2007-03-08
Græjuvesen...
Ég verð að viðurkenna að ég er rosalegur 'sökker' fyrir græjum. Ef ég ætti sand af seðlum þá ætti ég 'böns' af græjum - ekki spurning - það er svo margt sem mig langar í en eins og staðan er í dag þá læt ég mig einungis dreyma um hversu gaman það væri að eiga hitt og þetta. Það er líka þannig að skynsemin í fjölskyldunni er ekki í mér og ég er yfirleitt skotinn í kaf á fjölskyldufundum þegar mér dettur í hug að brydda upp á því að kannski væri gaman að eiga svona og svona græju. Skemmst er að minnast þess þegar sjónverpillinn dó... Ef ekki hefði verið fyrir skynsemi fjölskyldunnar þá sæti ég uppi með 300.000 kr vísareikning og flottan flatverpil í stofunni en raunveruleikinn er sá að ég endaði með 50.000 kr vísareikning og mjög góðan og vel nothæfan bollusjónverpil í góðri stærð. Ég er mjög sáttur og skynsemin er sátt og þá eru allir sáttir... auðvitað kemur einhvern tíma flatverpill í stofuna en koma tímar koma ráð. Vegna alls þessa þá kom eftirfarandi mér mjög á óvart og í raun skemmtilega á óvart. Þannig er mál með vexti að gamla Canon Ixus 400 digitalmyndamaskínan er farin að hiksta. Það er algerlega happa-glappa hvort maður nær myndunum af kortinu inn á tölvuna og stundum eru að koma upp alls kyns skrítnar meldingar og ekki er hægt að taka myndir nema við og við. Ég var fljótur að dæma maskínuna látna og vildi drífa í því að kaupa bara nýja, allaveganna að huga að því að kaupa nýja. Skynsemin tók þá völdin og sagði mér að fara með hana í viðgerð, það kostar jú minnst 3.000 kr skoðunargjald og vonandi er þetta ekki stórmál og hægt er að gera við hana fyrir viðunandi péning... ok - huxaði ég... þar fór nýja Canon SD Ixus 800 IS vélin sem ég ætlaði að fá í staðin (900 vélin er ekki eins spennandi). En viti menn... næsta setning skynseminnar var þá að við þyrftum nú eiginlega að fara að fjárfesta í alvöru digital vél, svona stórri - JESS - það datt af mér andlitið... en þvílíkur fögnuður sem braust út (innra með mér), ég fengi nýja græju... núna er ég bara í því að skoða Canon EOS 400D eða Canon EOS 30D (sem mér líst reyndar betur á).
Segið svo að maður eigi ekki að láta skynsemina ráða!!!
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-03-01
Dresskódi...
Ég vinn sem betur fer á vinnustað þ.s. yfirvöld skipta sér ekki af klæðarburði. Ég get ekki huxað þá huxun til enda ef ég þyrfti að vera uppstrílaður dag eftir dag í jakkafötum með bindi. Ég kann betur við mig í gallabuxum og stuttermabol. Mér finnst líka bjór miklu betri en rauðvín (án tillits til tilefnis).
Ég ákvað hins vegar að reyna að innleiða 'dresskóda' í vinnunni. Dresskódinn byggir á því að mæta fyrsta virka dag mánaðarins í fínni klæðum, jakkafötum með bindi í mínu tilfelli. Auðvitað voru allir með á því (eða þannig)... Það þarf því ekki að fjölyrða um það að ég er sá eini sem er mættur allur strílaður upp.
Þessi payday-dresscode er ekki að gera sig... ég ætla samt að láta á það reyna og kanna hvort ekki sé grundvöllur fyrir þessu. Ég mun mæta uppstrílaður fyrsta virka dag aprílmánaðar einnig... nei þá verð ég í Búdapest... þetta verður þá að bíða til maí.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-02-27
Meiriháttar...
Versta í heimi, fyrir utan kuldaofnæmi, er ælupest... rosalega er það leiðinleg veiki. Ég þreytist ekki á að tönglast á því. Nú eru það við feðgin sem liggjum, dóttirin þó öllu skárri. Maður getur ekki einusinni reynt að lesa bók eða hafa það huggulegt því manni er bumbult allan daginn. Þegar maður er búinn að finna stellingu sem hentar, hvort sem það er sitjandi standandi eða liggjandi, er eins gott að halda henni eins og maður getur því um leið og maður færir sig úr stað þá fær maður æluna upp í kok...
Get t.d. ekki skrifað meira núna því ógleðin sækir að mér
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Drengurinn kominn á blússandi stera-rúss. Aumingja drengnum líður greinilega ekki vel og hann er langt frá því að vera líkur sjálfum sér. Í stað þess að vera litla ljúfa ljósið, ofuraktívi prakkarinn og glaði sólargeilsinn, er hann vælinn, ónógur sjálfum sér, eirðarlaus og veiklulegur í útliti. Samt er hann bara á 4ða degi meðferðarinnar af 10. Það er deginum ljósara að honum líður ekki vel og það er alveg klárt að sterunum fylgja aukaverkanir sem reyna mikið á hann... Mikið vildi ég geta tekið þessa byrði af honum. Öll verðum við að standa með honum í þessu og reyna að láta honum líða vel. Við getum huxað til þess að það eru bara 6 dagar eftir og vonandi verður hann ekki lengi að losna við aukaverkanirnar.
Við erum farin að hleypa honum út, þó að það sé kalt. Hann er þá undir stöðugu eftirliti og við erum alltaf tilbúin að kippa honum inn ef hann fer að sýna viðbrögð. Dæmi um kraftleysi og áhugaleysi hjá honum birtist mér svo greinilega í gær þegar systir hans og 3 aðrir krakkar í nágrenninu voru að spila við mig fótbolta. Það var mikill hasar, eitthvað sem minn maður myndi ekki undir eðlilegum kringumstæðum láta fram hjá sér fara, en í gær lét hann alla eiga sig og hélt sér til hlés í sandkassanum á meðan hinir kepptust við.
Stelpan stendur sig vel í þessari þrautagöngu og er ægilega góð við bróður sinn. Það er samt erfitt að muna að það má ekki nefna 'út að leika' upphátt...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-02-23
Jahérnajæja...
Ég ætlaði að fara að setja inn tengla á þau Blog sem ég reyni reglulega að lesa en áttaði mig þá á því að kannski vilja menn ekki að það séu tenglar út um holt og hæðir að skrifum þeirra... sérstaklega kannski ef maður þekkir fólkið ekki persónulega... kannski í lagi að henda inn frændfólki og vinum? Ég semsagt hætti við þennan lista í bili...
Að máli málanna. Kuldaofnæmið. Nú er svo komið að drengurinn er að byrja á blússandi sterameðferð. Eitthvað á hann að verða örari fyrir vikið á meðan lyfjagjöf stendur og má hann nú tæplega við því... annars eru foreldrar hans með 'soddan' jafnaðargeð að annað eins þekkist ekki og munu gera sitt besta að styðja drenginn í gegnum þetta. Von er til þess að sterarnir munu draga all verulega, ef ekki hreinlega útrýma einkennum kuldaofnæmisins hjá honum. Sambærilegar meðferðir hafa reynst vel hjá unglingum með sama ofnæmi en hann er jú bara 3ja ára. Því fyrr sem hægt er að byrja meðíferð eftir að ofnæmi greinist, því betra og því höldum við að við stöndum ansi vel að vígi. Til viðbótar við sterana er hann líka að taka inn mixtúru vegna ofnæmisins og anda að sér astmalyfjum í pústformi og svo á hann nokkur sett af bráðalyfjum, mixtúru og adrenalín-penna, sem búið er að koma fyrir á leikskólanum, ömmu og afa og auðvitað heima, fyrir utan settið sem er í gíraffatöskunni sem hann þarf alltaf að hafa meðferðis. Við erum því í því að halda Tryggingastofnun ríkisins bissý við að halda uppi lyfsölum. Það er ótrúlega notalegt að vita til þess að skattpeningarnir fari í eitthvað nytsamlegt þegar maður þarf á því að halda. Lyf eru ekki ókeypis, svo mikið er víst. Þó maður kvarti yfir þessum prósentum þegar allt er í key-i, þá finnur maður verulega fyrir því þegar eitthvað bjátar á og maður sér afsláttarprósentuna á lyfjareikningnum eða hjá læknum.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-02-18
Meiddur með kuldaofnæmi...
Bara af því að manni er þetta hugleikið... drengurinn klemmdi sig í dag á skúffu inn í eldhúsi. Ekkert alvarlegt en það var grátið... hvað haldið þið að ég hafi gert? Jú ég skrúfaði frá kaldavatninu og ætlaði að láta renna á meidda puttann... Þið hefðuð átt að sjá svipinn á frúnni þegar ég var við það að stinga hendinni á drengnum undir kaldavatnsbununa (sjæse)!!! Þá hrökk ég til og fattaði að ég má ekkert gera svona lagað, drengurinn er með ofnæmi fyrir kulda. Hann hefði líklega bólgnað allur upp... Það verður þá ekki auðvelt að höndla íþróttameiðsl framtíðarinnar (auðvitað verður það að vera innisport nema ef vera skyldi atvinnumennska á suðrænum slóðum).
Af þessu leiðir að ég þarf að fara að huxa!
Annars eru tilraunir hafnar á útiveru. Drengurinn fékk að fara út í 15 mínútur undir eftirliti í gær og aðrar 40 mínútur í dag. Ekki sást á honum nokkur blettur enda var hátt í 8 stiga hiti og logn báða dagana. Við vitum það þá að hann þolir 8 stiga hita og logn, þó það sé blautt, í allt að 40 mínútur.
Svo veit maður ekki meir... þetta er svo skrítið... hann var í sturtu í morgun og ég hleypti honum fram berrass eftir þurrkun. Það finnst honum gaman (hverjum finnst það ekki gaman?). En hvað haldiððði, jú það komu á hann blettir sem ekki er hægt að rekja til annars en kælingar á kroppinn. Sennilega ekki verið nægjanlega vel þurrkaður hjá mér áður en ég hleypti honum fram og kælingin við uppgufunina verið nóg til að kalla fram væga bletti. Ég ætlaði ekki að trúa þessu og í annað sinn þann daginn fékk ég svipinn frá frúnni (sjæse)...
Af þessu leiðir að ég þarf að fara að huxa meira!
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2007-02-16
Veturinn búinn?? Get ekki beðið...
Viðburðarík vika að baki og maður er gjörsamlega búinn áðí. Allt sjokkið í kringum ofnæmislostið, framkvæmdir fram á rauðar nætur, ekkert sofið og reynt að standa sig í vinnunni, atvinnu og húsnæðisleit í Afríku ofl. ofl. Svona er þetta bara stundum hjá sumum og oft hjá mér, það gerist allt í einu... þetta mjatlast ekki inn heldur bomsar allt í einu í andlitið á manni.
Framhaldið hjá drengnum í gær var þannig að eftir 2,5 klst læknisheimsókn fór hann í leikskólann alsæll. Fékk bara að vera inni, en það var allt í lagi. Svo þegar hann kom heim fékk hann nýtt lyf, hálfa töflu af einhverju rosa ofnæmislyfi... heyriði... gaurinn steinsofnaði kl 18:00 og vaknaði ekki fyrr en 07:00 í morgun. Við héldum reyndar að eitthvað væri að og töluðum við lækninn sem hélt að allt yrði í lagi, við skyldum þó ekki gefa honum meira af lyfinu og fá eitthvað annað í dag og við réðum því hvort við færum með hann niður á spítala en að öllum líkindum yrði þetta allt í góðu. Sem það var, enda andaði hann alveg eðlilega og var ekki með neinar skrítnar hreyfingar þarna í gærkvöldi. Það er gott að vita af þessu lyfi í skápnum ef hann fer að sofa illa á nóttunni aftur (hehehe).
Fyrsta útivistarvandamálið kom upp í gær rétt rúmlega 17:00 þegar stelpan vildi fara út í göngutúr með gamla. Auðvitað vildi gaurinn koma með - og hvað á maður þá að segja? Allaveganna, fyrst orgaði hann af því að hann mátti ekki koma með, svo orgaði hún af því að ég var búinn að 'lofa' göngutúr... á endanum laumuðumst við út en hann var ekki par kátur með okkur þegar við komum heim aftur. Þetta er ekki hægt.
Svo þarf að hanga inni alla helgina og það hefur aldrei verið jafn spennandi að fara út og akkúrat núna - merkilegt. Við getum farið að gera tilraunir með útiveru og hitastig á sunnudaginn. Það verður eins og að hleypa kálfum út á vorin held ég. En maður þarf að vera viðbúinn að taka drenginn inn með valdi ef ofnæmissvörunin fer af stað...
Ég get ekki beðið eftir því að þessum vetri ljúki!!!
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2007-02-15
Kuldaofnæmi - staðfest!
Segi það satt... við fengum staðfestingu á því í morgun að drengurinn er með kuldaofnæmi. Verið er að vinna frekari próf til að finna út hvort um fleiri ofnæmis-týpur er að ræða en allaveganna kuldaofnæmið er komið til viðbótar við eggin, lecithin-ið og kettina. Nú vonar maður bara að þetta verði nú ekki mikið meira.
Hvað gerir maður þegar barnið mans greinist með kuldaofnæmi? Hvernig útskýrir maður fyrir 3ja ára gömlum hasarbolta að hann megi ekki fara út að leika í snjónum? Á hann svo bara að vera inni 6-8 mánuði á ári? Ég er ekki að grínast, hvernig er fasteignaverðið í Afríku? Eru þið með betri hugmyndir? Kannski S-Evrópa (Afríka er kannski full drastískt)? Þá þarf hann kannski ekki að vera inni nema 1-2 mánuði? Hann þolir þá líklega ekki heldur að svala sér í köldum sundlaugum á suðrænum slóðum... Hvað ef hann greinist nú með frjókornaofnæmi líka eða ofnæmi fyrir einhverjum skordýrum... Hvert á maður þá að fara?
Sem betur fer eru nú ekki margir mánuðir eftir af þessum vetri og maður hefur einhverja mánuði til að hugsa þetta betur. En á meðan verður hann bara inni...
Svo veit maður ekki hvort þetta eldist af drengnum eða hvenær og hvað þá hversu kalt má vera úti svo hann þoli það vel. Við verðum bara að 'prófa' okkur áfram í því. Einmitt. 'Komdu kallinn, nú er ekki frost. Við skulum athuga hvort þú þolir +2°...'
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Það er ekkert komið í ljós varðandi ofnæmislostið sem drengurinn fékk á föstudag. Hann var hress alla helgina og prófið sem gert var á mánudaginn leiddi ekkert nýtt í ljós. Hann á að fara til sérfræðings á morgun og vonandi kemur eitthvað út úr því. Auðvitað þarf að taka blóð og gera einhverjar tilraunir sem geta tekið einhvern tíma en vonandi ekki langan því það er ekki gott að hafa ekki óyggjandi sannanir fyrir því sem er að gerast.
Á mánudag fór hann í leikskólann og undir sömu kringumstæðum, úti að leika, fékk hann útbrot og var strax tekinn inn. Sem betur fer var hann hress og lenti ekki í losti eða öndunarörðugleikum. Í gær var mamma hans með honum allan daginn í leikskólanum til að fylgjast með og viti menn, úti að leika og fékk útbrot. Hann var að sjálfsögðu rifinn inn og var hress allan tímann. Eftir leikskóla fór mamma hans með hann út að leika til að kanna hvort þetta gerist annars staðar en á skólalóðinni til að útiloka að það séu einhver efni (kattahland - hann er með venjulegt kattaofnæmi) á lóðinni sem eru að valda þessu. Jú hann steyptist út í útbrotum líka út í garði hjá okkur.
Af þessu drögum við helst þá ályktun að drengurinn sé með ofnæmi fyrir kulda. Fyrst var þetta sett fram í gríni, annað hvort að hann hefði ofnæmi fyrir álverinu búandi í Hafnarfirði eða að hann væri með ofnæmi fyrir kulda búandi á Íslandi. Það er auðveldara að flytja úr Hafnafirði en frá Íslandi... Málið er bara að þetta er ekkert grín. Kuldaofnæmi er til sbr. eftirfarandi klausu úr læknablaðinu (vonandi virkar linkurinn http://www.laeknabladid.is/2002/7/fraedigreinar/nr/192/) 'Kuldaofnæmi getur hæglega valdið dauða ef ekki er farið varlega, það nægir jafnvel að drekka kalda drykki, stinga sér til sunds í kalda laug eða fara út í mikinn kulda.'
Hvað er til ráða? Maður bara spyr sig... hvernig ætli fasteignaverðið sé í Suður Afríku? Við skulum sjá til hvað sérfræðingurinn segir (sem reyndar er einn höfunda greinarinnar sem vitnað er í).
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2007-02-12
Sjokkið...
Það er ekki góðs viti að fá símhringingu frá leikskólanum. Börnin eru þá nær örugglega búin að næla sér í einhverja pestina og sá dagur og væntanlega næstu dagar fara í það að hlúa að skinnunum.
Á föstudaginn fengum við hjónin símhringingu frá leikskólanum. Drengurinn var í ofnæmislosti. Hann er með bráðaofnæmi fyrir eggjum og öllu sem inniheldur egg og þarf stöðugt að vera með adrenalín penna við hendina. Hann hafði fengið útbrot og átti í öndunarörðugleikum svo það var búið að hringja í sjúkrabíl og læknir á leiðinni. Konan brunaði suðreftir og náði sjúkrabílnum og fór með honum inn á barnaspítala þar sem ég hitti þau. Aumingjans drengurinn var náfölur og búið var að stinga í hann nál sem stóð út úr handleggnum á honum sem notuð var til að gefa honum lyf/stera og taka úr honum blóð. Hann var svo lítill og máttlaus greyið og hann varla sýndi nokkur viðbrögð. Honum hefur væntanlega brugðið allt umstangið ofan á það að vera fárlasinn. Það er ekki góð tilfinning að sjá barnið sitt liggja svona hjálparvana og ólíkt sjálfu sér inni á læknastofu. Eftir smá tíma fór hann þó aðeins að taka allt og alla í sátt og við reyndum að lesa Lúlla. Eftir um klukkustund fengum við að fara inn á stofu og fengum sjónvarp, rúm, sófa og stóla og gátum látið fara vel um okkur. Það voru nú ekki merkilegar video-spólurnar sem fylgdu sjónvarpinu en við létum okkur hafa það að horfa á Kærleiksbirnina 'The Movie' - tvisvar! Drengurinn braggaðist og var farinn að vera ansi fyrirferðamikill og vildi hreyfa sig þegar líða tók á sjúkrahúsvistina. Það var ekki hægt því hann var tengdur við einhverja rita sem einhver var að fylgjast með þó ég hafi nú ekki fengið neina skýringu á því eða séð neinar niðurstöður úr ritanum. Drengurinn er venjulega fyrirferðamikill og vill hafa hasar í kringum sig og átti því erfitt með að vera kjurr þegar hann fékk kraftinn aftur. Í ofanálag fékk hann stera við ofnæmiskastinu og þeir virka örvandi þ.a. hann var á tvöföldu ralli. Þegar við svo vorum að undirbúa brottför komu fleiri til að vera í herberginu sem við höfðum haft afnot af... hvað haldið þið að hjúkrunarfræðingurinn hafi sagt þeim sem hann sagði okkur ekki? 'Hérna í skápnum er svo fullt af video spólum ef þið viljið horfa...' - ARGH og ég búinn að sjá Kærleiksbirnina tvisvar sinnum of oft!
Allt endaði þetta vel og drengurinn náði heilsu þó hann og aðrir fjölskyldumeðlimir hafi verið hálf dasaðir í lok dags. Það versta við þetta var að það er ekki vitað til þess að hann hafi verið að borða eitthvað með eggjum þegar þetta kemur upp, þ.a. við þekkjum ekki ofnæmisvaldinn. Drengurinn var síðan hress alla helgina og fór í leikskólann í morgun þar sem vel var tekið á móti honum. Við hjónin áttum gott samtal við starfsfólkið á leikskólanum og þvílíkar hetjur sem þau eru í okkar augum. Við eigum þeim allt að þakka fyrir að fylgjast svona vel með honum og bregðast við eins og best var hægt að ætlast til.
Núna í hádeginu er konan að fara að sækja drenginn því hann er kominn með flekki, ekki öndunarörðugleika en flekki. Hann hefur ekkert borðað en fór út að leika. Það er eitthvað þarna úti sem hann er ekki að þola. Vonandi finnst það fljótt því við getum ekki haldið honum inni eins og 'Bubble-boy'
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)