2007-01-05
Loksins, loksins, loksins...
Segið svo að maður sé ekki heppinn í svona lottó-um...
Þannig er að ég hef tilheyrt hópi góðra vina sem hafa hist hvern einasta fyrsta föstudag hvers mánaðar í að verða 3 ár til að halda rauðvínslottó. Hópurinn hefur rokkað frá 6 til 8 þátttakendum hvert sinn og í dag vann ég í fyrsta skipti!!!
Í alvöru talað þá er erfiðara að vinna ekki en vinna einusinni í þau örugglega 30 skipti sem dregið hefur verið en mér tókst það samt... þar til í dag... þvílík snilld!!!
Gamla sigurvíman lagðist yfir mig... þetta er svo góð tilfinning að ég er að spá í að einbeita mér í því að vinna oftar í þessu lottó-i
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég get ekki lengur titlað mig sem faðir Spiderman-s... en í staðinn þá er ég orðinn faðir Superman-s. Drengurinn fæst ekki til að vera í öðrum leikjum en Superman-leikjum og hann tollir ekki í öðrum fötum en Superman-náttfötunum sínum. Í gær skapaðist neyðarástand á heimilinu því Superman-náttfötin voru skítug og lengst ofaní óhreinatauskörfunni... drengurinn rótaði á öllum þeim huxanlegu stöðum sem náttfötin geta verið geymd, í kommóðunni sinni, fataskáp systur sinnar og skiptitöskunni sem oftar en ekki geymir náttföt, en án árangurs. Móðir hans tjáði honum þá að fötin væru í þvotti... minn skreið þá inn í þvottavélina og inn í þurrkarann og sturtaði loks úr óhreinatauskörfunni og fann fötin. Það er ekki að spyrja að leikslokum... minn maður 'flaug' ánægður um húsið í náttfötunum frá því kl. 16 í gær.
Glómagnaða er svo systir Superman-s sem gerir mig að föður hennar líka. Hún flýgur ekki og hún klifrar ekki af jafnmiklu öryggi og Superman (áður Spiderman) bróðir hennar. Á móti kemur að hún kann alls konar 'kún-fú' listir sem eru stórhættulegar þeim sem eru inn í sama herbergi.
Ofurhetjur heimilisins halda manni við efnið...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Nú árið er liðið... og aldrei það kemur til baka.
Síðustu dagar eru búnir að vera snilld. Um helgina var mikið húllumhæ í litla kotinu þar sem saman komu allflestir vinirnir (þeir sem áttu heimangengt á annað borð) og borðuðu góðan mat og skröfuðu fram á nótt. Uppátækið heppnaðist frábærlega þ.s. undirbúningi var haldið í lágmarki og fenginn var kokkur til að elda og sörvera til borðs. Reyndar svolítið skrítið að eiga von á gestum og sitja bara og bíða eftir þeim á meðan ókunnug manneskja stendur yfir pottunum. En skemmtileg tilbreyting...
Síðan var hamast við að gera allt klárt morguninn eftir fyrir gamlárspartýið. Þegar allt hafði verið skúrað út var farið í það að stilla upp útsýnispöllunum á planinu. Borð og stólar og allt tilheyrandi. Mikið er af krökkum í götunni svo það var byrjað snemma að fíra skoteldum eða um 20:30. Stanslaust var látið duna á himninum fram að skaupi og haldið áfram fram yfir miðnætti eftir pásu. Gestir og gestgjafar úr nærliggjandi húsum komu og skutu með okkur og myndaðist rosalega skemmtileg stemmning á planinu. Vonandi er þetta komið til að vera...
Nýársdagur var svo tekinn í leti og heilsubótargöngur og meiri leti - alger snilld.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-12-28
Hvað er svona mikið frí við þessi jól??
Jæja þá er þetta að mestu komið. Jólin haldin hátíðleg og mikil gleði ríkti hjá litlu fjölskyldunni. Annars var ég nú meira að hugsa til baka þegar jólin og dagarnir þar í kring voru endalaus og áhyggjulaus frí. Maður mætti bara, borðaði, lagði sig, las, spilaði, hlustaði á góða tónlist og setti saman einn og einn legó-kastala. Þetta er bara ekki svona. Núna er þetta þannig að við erum á endalausum spretti, mæta í boð, bjóða heim, kaupa inn, elda mat, baða liðið, taka til og skúra, strauja og pakka inn. Ég verð að viðurkenna að þó að jólahátíðin hafi dottið skemmtilega inn á vikudagana upp á frí frá vinnu að gera þetta árið, þá hef ég sjaldan verið þreyttari en eftir þessa helgi. Alla dagana fjóra var einhver dagskrá og ekki var einn einasti dagur sem fór í það að liggja í náttfötunum í leti uppí sófa, horfa á góða mynd eða lesa betri bók. Líklega hefur einhver annar í fjölskyldunni séð um allan ofangreindan undirbúning og frágang þegar ég var yngri og leyft mér að liggja upp í sófa - plús það að vera í skóla er snilld milli jóla og nýárs.
Næst eru það áramótin. Það er nú bara eitt partý (að því gefnu að ekki verði farið í galadinner á nýárskvöld). Reyndar verður hálfger galadinner þann þrítugasta heima í kotinu en meira af því síðar... eða ekki.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 10:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2006-12-22
GJ
Ég óska ykkur hér með, öllum sem einu, gleði og friðar fram yfir helgi.
Minni á keppnina, 1.000asti lesandinn - verðlaun í boði fyrir þann sem kvittar - væri sterkt að taka líka skrínsjott af brásernum og senda með svona til frekari staðfestingar...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-12-21
Spiderman er hræddur við jólasveininn!
Ég komst að því í gær að Spiderman er hræddur við jólasveininn. Þannig er mál með vexti að sonur minn er Spiderman. Hann hefur haldið þessu fram í nokkurn tíma núna og ég er farinn að trúa honum enda getur drengurinn ekki verið kjurr og prílar upp á allt og yfir allt (og alla). Í gær kom svo jólasveinninn hann Hurðaskellir færandi hendi með jólatréið okkar. Spiderman sturlaðist úr hræðslu og hljóp upp á næsta sófa og upp í glugga... þar sat hann og gat fylgst með Hurðaskelli úr öruggri fjarlægð innan við rúðuna...
Hvað jólatréið varðar þá er ég greinilega ekki með víddarstillingarnar rétt prógrammeraðar í hausnum á mér. Ég fussaðist og skammaðist yfir því að skátarnir skildu ekki eiga hærri og stærri tré um daginn og endaði á að kaupa það stærsta sem þeir þó áttu. Fannst það súrt að öll stóru tréin væru seld. Þetta stefndi í að við yrðum með minna tré en í fyrra og það þótti mér miður. Eins og áður segir þá kom það í gær og til að gera langa sögu stutta þá hef ég tæpa 2 cm til að koma stjörnunni fyrir á toppnum... Tréið er ekki minna en í fyrra.
Þ.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
2006-12-20
Eru menn ekki að vinna?
Ég keyri annað hvort framhjá Kringlunni eða Ikea og Smáralind á leiðinni í vinnuna - og heim aftur - og stundum um miðjan dag vegna vinnu. Málið er að bílastæðin við þessar miðstöðvar eru alltaf full. Það er alltaf stappað. Ég hef líka, þrátt fyrir óbeit mína á þessum stöðum, þurft að erinda þarna og því verið á einhverjum tímapunkti einn af þessum bílum í stæðinu. Ástandið er verra innandyra. Mann við mann við búð við búð. Ég hélt að ástandið væri kannski betra á miðjum degi því þá væru flestir í vinnu. Konan mín afsannaði það þegar hún fór í Kringluna á mánudaginn. Hún vildi meina að Íslendingar væru ekki að vinna á mánudögum (allaveganna ekki mánudaginn fyrir jól). Milli kl. 13 og 14 var Kringlan full. Tekur fólk sumarfrí til að versla jólagjafir eða eru þetta kannski allt saman kennarar eins og konan mín sem er komin í frí?
En þetta hefur verið svona í mánuð. Þetta er ekkert að byrja núna í vikunni fyrir jól. Hvað geta menn skoðað og/eða verslað mikið fyrir pakkadaginn mikla? Ég er alveg á því að til að halda geðheilsunni og orku til að sinna restinni af jólaundirbúningnum og komast í jólaskapið, þá er eina leiðin að vera búinn að ákveða hvað á að kaupa, finna hvar hægt er að kaupa það og fara þangað og kaupa það. Ekki fara á alla 5 staðina þar sem viðkomandi hlutur er seldur til að kanna besta verðið því það munar ekki svo miklu - hins vegar getur þú eytt heilum degi í verðkönnun hvers hlutar fyrir sig en það kostar endalaust ráp í mannþröng og krakkaöskri og bílastæðavandræði.
Ég sakna þess tíma þegar maður gat afgreitt þetta allt saman á Laugarveginum á Þorláksmessu. Labbandi um í góðra vina hóp og þurfa bara að hafa áhyggjur af því að kaupa bók handa mömmu, hanska handa pabba og eitthvað sætt handa kærustunni... og svo auðvitað eitthvað handa mér sjálfum frá jólasveininum...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-12-19
Hver verður númer 1.000?
Teljarinn á síðunni nálgast 1.000 einhverra hluta vegna...
Ef þú ert númer 1.000 þá væri gaman að fá kvittun á síðuna... vegleg verðlaun í boði, jafnvel jólasería eða miði fyrir einn í sund...
Reyndar verð ég að setja spurningarmerki við þennan teljara því mér sýnist hann telja mig stundum tvisvar á dag... ef ég er eitthvað að róta í stjórnborðinu eða er að hressa við síðuna með nývistuð gögn... engar sannanir... bara finnst það.
Þ.
e.s akkúrat núna gerðist það ekki :-) týpískt - hehehe
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-12-18
Jólaundirbúningur í fullum gangi...
Það er mikið að gera á litlu heimili... örugglega jafnmikið og á stóru ef ekki meira. Mikið er lagt uppúr því að gera allt klárt fyrir jólin og enn meira lagt uppúr því að koma öllum í rétta jólaskapið. Málið er bara að þetta tvennt helst eiginlega ekki vel í hendur vegna þess að eftir því sem maður undirbýr meira, því minni tíma hefur maður og eftir því sem maður hefur minni tíma, því stressaðari verður maður og því stressaðari sem maður verður, því fúlari verður maður í skapinu og þegar maður er orðinn fúll þá er erfitt að finna jólaskapið. Maður verður því að finna hinn gullna í þessu sem og svo mörgu öðru.
Undirbúa mátulega þ.a. nægur tími sé til að komast í jólaskapið. Það er ekki hægt að sleppa undirbúningnum alveg því margt í honum er forsenda þess að komast í jólaskapið. Það þarf að kaupa gjafir handa öllum, það þarf að vera tiltölulega hreint heima fyrir, það þarf að vera búið að setja upp nokkrar seríur svo dæmi séu tekin... það þarf hins vegar ekki að hanga í Smáralindinni til 22 öll kvöld, það þarf ekki að baka 11 sortir í tímastressi (alltíkey ef nægur tími er), það þarf ekki að mála barnaherbergið... jólin koma þó við gerum þetta ekki.
Svo má ekki gleyma sílunum... þau eiga nú að njóta þess að vera spennt og þau eiga að njóta þess að skreyta og mála piparkökur. Það er ekkert gaman ef það þarf að gera það allt saman á 10 mínútum af því að pabbi þarf að flýta sér í Kringluna og kaupa eitthvert drasl. Það er heldur ekki eins gaman ef mamma og pabbi 'þurfa' að undirbúa allt saman og sílin fá ekki að vera með og fá það bara á tilfinninguna að þau séu fyrir. 'Æ - farðu bara að horfa á Pétur Pan eða eitthvað, ég þarf að klára að undirbúa'... hvað heldurru að það sé gaman svona rétt fyrir jólin?
Ef það er eitthvað sem þú getur ekki gert með krakkana hangandi yfir þér - uppfull af hjálpsemi - gerðu það þá þegar þau eru farin að sofa. Annars mæli ég með því að virkja sílin í hin ýmsu störf, þó það sé ekki annað en að halda á seríublöðkunum, eða rétta þér jólakúlurnar sem þú ert að hengja út um allt hús, sækja kaffi (mjög gott fyrir 6-10 ára) og svo sérstaklega hafa þau gaman að því að skreyta jólatréið. Ef skrautið fer ekki hærra en 110 sm. þá er það allt í lagi... það má hafa það þannig eða laga það þegar börnin eru farin að sofa...
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2006-12-13
Afhverju eru ekki 365 jólasveinar?
Hvað gerði það til þó við ættum 365 jólasveina? Við eigum pottþétt flesta jólasveina af öllum í heiminum og hvað gerir það til þó við myndum fjölga þeim aðeins... uppí 365 t.d.?
Það er nefnilega þannig að börnin mín eru aldrei stilltari en frá 11 des. til 24 des... Það er alveg sama um hvað maður biður, það er allt gert vöflulaust (er þetta ekki orð?), ekkert væl og suð eftir skóla o.s.frv.
Kannski gætu einhverjir mótmælt og sagt að þá yrði þetta bara vani og ekkert spennandi og börnin myndu ekki kippa sér upp við það að fá stöku kartöflu í skóinn... ég er bara ekki sammála því.
Það er ekki séns að jólasveinarnir muni það að barn hafi verið óþekkt 4 apríl á þessu ári og þ.a.l. þurfi hann að gefa kartöflu í skóinn fyrir jólin. Börn þurfa jú að vera þæg og góð allt árið þó að sveinarnir komi bara síðustu dagana fyrir jól. Það yrði miklu þægilegra ef þeir gætu bara gert þetta jafnóðum. Hvernig meta þeir svo hvort börnin hafi verið góð eða óþæg yfir árið í heildina? Ef þeir geta ekki einu sinni munað hvort viðkomandi hafi verið góður eða óþægur 4 apríl? Eru þeir með eitthvert tölvukerfi yfir þetta? Hvað gerðu þeir þá þegar ég var lítill? Ekki var svo mikið til af tölvum þá... og þær vélar sem til voru á annað borð voru á stærð við Esjuna og ekki séns að þeir hefðu geta haft hana heima hjá sér (fyrir utan að þessar tölvur hefðu ekki einu sinni getað haldið utan um allan þennan lista sem vinna þarf eftir).
Svo er það kartaflan... afhverju eru jólasveinarnir að hafa fyrir því að drösla öllum þessum kartöflum til byggða (fyrir utan að kartöflur eru bara mjög góðar)? Afhverju sleppa þeir ekki bara að gefa óþekktarormunum í skóinn... það er miklu meiri refsing og pokar sveinanna yrðu miklu léttari.
Þ.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)