pabbarnir voru ansi duglegir í sundboltanum. Eftir sund drifum við í því að rífa í okkur nesti og klára að pakka saman. Eiga menn þakkir skyldar fyrir aðstoðina við að pakka tjaldinu, því annars hefðum við ekki komist af stað.
Laugardagseftirmiðdagur fór í að keyra norður á Skaga þar sem okkur var boðið í afmæli. Þar hittum við fyrir fullt af fólki sem við þekktum ekki neitt og einhver skyldmenni. Alltaf gaman að hitta skyldmenni og spjalla. Hins vegar var veðrið ekki uppá marga fiska, 7 stig, norð-austan, súld og þoka. Við vorum því ekkert alltof spennt að slá niður tjaldi, sérstaklega eftir að hafa tekið það niður blautt fyrr um daginn. Kl. 23 fórum við því heim... og þá meina ég heim. Alls 313 km en það tók tæpa 4 klst. Kenni malarveginum á Skaga og almennri þreytu um en heim komumst við. Það var gott að komast heim í rúmið sitt.
Sunnudagurinn fór svo í að ganga frá drasli eftir ferðina og þrífa bílinn (maður verður að sýna smá viðleitni ef maður er að spá í jeppa). Auðvitað þurfti að vera bongólfur hjá liðinu í Borgarfirðinum og þau komu ekki fyrr en seint og um síðarmeir í bæinn. Það hafði verið 'of heitt' og sól allan sunnudaginn og auðvitað mikið fjör (samt vorum við ekki með).
Á næsta ári verður nóg að fara eina ferð í einu - ekki tvær - það er of mikil keyrsla á liðið.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-07-04
Útilega ársins í uppsiglingu...
Ekki það að hún sé eitthvað stórmerkilegri en aðrar útilegur... NEMA af því að við förum yfirleitt ekki í fleiri en eina á ári (ef við náum því).
Það er svo skrítið að það gerist allt á sama tíma hjá manni. Annað hvort allt eða ekkert. Þannig er það einmitt núna. Okkur er boðið í 120 ára afmæli norður á Skaga hjá föðurbróður mínum og frú og svo er óvissuútileguferðalag Fífuvalla þessa sömu helgi. Við vitum ekki alveg hvert verður farið en mér skilst að það sé verið að vinna í veðurguðunum. Vonandi verður farið áleiðis norður því þá eigum við heimangengt fram á laugardag og getum 'skutlast' norður á Skaga í tæka tíð fyrir afmælið.
Mig hryllir samt mest fyrir því að pakka öllu draslinu, keyra, rífa allt draslið út úr bílnum, tjalda, elda, pakka öllu draslinu í bílinn, keyra, rífa allt draslið út úr bílnum, tjalda (þarf líklega ekki að elda á laugardag), pakka öllu draslinu í bílinn, keyra, rífa allt draslið út úr bílnum... en nei nei... konan segir að það sé ekkert mál... þá er það líklega ekkert mál.
Trúi því bara ekki að bestu sumardagarnir séu liðnir og ég inni í vinnunni eða að smíða vegg...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-07-03
Skaut mig laglega í fótinn núna ma'r...
Um daginn fór ég með uppáhalds mágkonu minni að kíkja á íbúðir. Hún var búin að spotta út eina laglega á besta stað úti á Nesi... það er bara ekki hægt að segja nei við því... en auðvitað í gömlu húsi og eins og svo oft í gömlum húsum þá er búið að fiffa ýmislegt. Í bjartsýni minni kepptist ég við það að lýsa því yfir að eitt og annað varðandi lagfæringar og standsetningu íbúðarinnar væri nú ekki mikið mál og auðvitað skildi ég aðstoða hana við þetta allt saman.
Nú er semsagt komið að þessu og ég byrjaði í gær að bisast við að rífa niður vegg til að reisa annan, pússa og skrapa og gera það sem til þarf. Ég er að sjálfsögðu ekki einn en ég er heldur ekki 10. Allt þetta tekur tímann sinn en ég sé fram úr þessu og vonandi verður allt orðið klappað og klárt um helgina - allaveganna það helsta...
Það versta við þetta er að gíra sig upp í framkvæmdargírinn. Auðvitað stökk konan á mig með listann þegar ég var búinn að lofa mér í þetta allt saman og pantaði þvottahús, rennihurðar, flísalögn, handlista og ég veit ekki hvað og hvað... hún verður því að fá að vera næst í röðinni.
Ég verð í þessu í sumar...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-07-02
Fluga eða ekki fluga
Sumarfrí - kafli 2.
Eftir að hafa eytt einum og hálfum sólarhring í bænum, brunaði ég norður aftur í faðm fjölskyldunnar. Planið var að eyða helgin í hinni ægifögru sveit sem kennd er við Mývatn.
Samhent átak var gert í að ganga frá bústaðnum á föstudagsmorgun og var störfum lokið, allt klappað og klárt, búið að pakka og skúra og skrúbba, rétt rúmlega 10:00 - sem hlýtur að vera met... allaveganna þá skildu leiðir og við litla fjölskyldan fórum í langan leiktúr í Kjarna og borðuðum úti á túni inn í miðbæ Akureyrar. Loks var lagt af stað austur. Komum við í Torfunesi og þar er alltaf jafngaman að koma. Var einmitt að segja konunni að í barnæsku var alltaf suðað um að stoppað yrði í Torfunesi á leiðinni austur í sveit eða suður til Reykjavíkur. Auðvitað var ekki alltaf stoppað og auðvitað varð maður alltaf jafnfúll. Eftir kaffitár í Kinn, var haldið inn á Húsavík og langamma dregin út í göngutúr. Var hún hin hressasta með heimsóknina eins og við og ánægð með göngutúrinn um bæinn í 20 stiga hita og sól.
Við komum líka við í apótekinu á Húsavík því það átti að kaupa flugnafælukrem til að bera á sílin og konuna. Ég harðneita því að þurfa slíkt enda alinn upp án þess í sveitinni. Fluga hefur víst verið í hámarki núna undanfarið en spurningin var hvort það yrði einhver vargur. Hin flugan truflar mann nú ekki mikið. Sem 'innfæddur' eða uppalinn, þá er nú ekki hægt að segja að það hafi verið fluga og ekki angraði hún okkur á nokkurn hátt í þessari ferð, þó að líkhúsið á bílnum hafi verið ansi fjölflugað.
Um kvöldmat vorum við svo komin upp í sveit. Við ákváðum að við skildum ekki nenna að elda og því var farið út á lífið. Dauðaleit var nú gerð að meðalatösku drengsins, því eins og tryggir lesendur vita þá er drengurinn með bráðaofnæmi fyrir eggjum (laus við kuldaofnæmið 7-9-13). Taskan týnd. Það síðasta sem við mundum var að við vorum með hana inni á Akureyri. Þá er gott að þekkja gott fólk og vinkona okkar hún Elín fann töskuna ósnerta í grasbrekkunni í göngugötunni þ.s. við höfðum borðað í hádeginu. Auðvitað vorum við með auka adrenalínpenna þ.a. ekki var þörf á að bruna eftir töskunni þarna um kvöldið - en gott að hún komst í leitirnar.
Laugardagurinn var svo tekinn í túristann. Nutum þess að fara í Jarðböðin sem er blátt lón eins og hverfislaugin okkar, fórum með nesti í Höfða og gengum stærsta hringinn í Dimmuborgum. Dagurinn endaði svo í grillveislu á veitingastaðnum sem kenndur er við Gamla bæinn úti í þorpi. Það þarf ekki að taka það fram að hitinn var um 18-20 allan daginn og mest sól... og auðvitað nutum við fallegasta sólseturs á landinu síðar um nóttina.
Sunnudagurinn var heimferðardagur. Langafi var heimsóttur í kirkjugarðinn og kirkjan skoðuð. Ég vildi endilega skrifa í gestabókina og þ.s. við vorum greinilega fyrst í kirkjuna þennan dag þurfti ég að rita dagsetningu. Samviskusamlega skrifaði ég 31.06.07 í haus. Huxaði svo ekki mikið meira út í það fyrr en ég var kominn í sundlaugina á Akureyri... það eru ekki 31 dagar í júní. Djö*** rosalegur sérfræðingur get ég verið. Er að spá í að biðja pabba að skutlast þarna uppeftir og rífa blaðsíðuna úr bókinni áður en einhver fattar þetta.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-26
LOST
Sumarfrí - kafli 1.
Ákváðum að þiggja bústaðarferð með ömmu Auði og afa Jóni í Kjarnaskóg við Akureyri. Lögðum af stað á föstudeginum og tókum því rólega, stoppuðum oft, borðuðum nesti. Bústaðurinn er æðislegur, rúmgóður með stórum palli, heitum potti og stutt í leiksvæðið í Kjarnaskogi. Auðvitað er búið að fara ótal margar ferðir í rennibrautir og apa-rólur og mikið gengið um ævintýraskóginn. Meðal fjöldi pottaferða á dag er 3.
Íþróttaálfurinn ég er búinn að fara 2svar út að hlaupa en það er nú bara rétt til að halda í við átið sem á sér stað í ferðinni. Ef til eru meiri sukkarar en við í litlu fjölskyldunni, þá eru það amma Auður og afi Jón. Línuskautarnir eru með en hafa ekki verið brúkaðir.
Ég á reyndar ekki sumarfrí þ.a. ég hef verið að sinna vinnu þessa virku daga sem af eru ferðinni. Það er gott að vera í góðri vinnu og geta sameinað þarfir fjölskyldunnar og vinnunnar. Á morgun flýg ég svo suður og skil liðið eftir, kem svo aftur á fimmtudagskvöld og næ þannig 2veim vinnudögum í bænum og framhaldsferð austur í Mývatnssveit um næstu helgi. Langferð á sunnudaginn alla leið í bæinn.
Við fengum símtal frá nágranna okkar í gær (búin að vera á fjórða dag á ferðalagi) - ég hafði þá verið búinn að vökva garðinn allan þennan tíma. Konan var ekki par-ánægð með mig því úðarinn var stilltur á matjurtagarðinn. Vonandi er hann ekki mikið ónýtur. Fer í skoðunarferð annað kvöld.
Drengurinn er á útopnu í ferðinni og er að njóta frelsisins sem býðst í sveitinni. Vakir frameftir og vaknar snemma. Stoppar ekki allan daginn, hleypur útum allt og uppum allt. Í dag fékk ég símtal. Drengurinn var týndur. Allir leituðu útum allt, hlupu í alla bústaði og töluðu við fólkið í kring. Leitarflokkur var kominn af stað, samsettur úr fólki í sumarfríi. Síðasta ráðið var að keyra uppá róló og tékka hvort hann væri kominn alla leið þangað og væri að dunda sér í rennibrautunum. Hann sat þá í mestu makindum í framsætinu í afa-bíl með beltið spennt og tilbúinn að keyra af stað.
Stelpan er í S-inu sínu. Það eru lifrutré út um allt (lirfutré - fyrir þá sem skilja ekki YR mál). Hún tekur svo að sér leiðsögn um skóginn í frístundum.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-20
Andvökunótt og endurnýjuð kynni...
Eftir að hafa reynt að hafa ofan af fyrir syninum í allan gærdag, datt hann loks útaf úti á palli um kl 17 í gær. Hann tekur enn kríu yfir daginn. Af því að hann er með hlaupabólu ákvað ég að leyfa honum að lúra. Mistök. Hann ætlaði náttúrulega aldrei að sofna í gærkvöldi... Í ljósi þess að ég er konulaus ákvað ég að nota tækifærið og horfa á sjónvarpið fram eftir nóttu - það tíðkast ekki venjulega. Ég ákvað því að byrja enn einu sinni á seriunni 'Band of Brothers' - rosalega er ég ánægður með þá seríu. Allaveganna eftir að hafa horft á 2vo þætti og klukkan orðin aðeins meira en margt, byrjaði drengurinn að kvarta... aumingjans snáðinn hefur væntanlega vaknað upp við kláða. Ég ákvað þá að fara í bólið líka sem var eins gott því drengurinn svaf ekki heilan klukkutíma í alla nótt. Það eru því þreyttir feðgar á Fífuvöllum í dag... hvað ætli við gerum að viti svoleiðis...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-19
Hlaupabóla er leiðinleg...
Hlaupabólan er komin í drenginn. Hann er nú ekki alveg að kaupa þetta. Skilur ekki alveg að það er ekki sjálfsagt að mega leika við hvern sem er. Það eru ekki allir áfjáðir í að fá hlaupabólu á sumrin. Við reynum að gera það besta úr þessu. Förum í hjólatúra og hlaupum um í garðinum því drengurinn er alveg hress þrátt fyrir allt. Núna rétt í þessu ákvað snáðinn að leggja sig á pallinum og sefur úti. Hann hefur bara gott af því...
Að mér sjálfum. Heimilisstörf eiga ekki við mig. Konan er að heiman í dag og fram á morgundaginn og ég sé fram á fullt af verkefnum handa henni þegar hún kemur til baka. Afhverju að gera eitthvað í dag sem þú getur látið aðra gera fyrir þig á morgun? Síðasta mælingin í leikfiminni er í dag. Ég kemst ekki og því var ég mældur í gær. Helstu tíðindin eru þau að á þessum tæpu 8 vikum eða eiginlega 7 vikum sem búnar eru þá missti ég 5,7 kg og það sem skiptir kannski meira máli að ég náði fituprósentunni úr 20,5 í 16,2.
Nú er bara að sukka í sumar :)
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)