Staðan á heimilinu er þannig að konan er í endurmenntun þessa dagana. Ekki frásögu færandi nema við erum ekki með pláss fyrir sílin neins staðar yfir daginn. ÞL er nýbyrjaður í sumarfríi og YR er á leikjanámskeiði milli 09 og 12. Karlinn þurfti því að vera heima í dag. Reyndi að sinna vinnu eftir fremsta megni en sonurinn er kröfuharður á athyglina fyrir utan það að ef litið er af honum eitt augna, þá veit maður ekkert hvert hann getur verið kominn eða hvað hann getur verið að gera. Yfirleitt er hann að gera eitthvað af sér. Afarnir og ömmurnar eru ýmist í vinnu eða við veiðar og allt venjulegt fólk (kennarar ekki meðtaldir) eru líka í vinnu. Það er því ekki á vísan að róa með yfirsetu.
Auðvitað var nauðsynlegur fundur í vinnunni í dag og allt leit út fyrir að ég þyrfti að taka sílin með á fundinn (eða planta þeim með samstarfsfólki og Harry Potter á fóninn). Haldið þið þá ekki að mín yndislega nágrannakona hafi boðið mér yfirsetu af fyrra bragði. Mikið varð ég glaður. Dagurinn er því allur að smella. Náði að vinna aðeins heima, koma sílunum í pössun, sinna vinnunni og svo verður konan komin heim fyrir leikfimitímann. Ég gerði nú reyndar ekkert til heimilisins og ég er nú ekki viss hvernig því verður tekið af frúnni en ég verð bara að face-a það...
Ég er að fara í leikfimi eftir vikuhlé vegna meiðslanna sem ég hlaut við línuskautaruglið sem ég kom mér í um daginn. Það verður fróðlegt að sjá hvernig ég kem út úr þeim tíma. Ég er aðeins farinn að slaka á í matardagbókinni en ég er enn að léttast, sem er gott. Konan færði mér þessa dýrindisgjöf á laugardaginn... fitumælir Kelloggs... kannski ekki það rómantískasta sem ég gat huxað mér en ég tek viljann fyrir verkið. Þessi mælir er nú samt algert FisherPrice því það munar 4% stigum á mælingunum hjá mér milli klukkutíma yfir daginn... ég er ekki að kaupa það.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 16:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-14
Djö*** getur maður verið þrjóskur
Svona er þetta þegar maður er búinn að bíta eitthvað í sig. Það er ekki hægt að hætta við og hvað þá að gefast upp. Núna er ég að súpa seyðið. Ég get varla gengið fyrir sársauka í vinstri fæti og nei það er ekki eftir mannfíflið sem keyrði mig niður á Grensásveginum...
Ég fór að finna fyrir sársauka í innanverðum ökklunum (báðum) þegar ég var um það bil að renna inn í Kópavog í fyrradag. Fann að það voru að myndast blöðrur. Ég átti náttúrulega eftir að klára skautahlaupið svo ég beit bara á jaxlinn. Í gær gat ég ekki verið í sokkum og þetta versnaði með deginum og nú er ég hræddur um að það sé komin ígerð í þetta helv***.
Það versta er að ég sakna mest að geta ekki farið á skautana... Djö*** er maður kex!!!
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-13
Ferðasagan - á línuskautum heim úr vinnunni
Kl. 16:30 reimaði karlinn á sig skautana og lagði af stað út í óvissuna. Þ.s. ég hafði einungis skautað á afmörkuðum svæðum, heima og í kringum vinnuna og niðrí laugardag, óð ég í þeirri villu að allir göngustígar og gangstéttir í Reykjavík og nágrenni, væru rennisléttir. Þvílík vitleysa.
Fyrsti áfangi var að koma sér upp götuna hjá Jóa Fel (sem ég man ekki hvað heitir) og þaðan upp á Langholtsveg og niður Álfheima. Gangstéttirnar þar eru ekkert sérstakar fyrir línuskauta en ég komst síðar að því að þær eru í raun guðdómlegar í samanburði.
Grensásvegur er langur og allur uppí móti. Ég var rétt kominn inná Grensás þegar starfsmaður EJS á merktum bíl, reyndi að keyra mig niður um leið og hann var að senda/lesa SMS í símanum sínum. Ég skoppaði af bílnum og kastaðist á rúðu í fyrirtækinu hans. Ég var á gangstéttinni og hann á leið inn á bílastæði sem eru fyrir aftan hús. Fíflið sagði ekki einu sinni afsakið! Nú hefði verið gaman að búa við réttarkerfi US manna. Allaveganna. Síðari hluti Grensás er erfiður fyrir skautara af mínu kaliberi. Mikið um ósléttar gangstéttar. Ég komst alla leið uppá Bústaðarveg.
Á Bústaðarvegi hafði ég séð fyrir mér að vera spítalamegin við götuna en þar endaði göngustígurinn snögglega svo ég þurfti að taka smá rúnt í leit að göngustíg um Fossvoginn. Á endanum neyddist ég til að snúa við og koma mér aftur upp á Bústaðarveg. Fann svo göngubraut aftur til baka rétt fyrir ofan spítalann. Eitthvað misreiknaði ég hallann og legu göngustígsins því þegar ég kom yfir götuna var ég kominn á svo mikla ferð að ég náði ekki að hægja á mér. Við tók mikill bratti beina leið niður að spítalanum og það eina sem ég gat gert var að reyna að standa í lappirnar og hugsa 'ef ég dett þá er stutt á slysó'. Ekki datt ég þarna.
Áfram hélt ég og nú gerði ég sennilega fyrstu mistökin í leiðarvalinu, í staðinn fyrir að fara lengra niðreftir í Fossvoginn frá spítalanum og detta þar inn á dýrindis göngustíg, ákvað ég að fylgja Bústaðarveginum og fara niður göngustíg sem ég hafði séð við rampinn (þegar maður kemur úr Kópavogi og fer upp á bústaðarveg). Sá stígur er algert ógeð. Hann er allur sprunginn og holóttur og hallar þar að auki mjög mikið. Ekki leið á löngu þar til ég missti algerlega stjórnina. Á ákveðnum tímapunkti sá ég fram á að stórslasa mig og í staðinn fyrir að fara lengra og á meiri ferð, skutlaði ég mér í grasið sem umlykur stiginn. Þarna má segja að ég hafi dottið, sem ekki var á planinu, og það í 4ða sinn á skautaferlinum.
Að göngubrúnni komst ég og yfir hana og þá lá leiðin á fínum stíg niður í Kópavog þar sem ég tók sennilega næstu vitlausu ákvörðun. Í stað þess að fara upp fyrstu götu sem ég fann, hélt ég áfram á stígnum meðfram fjörunni. Stígurinn er reyndar skemmtilegur en eftir fyrstu götuna áttu ekki séns að gera neitt nema skauta stiginn til enda og hann endar niðrá höfninni. Þar komst ég inn á götur og skautaði sem leið lá að hælinu. Aftur komst ég á stiginn þar og áfram alveg út á Arnarnes.
Arnarnes er ekki með stíga svo það er bara upp götu, niður götu og þá ertu kominn í nýja hverfið í Garðabæ. Þar eru þrusugóðir stígar nema hvað, vegna framkvæmda þá ná endar ekki saman. Svo enn og aftur þurfti að finna hjáleiðir og fara gangstéttir.
Álftanesvegurinn var svo næstur. Það var ógeð. Ég gat ekki verið á veginum vegna umferðar og sá litli göngustígur sem meðfram veginum er var fullur af grjóti. Þetta var ekki auðveldur kafli. Eina gatan sem ég svo skautaði var leiðin inn að Hrafnistu og sú gata er hrjúf en alger lúxus við hliðina á Álftanesógeðinu.
Við Hrafnistu tekur svo við göngustígur sem liggur niður í miðbæ Hafnarfjarðar og hann var líka í sundur við blokkarsmíðarnar í höfninni þ.a. ég þurfti enn og aftur að finna hjáleið. Síðan skautaði ég sem leið lá út Strandgötuna, framhjá Suðurbæjarlauginni og upp að Ásvöllum. Ekki voru ævintýrin enn búin því við Ásvelli er verið að moka burt heilu hólunum svo göngustígurinn þar er ónothæfur. Ég endaði því á nýmalbikuðu hlaupabrautinni minni við Bónus og verðandi verslunarhverfið. Þessa leið þekki ég vel og eftirleikurinn auðveldur alla leið heim.
Það var þreyttur karl sem rúllaði inn Fífuvellina eftir 2ja klukkustunda og 20 mínútna skauterí. Lappirnar við það að gefa sig undan þunganum og ekkert nema ákveðnin kom mér í mark, því strax í Kópavogi var ég farinn að finna fyrir sárum verkjum í hælunum sem gat bara þýtt það að húðin var smátt og smátt að fara af.
Í dag er ég sæll, ekki í sokkum og ekki skóm... berfættur í töflunum.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-06-13
Yes!!!!!
Komst heim...
2 klst og 20 mín
tók reyndar óþarflega stóran krók í Kópavogi
ferðasagan kemur á morgun... vonandi
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-12
Skautar í dag... ekki spurning
Um daginn var ég að hreykja mér af því að ég ætlaði á skautunum heim úr vinnunni. Veðrið setti strik í reikninginn. Nú þori ég ekki að bíða lengur og þó ég þurfi að skrópa í leikfimina í kvöld þá ætla ég á skautunum heim í dag. Veðrið er eins og best verður á kosið, ekki mikið rok og ekki rigning. Spurning bara hversu lengi sólin hangir. Heim fer ég á skautunum.
Það er eitt með þessa skauta, svona af því að ég hef haldið því fram að ég detti nánast aldrei (hef dottið 3svar á ferlinum) þá er samt eins og það séu auknar líkur á að maður detti þegar maður fer oftar... Stefni á að detta ekki á leiðinni heim í dag.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-11
Adrenalin.is
Rosalegur stemmari byggðist upp í vinnunni á föstudaginn. Til stóð að fara í 'óvissuferð' - innan gæsalappa - því ég vinn á þannig stað að okkur líður ekki vel í verkefnum þar sem mikil óvissa ríkir og því reynum við að eyða henni eftir fremsta megni. Það vissu semsagt allir hvað átti að gera.
Ferðinni var heitið á Nesjavelli þ.s. búið var að bóka í þrautakóng í Adrenalíngarðinum. Ég var nú ekki alveg viss með skemmtanagildið áður en ég lagði af stað en ég er fullviss í dag að allir hafi gaman að því að ögra lofthræðslunni í sér. Einu sinni var ég lofthraddur en er það ekki núna... allaveganna ekki mikið. Fyrsta þraut var róla. Maður er dreginn upp í ca 8 metra hæð og svo er manni sleppt. Maður fær góðan 'sjúg' í magann í svoleiðis salibunu. Næsta verkefni fólst í því að draga einn úr hópnum (einn í einu) afturábak uppí loft og láta hann dingla. Annað hvort er ég svona þungur eða veg svona þungt í drættinum að ég náði aldrei þessum 'frjálsafallsfíling' en ekki leiðinlegt. Þriðja þraut fólst í því að klifra upp lóðréttan klifurvegg. Ég hélt að það yrði nú lítið mál enda var ég einusinni óður í svona klettaklifur án þess að hafa stundað það stíft. En þetta tók vel í. ég komst þó skammlaust á toppinn. Að lokum var það svo staurinn. Staurinn er þannig að maður er með spotta í bakinu, klifrar upp 8-10 metra háan símastaur og á svo að enda með því að stíga uppá riðandi staurinn. Það er ekkert mál að klifra upp og maður heldur að það sé ekkert mál að standa uppá staurnum - vá hvað maður hefur rangt fyrir sér. Það er rosalega erfitt að taka síðasta skrefið uppá staurinn. Ég hafði það en það var tæpt.
Næsti viðkomustaður var svo sund á Selfossi. En það var lokað. Þá var ákveðið að fara í sund í Verahvergi. En það var lokað. Enduðum þá í sundi í Árbænum og það var opið.
AusturIndiafélagið tók svo fagnandi á móti okkur í kvöldverð. það er einhvernveginn alltaf hægt að treysta AusturIndiafélaginu. Ég hef aldrei orðið fyrir vonbrigðum á þeim eðalstað.
Á laugardaginn var ég svo pínu hægur... ekki orð um það meir. Tók samt aðeins til hendinni í garðinum og hljóp á eftir sílunum út um allt... en pínu hægur. Sunnudagurinn fór líka í það að dunda í garðstörfum. Þessi garður fer nú að verða ansi fínn þó ég segi sjálfur frá. Ég er samt ekki nógu ánægður með grasið mitt sem kemur illa undan vetri, en við skulum gefa því sumarið. Nenni nú ekki að rífa upp alla 300fm úr þessu.
Það eina sem út á þessa helgi er hægt að setja er sukkið. Ég var ekki alveg að standa mig í matarræðinu og ekki kom ég vel út í hreyfingunni. Bæti það upp í vikunni. Línuskautar í hádeginu og æfing í kvöld.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-07
Ég sem var orðinn svo morgunhress...
Einn af mínum löstum er hversu latur og tregur ég er að fara á fætur á morgnana. Ég hef alltaf verið svona frá því að ég man eftir mér. Ef það er ekki eitthvað þeim mun mikilvægara og spennandi sem ég þarf að taka mér fyrir hendur eldsnemma, þá hef ég alltaf átt erfitt með að rífa mig framúr. Þegar fjölskyldan stækkaði þurfti ég að taka mig saman í andlitinu, það þarf jú að sinna sílunum... en samt er þetta alltaf jafn erfitt. Einhverjir vilja halda því fram að þetta lagist með aldrinum, að maður læri að meta morgunstundirnar, en ég hef ekki fundið fyrir því... nema um daginn. Þegar ég var rétt byrjaður í leikfiminni og veðrið á þessu skeri var þannig að sólin skein í andlitið á manni (þó það hafi ekki verið heitt) þá fann ég fyrir því að ég var að verða hressari og hressari með hverjum morgninum og átti auðveldara með að rífa mig framúr. Ég vildi meina að átakið væri að skila sér, ég væri léttari í lundu og liði betur andlega og líkamlega og þetta styrkti mig enn frekar í því að halda þessu stífa prógrammi áfram. Ég er enn í leikfimi og reyni að lifa heilbrigðu lífi án hertrar fitu en aftur er komið bakslag í morgungleðina. Ég held að ég geti skrifað þetta á veðrið. Annað hefur ekki breyst. Djö*** er rosalega leiðinlegt veður hér á suðvesturhorninu - maður er bara alveg að missa það. Svo kíkir maður á blogsíður vina og félaga sem búsettir eru erlendis og voga sér að setja inn myndir af veðurspá næstu viku (25+ og sól). það á að loka þessum vefsetrum.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-06-04
Gjafmildi nágranninn...
Nei ég fór ekki á línuskautunum heim á föstudaginn. Veðrið er búið að vera okkur skauturunum mjög óhagstætt undanfarna daga, það er varla stætt í skóm hvað þá á skautum. Ég bíð eftir næsta logni til að komast á skautana og þá jafnvel fer ég á skautunum heim.
Það var nú samt síðast þegar ég fór á skautana eitt kvöldið í síðustu viku að konan sá að einn nágranni okkar var að losa sig við torfbúta úr garðinum sínum. Vitandi það að það vantar hjá okkur smá rönd, bað konan mig að kanna hvort hann væri ekki til í að eftirláta okkur grasið. Auðvitað var það auðsótt og stóð ég í þökulagningum til að verða 01:00 þá nóttina. Ekki nóg með það heldur fannst elskulegri eiginkonu minni ekki hægt að nágranni minn myndi henda öllu grasinu sem eftir var og við ákváðum því að fá alla slummuna (sem var ca. 40 sinnum meira en við þurftum). Ég þurfti því að upphugsa stað til að leggja grasið. Fann hann. Elskulegi nágranni minn ákvað að best væri að vinna þetta núna um helgina, þ.e. stinga upp garðinn hjá sér í 12 vindstigum og rigningu og auðvitað þurfti ég þá að taka þá yfirveguðu en vanhugsuðu ákvörðun að taka við þökunum og leggja þær í sömu 12 vindstigunum og sömu rigningunni. Konan fjarstýrði mér svo innan úr hlýjunni og tók vinnan í garðinum rúma 6 tíma (með því að moka eitt stykki beð, möl upp, mold niður). Ég get alveg sagt ykkur það að ég hef ekki verið svona holdvotur síðan ég fór í sund um daginn.
Auðvitað á nágranninn þakkir skyldar fyrir grasið og auðvitað lítur brekkan mín miklu betur út svona en áður, en ég geri fastlega ráð fyrir því að hann komi og slái brekkuna með grasinu sínu reglulega næstu ár...
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-06-01
Enn ein yfirvegaða skyndiákvörðunin...
Stundum er maður ekki heill í hausnum. Ég á það til að taka mjög yfirvegaðar en illa ígrundaðar ákvarðanir og setja markið kannski svolítið of hátt. Það versta við þetta er að ég þarf endilega að básúna það í alla í kringum mig þ.a. ég verð að standa við orð mín. Ég er einmitt að básúna núna... en það er bara af því að ég er búinn að básúna þetta í flesta sem ég þekki (einusinni reyndi ég að læra á básúnu - önnur saga).
Nú er ég semsagt búinn að ákveða að fara heim úr vinnunni á línuskautum. Ég ætlaði meira að segja að renna heim í dag - en ég verð að viðurkenna að ég er efins um að treysta mér í það eins og veðrið er. Ef það lægir aðeins og ef það rignir ekki meira en orðið er þá skelli ég mér... annars bíður þetta fram í næstu viku. Ég vil helst ekki að þetta sé sama dag og ég er í leikfimi þ.a. miðvikudagar og föstudagar koma til greina.
Í tilefni dagsins ákvað ég að keyra nokkurnveginn þá leið sem ég þarf að fara (öfuga, að heiman í vinnu), svona til að sjá ca. hvort ég kæmist langleiðina á gangstéttum og göngustígum. Mér sýnist það sleppa að mestu. Í leiðinni lét ég bílinn mæla vegalengdina fyrir mig og þetta eru sennilega um 17 km sem ég þarf að leggja að baki. Ef það væri sól og blíða þá væri þetta ekkert mál. Það er bara ekki sól og blíða.
Segi ykkur síðar hvernig fer, eða öllu heldur hvort ég fer í dag eða síðar.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-05-30
Línuskautafrík
Alveg dottinn í það... línuskautar eru málið. Ef þið sjáið gaur á besta aldri þeysa um Hafnarfjörð (kannski eitthvað í hverfi 104 á vinnutíma) þá er það ég. Líklega verð ég samt á svo mikilli ferð að þið sjáið bara 'RoadRunnerLínu' og ryk... en það er ég. Þetta er ekkert eðlilega skemmtilegt sport. Ég var eitthvað að reyna að renna mér á kvöldin eldsnemma í vor en það var ekki sérlega þægileg tilfinning að sjá ekkert... sérstaklega þegar göngustígarnir eru uppfullir af möl og grjóti (vel á minnst... það mætti nú alveg sópa fyrir mann göngustígana). Nú er ég búinn að finna góðan stað fyrir kvöldrennslið. það er verið að malbika verðandi bílastæði fyrir verðandi verslunarkjarna á Völlunum og þar er ég með hátt í 1000m langan nýmalbikaðann kafla algerlega útaf fyrir mig... þar er ég á kvöldin. Þarf að fara að kanna ástandið í hverfinu í vinnunni. Farinn.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)