2007-04-30
Dagur 5 - frí allan daginn
Nú er langur tími liðinn frá síðasta bloggi og enn lengra síðan ég var í ferðinni góðu. Reyni samt eftir fremsta megni að lýsa síðustu dögunum.
Smá innskot... ÞL datt í ofnæmi í gær... nú eru það líklega hundar (frábært)
Dagur 5 - frí allan daginn og ekkert planað um kvöldið heldur. Dagurinn var því mest tekinn í það að slappa af, borða góðan mat og setjast að á kaffihúsum. Auðvitað þurftum við líka að kaupa einhver leðurveski á markaðnum því án þeirra getur maður ekki verið. Ungverjar eru frægir fyrir gúllassúpu og ég lagði mig fram við að reyna að éta hana sem oftast á sem flestum stöðum. Í þessa gúllassúpu er notað óhemju magn af paprikukryddi (sem ég held að sé líkara chilli)... til að afgreiða gjafir handa ættingjum voru keypt nokkur kíló af þessu kryddi í þartilgerðum gjafaumbúðum.
Nú man ég ekki hvað ég var búinn að ræða um matarmenninguna, en fyrir utan gúllassúpuna eru þeir frekar lélegir í eldhúsinu. Maður pantar sér það dýrasta og flottasta en fær svo einhver þunnildi sem maður myndi ekki þora að bjóða kettinum sínum. Allaveganna... þetta kvöld... fórum á kaffihús sem við höfðum farið áður á (fyrst fyrir rælni en svo aftur og aftur)... þar er matsölustaður líka... og þvílík steik mmmmmmmmmmmmmmm og allt í kringum þennan stað var frábært, þjónustan, umhverfið, maturinn og verðið. Það kom á daginn að þó maður sé í framandi landi að skoða framandi menningu og þó að það sé stundum gaman að smakka framandi mat... þá er alltaf best að fá blóðuga steik.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jibbí. Það var frí 4ða daginn í fríinu. Ég fékk að sofa út svo langt sem það nær því dreginn var ég á lappir til að gúffa í mig begg og eiconi. Mikið sem maður kann að meta begg og eicon, sérstaklega þegar það er ekki á boðstólnum heima hjá manni sökum eggjaofnæmis yngsta meðlims fjölskyldunnar.
Eftir morgunmat var haldinn skipulagsfundur milli okkar hjóna og var það einróma samþykkt að nýta daginn til frekari skoðunnar á borginni auk þess sem söfn skildu sótt. Arkaði því húsbóndinn af stað til að kaupa ferðapassa í samgöngukerfi borgarinnar, 3ja daga óheftur aðgangur að neðanjarðarlestum, sporvögnum og strætisvögnum.
Fyrsta stopp var Helfararsafnið. Það er merkilegt að það er alveg sama hversu oft maður skoðar svona söfn, les margar bækur eða horfir á marga fræðsluþætti... sagan breytist ekki. Safnið hafði mikil áhrif á okkur en þar að auki var gaman að sjá bygginguna sem safnið er í því það er algerlega út úr öllum byggingarstíl í borginni, nýtískulegt með skakka veggi og glerhýsi.
Næst var arkað í lest og brunað upp á Búda-hæðir (kastalahæðir). Þar gengum við um gamla bæinn og skoðuðum konungshöllina, slöppuðum af í 20 stiga hita og snæddum gúllassúpu nr.3.
Að lokum fórum við svo stórt bæjarrölt Pest-megin, þ.s. við byrjuðum á því að skoða Óperuna síðan Stefáns kirkju (dómkirkjan), ráðhúsið og fleiri merkileg hús og enn fleiri merkilega staði. Þeir mega eiga það að þessum stærri og merkari húsum er vel við haldið þó öll önnur hús séu við það að hrynja.
Um kvöldið var svo skipulagður 'hóp-dinner' og sigling um Dónó. Hlaðborð mikið og girnilegt... en afhverju í ósköpunum var ég (og aðrir gestir) látinn éta af undirskál??? ég hef barasta aldrei lent í öðru eins. Fyrsta sinn sem ég man eftir að ég gekk frá hlaðborði ... ekki svangur beint en alls ekki saddur ... bara vegna þess að ég var kominn með í lærin á því að þurfa að standa svona oft upp til að fara fleiri ferðir. Allaveganna. Kvöldsigling í góðu veðri um Dónó er skemmtileg upplifun.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Það er búið að vera pínu hektískt í vinnunni undanfarið og því ekki mikið bloggað. Tek á því bara núna.
Allaveganna, dagur 3... rosalega var erfitt að vakna. Ég var rifinn framúr fyrir allar aldir með þeim orðum að ég væri að verða of seinn í skólann. Jú við vorum jú í Búdapest í þeim tilgangi að heimsækja menntaskóla þar í borg. Rútan lagði af stað (eftir begg og eicon) kl 08:30 og átti að vera u.þ.b. 30 mín á leiðinni þegar reiknað hafði verið með umferðartöfum. Það gekk óvenjuvel að komast inn í hverfið þ.s. skólinn er staðsettur en þegar þangað var komið lentum við í smá böggi... rétt við skólann var verið að gera við gatnamót og rútan gat ekki beygt inn götuna... í staðinn fyrir að hleypa okkur út tók rútubílstjórinn þá yfirveguðu ákvörðun að reyna að finna aðra leið að skólanum. Það hefði hann ekki átt að gera því það er ekki önnur leið. Við keyrðum því í rúman hálftíma í viðbót og komum allt of seint í skólann. Þar var reyndar tekið vel á móti okkur og eftir smá kynningu fórum við í líffræðitíma. Ég skildi reyndar ekki mikið en komst að því að Ungverjar kalla DNA, DNS. Að skóla loknum ákváðum við hjónin að finna okkur sporvagn og fara á kínamarkaðinn. Bjuggumst við að geta gert góð kaup á ýmsum varningi, löglegum og ólöglegum. Það var ekki rétt. Þvílíkt rusl og drasl í óaðlaðandi umhverf - man ekki eftir öðru eins. Við stoppuðum því stutt við og fórum frekar í bæinn. Þessi dagur átti að fara í smá verslun. Markaðurinn niðrí bæ var fyrsta stopp og þar var margt að sjá og skoða. Handverkið var kempt af mikilli ákefð og ein og ein taska var keypt. Annað sem var þó merkilegra var að seldir voru reittir hænu og andahausar auk beinahrúga úr allskonar fiðurfé og öðrum dýrum. Gúllasið þeirra á markaðnum var reyndar gott. Eftir markaðinn var labbað á laugaveginum og litið í búðir. Þvílík hörmung. Allaveganna hitti ungverska tískan okkur ekki. H&M var sjónmengun dauðans og ég lýg því ekki (allavega ekki mikið) að ég kastaði nánast upp inní búðinni vegna þess augnavítissóda sem herjaði á mig. Dagurinn endaði svo fínt út að borða í góðum félagsskap.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-04-11
Búdapest í dagsbirtu...
DAGUR 2 - Skoðunarferðin mikla og þjónarnir
Fyrir allar aldir var maður rifinn á lappir til að ná rútu. Ekki mikið frí í því. Sem sagt fyrir 0830 (í +2 umhverfi er það 0630) var maður búinn að skófla í sig brimsöltu beikoni og eggjahræru dauðans og gera sig kláran í skoðunarferð um París austursins (eins og Búdapest var/er gjarnan nefnd). Fararstjórinn okkar í ferðinni er af ungverskum ættum og gantaðist með það að tala tvö tungumál, íslensku og ungversku, en geta bara notað þessi mál í þessum tveim löndum. Var hún fróð um allt og ekkert sem merkilegt er í borginni. Seinna skildum við það hversu sniðugt er að hafa svona ferðir á sunnudögum því þá er umferð í lágmarki. Það er frekar þétt setinn bekkurinn á götum borgarinnar á annatímum auk þess sem flestar, ef ekki allar göturnar eru einstefnugötur og því ekki hlaupið að því að fara stystu leið á áfangastað. Allaveganna. Keyrt var með hópinn á vel flesta minnisvarða borgarinnar og maður gat áttað sig betur á kortinu sem annars var óskiljanlegt í höndunum á manni. Ferðin var í alla staði fróðleg og skemmtilega samtvinnuð af stuttum fyrirlestrum um sögu og menningu auk frítíma á hverjum stað fyrir sig. Í kjölfarið gat maður því ákveðið hvort viðkomandi staður væri þess verður að heimsækja aftur síðar til frekari úttektar. Að lokinni rúmlega 4urra klukkustunda ferðar var loksins hægt að fá sér að borða aftur. Hópurinn sem við tilheyrðum tvístraðist en stór hluti ákvað að fara saman og sitja úti í sólinni... jú það er komið vor í evrópu og við vorum í 18-24 stiga hita alla vikuna (sem er allt annað en 8-10 stig sem ég var búinn að gera ráð fyrir eftir að hafa dvalist langtímum á veðurspávefsíðum veraldarvefsins). Skemmtileg lítil krá með sæti úti en var ekki heimsótt aftur í ferðinni, ágætis snarl og kaldur bjór (sem er kostur)... eitt af því sem þó skemmdi aðeins fyrir var konan 3em hæðum ofar sem var að sópa svalirnar sínar og lét snjóa yfir hópinn. Eftir rölt um bæinn var sú yfirvegaða ákvörðun tekin að fara upp á Hótel og leggja sig, þetta var jú líka frí. Eftir kríu var farið af stað í stórum hóp á veitingastað sem heitir '100 ára' og ekki er sérstaklega mælt með á þessari síðu þó að flestar ferðahandbækur mæli með honum. Það tók nefnilega ekki langan tíma að átta sig á því að matarmenning er ekki upp á marga fiska í Ungverjalandi (allaveganna ekki eitthvað sem féll að smekk höfundar), kjötsneiðarnar eru skornar af skepnunni með ostaskera (svo þunnar voru þær), gæsalifurin er sörveruð köld með feiknaskammti af tólg og svona mætt lengi telja... meira um það síðar. Fyrir utan matin var þjónustan ekki upp á marga fiska. Það var ekki sami þjónninn sem mátti vísa til borðs, taka við drykkjarpöntunum, taka við matarpöntunum, taka við kaffipöntunum osfrv. Og svo þegar gera átti upp mættu þrír þjónar, einn sem þuldi upp með manni hvað maður pantaði, annar sem skrifaði verðin á réttunum blindandi niður á blað (kunni öll verðin á öllum réttum og öllum drykkjum) og sá þriðji lagði saman og rukkaði... snilld... fyrir utan að þetta tók gríðarlegan tíma fyrir stóran hóp og hversu stressaðir aumingjans mennirnir voru... það kippti aðeins í munnvikin að sjá til þeirra.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Við erum komin heim úr hjóna- vinnu- skemmti- helgar- menningarferðinni, þreyttari en nokkru sinni fyrr en með ánægjubros á vör. Það væri of langt mál að þylja alla ferðasöguna í einum rykk þ.a. ég fékk hugdettu... set niður framhaldssögu eftir minni um Búdapestferðina miklu. Ef þið hafið ekki áhuga þá þurfið þið ekki að kíkja á síðuna næstu vikuna, en ef þið brennið í skinninu þá verðið þið að uppfæra síðuna reglulega næstu daga.
DAGUR 1 - Flugferðin út
Eins og fyrr hefur verið rakið þá missti ég úr heilan dag í fríinu þegar ég fékk það staðfest að farið yrði í loftið hálf sjö en ekki hálf sjö. Laugardagurinn fór því í það að ganga frá síðustu lausu endunum í pökkunarferlinu og kenna mömmu á húsið (þau fluttu heim til að sjá um börn og bú mestan hluta ferðarinnar okkar). Kveðjustundin var erfið fyrir stelpuna en stráxi hefur ekki vit á þessu og var því ekki lengi að smella kossi... var bara spenntur fyrir partýinu með ömmu og afa. Auðvitað vorum við síðust í tékkinu og fengum bestu sætin í vélinni... eða þannig. Það var allaveganna ekki röð við innritunarborðin, sem er gott, og það var stutt í flug þ.a. ekki þurfti maður að hanga á stöðinni. Þegar inn í vél var komið kom í ljós að bestu sætin í vélinni voru ekki mönnum bjóðandi... það var svo þröngt þarna aftast hjá tojaranum að skeljarnar voru bókstaflega í mænunni á manneskjunni fyrir framan mig og er ég hvorki stór maður né lappasíður. Ég reyndi að gleyma mér í FM2007 en það gekk illa að sjá á skjáinn því ég gat ekki hallað honum aftur fyrir þrengslum. En við komumst á leiðarenda... miklu seinna en til stóð skv. upplýsingum ferðaskrifstofunnar. Næsta skref í svona ferðum er að bíða mjög lengi eftir töskunum sínum og það tókst. Konunni tókst meira að segja að týna veskinu (pörsinu) eftir að hafa verið 15 mínútur í landi, en finna það aftur með pössunum, peningunum og greiðslukortunum eftir aðrar 5 mínútur. Eftir að hafa fengið farangur var strunsað út í langferðabílanna sem biðu eftir hópnum en skipulagið var ekki mikið á þeim ferðum heldur. Þegar ég var búinn að bíða í röð til að koma tösku draslinu niður í lestir langferðabifreiðarinnar sem merkt var hótelinu okkar og ferðaskrifstofunni, kom í ljós að það var ekkert sæti fyrir okkur í rútunni. Auðvitað var okkur lofað að allt yrði í himnalagi og að töskurnar myndu skila sér á rétt hótel þó við færum með annarri bifreið - en einhvernveginn var maður ekki alveg að treysta því... ef klukkan hefði ekki verið að verða 0200 (reyndar tímamismunur upp á +2) hefði ég beðið mennina á bílunum að rífa allar töskurnar út aftur - tók þá upp kæruleysið og krossaði fingur. Okkar rúta fór því á 6 hótel áður en við komumst á leiðarenda og við sáum að töskurnar höfðu skilað sér. Hótelið allt hið fínasta og ég var svo þreyttur eftir ferðina að ég sofnaði mjög fljótlega eftir kl 03:00 vitandi það að ég átti að vera klár og búinn að éta morgunverðarhlaðborðið kl 08:30 (þegar +2 er ekki gott) næsta dag til að ná skoðunarferðinni um borgina.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-03-30
Munurinn á okkur hjónum...
Jæja - nú er fríið alveg við það að detta inn... rosalega hlakka ég til. Ég er alveg við það að vera tilbúinn, á bara eftir að renna strauboltanum yfir einhverja skyrtularfa og henda í töskuna... eða það hélt ég allaveganna. Ég komst að því nefnilega í gær að það 'þarf' að skipuleggja svona ferð með miklum fyrirvara svo vel sé og það 'þarf' að ganga frá ýmsum málum áður en farið er af stað. Þegar ég tala um fyrirvara þá er ég ekki að meina kvöldið fyrir ferðina. Ég er nefnilega þannig gerður og lifi í þeirri sannfæringu um að hlutirnir reddist og að maður á ekki að gera neitt í dag sem maður getur látið aðra gera fyrir sig á morgun... í gær komst ég að því (einu sinni enn - því ég gleymi því alltaf jafnóðum) að svona virka hlutirnir ekki í hjónabandinu mínu. Það verður allt að vera klárt, það verður að vera búið að ganga frá öllum lausum endum og það þarf að vera búið að ákveða hvaða föt á að taka með, helst viku fyrir brottför. Ég vil meina að maður eigi að henda í tösku þeim nærum og þeim sokkum sem hreinir eru kvöldið fyrir ferðalagið og annað reddast... en nei, ekki til að tala um. Maður á að vinna sér í haginn og byrja þennan ferðaundirbúning miklu fyrr. Maður á t.d. ekki að vinna í skattskýrslunni sinni í ferðavikunni því það væri hægt að nota tímann í eitthvað þarfara, maður á ekki að vinna frameftir í ferðavikunni því maður á að nota tímann í eitthvað þarfara, maður á ekki að sitja auðum höndum og slappa af í ferðavikunni því maður á að nota tímann í eitthvað þarfara. Vegna þess hversu óskipulagður ég er þá lítur út fyrir að dagurinn í dag fari í litla vinnu og meiri undirbúning. Ég er samt alveg sannfærður um það að það skiptir ekki máli hvor leiðin sé farin, það verður rosalega gaman í Búdapest.
Til viðbótar við þetta tók ég hálfan 'sútara' í dag, þ.s. ég næ ekki sparifötunum á 'payday' því ég verð ekki á landinu. Einnig náði ég að snúa mánaðarlegu rauðvínslottóinu yfir á daginn í dag með þeim rökum að ekki væri hægt að draga pottinn út á föstudeginum langa - fannst það ekki við hæfi, aðallega af því að líkurnar á því að dráttur yrði á miðvikudaginn komandi voru yfirgengilegar og þá verð ég upptekinn við að skoða menningarheim austur Evrópu.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2007-03-26
Af RSK og öðrum fjára...
Rosalega leiðist mér sérstaklega mikið einu sinni á ári... þegar líður að RSK gerð og skilum. Þetta er reyndar miklu betra núna þ.s. hægt er að fá nánast allar upplýsingar af netinu... en kommon hvað þetta er morkið. En eftir að hafa lesið einhvers staðar fyrir mörgum árum að það væri ekki nema von að börnin væru að draga lappirnar með heimalærdóminn og fyndist það svo leiðinlegt þegar fyrirmyndirnar, foreldrarnir, gerðu ekkert annað en að kvarta þegar kæmi að skattskilum (eða annarri heimavinnu), þá hef ég reynt að bölva í hljóði. RSK er semsé klár... á bara eftir að ýta á 'send'.
Var boðið í frábæra veislu á laugardaginn og skemmti mér og öðrum konunglega. Nágrannakona mín (ein þeirra) hélt uppá afmælið sitt með pompi. Saman voru komnir vinir og fjölskylda og að sjálfsögðu nágrannarnir í götunni. Það er ekki hægt að kvarta undan félagslífinu og samheldninni í götunni. Mikið var skeggrætt um málefni líðandi stundar, fyrirhugaða kosningu um stækkun álvers og ýmsar kjaftasögur.
Get farið að strika yfir fjölmörg atriði af listanum mínum sem birtist hér um daginn. Auðvitað bætast við nokkur atriði en það er alltaf svoleiðis... ég ætla nú ekki að fara að setja öll atriðin sem konan mín hefur listað upp fyrir mig að vinna í, ég held að síðan taki bara ákveðinn fjölda lína (gæti kannski sett link í excel-skjalið hennar). Enn eru þó eftir nokkur atriði sem tengjast ferðinni í næstu viku - VÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍÍ - já nú mega Ungverjarnir fara að vara sig... 'Búdapest hjér æ kom'
Varðandi ferðina þá tapaði ég heilum degi í fríinu. Ég var nefnilega búinn að fara á stúfana og kanna hvenær flogið yrði (var ekki tekið fram í auglýsingunni frá hópnum sem er að fara). Ég komst að því að sambærilegar ferðir til Búdapest væru með morgunflugi út... huxaði mér gott til glóðarinnar... en viti menn að þegar sannleikurinn kom í ljós er flugið kl 1830 en ekki 0630... hálfsjö er nefnilega ekki það sama og hálfsjö. Ég er nú samt að jafna mig á þessu.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2007-03-20
Brjálað að gera
Það er ekki lítið sem þarf að huga að þessa dagana...
- báðir bílarnir komnir á tíma í km tékk hjá umboðinu (alveg ókeypis)
- ýta á réttingaverkstæðið með hliðarspegilinn sem gleymdist þegar ég krassaði bílinn
- sækja fjölskyldupáskaeggið upp í Nóa (dóttirin á æviáskrift no6)
- taka á móti rafvirkjameistaranum sem ætlar að leggja lokahöndina
- vinna frameftir því það er nóg að gera
- hætta snemma því konan þarf að vinna frameftir því það er nóg að gera
- kjósa um stækkun álversins í bakgarðinum mínum
- finna restúranta í Búdapest
- festa helstu kennileiti í Búdapest inn í map24 í símanum
- finna einhvern til að lána mér I-pod (einhver sjálfboðaliði? bara vika)
- læra á I-pod
- hef enn ekki náð að sannfæra konuna um ágæti þess að fjárfesta í alvöru myndavél, vinna í því
- barnauppeldi
Annars eru þær fréttir helstar að drengurinn hefur tekið vel við sér með ofnæmismálin. Steraógeðismeðíferðin virðist ætla að skila sér (7-9-13). Ég er ekki farinn að fagna en þetta lítur vel út. Hann hefur verið í stöðugum tilraunum og hefur fengið að fara út í rokna kulda og rok án þess að sýna einkenni. Við erum því vongóð um að þetta hafi skilað sér þó að þessir sterar og ofnæmislyfin sem drengurinn var á hefðu ýmsar aukaverkanir í för með sér og spítalaferðir. Hann er því kátur og hress og það er eins gott því samkvæmt því sem hann segir sjálfur er skemmtilegast að vera úti að leika af öllu því sem hann gerir...
Stelpan er að standa sig vel í skólanum og er svo dugleg að lesa að hún mátti velja sér lestrarbók sjálf, hætt að lesa 'Óli á ól - Ása sá ís' og er að lesa um Gralla Gorm. Þar eru ansi mikið erfiðari orð eins og 'kóngulóarklessa' og 'fallegt flóðhestaskott' - en hún hamast við að komast í gegnum textann.
Og jú... hjónakornin á leið til Búdapest. Það verður langþráð frí. Höfum alltaf ætlað að taka einhvers konar hlegarferð og þegar okkur bauðst að fara í tæpa viku til Búdapest á góðum kjörum, gátum við ekki slegið hendinni á móti því. Eitthvað á maður eftir að sofa út, spóka sig í bænum laus við áhyggjur um að hafa týnt öðru barninu, henda sér í spa og hella í sig framandi öli... meira um undirbúninginn og ferðina síðar.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2007-03-16
snilldaruppfinning...
Ég fékk símtal í gærkvöldi...
BK: blessaður, er ég að trufla?
ÞS: nei, nei
BK: heyrðu ég er að ryksuga...
ÞS: hmmm
BK: ég sit uppí sófa og er að drekka bjór en samt að ryksuga - keypti græju sem sér um þetta fyrir mig
ÞS: þú skrökvar!
BK: nei þetta er snilld...
Græjan er snilld. Búinn að sjá hana 'læf' - kíkið á þetta http://www.robomop.net/ og nær algerlega hljóðlaust...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2007-03-15
ég er gjörsamlega að missa það...
Af hverju geta hlutirnir ekki bara verið eins og maður vill hafa þá?
Í það minnsta eins og maður heldur að þeir eigi að vera?
Þetta væri allt saman svo miklu einfaldara og hausinn á mér væri ekki svona soðinn af huxi... maður getur orðið þreyttur á að huxa - og já ég þarf stundum að huxa, líka í vinnunni.
$#%%&$&/#"#$%&"#$%
Annars vil ég óska ykkur til hamingju...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)