Hvað er málið með jólaseríur?

Á hverju ári lýsi ég því yfir að ég muni ekki fara í það að reyna finna út úr því hvaða pera er farin í seríunum mínum, heldur henda þeim og kaupa nýjar.

Það er viðhöfn þegar kallinn skellir sér upp á háaloft að sækja seríu-kassana... fyrst þarf að finna þá í kassaflóðinu á loftinu, svo þarf að drösla þeim niður, síðan þarf að greiða úr flækjunni því þó að ég gangi alltaf frá þeim á snyrtilegan hátt þá flækjast þær einhvern veginn yfir árið (skiletteggi). Þegar búið er að leggja undir sig aðra hæðina er stungið í samband, ein í einu. Þetta árið kviknaði ekki á mörgum heilum seríum, nokkrum hálfum en mest kviknaði ekki... EN af því að ég átti perur og gat notað perur úr handónýtum seríum, tók ég þá yfirveguðu ákvörðun um að reyna að laga nokkrar hálfar. Hvað er að mér? Þar fóru nokkrir klukkutímar í að rífa perur úr, setja perur í, rífa perur úr, setja perur í... Að lokum endaði ég þó með einar tvær eða þrjár heilar (heildar sparnaður í krónum undir 1000).

Dýrar spariseríur, með einhverju glingri, eru ekki góð fjárfesting. Þær fara yfirleitt ekki í gang árið eftir. Ég komst að því. Það eru sennilega einu seríurnar sem það borgar sig að leggja vinnu í að skipta perunum út. Ég sat því lengi yfir þessum skrautmunum til að finna út hvernig ég gæti tekið perurnar úr svo ég gæti haft þær með mér í Byko til að kaupa alveg eins. Ég komst hins vegar að því að á öllum spariseríunum mínum eða inn í kössunum (og þá meina ég inn í) stendur 'The lamps are not replaceable' - mikið var ég glaður!!

Svo þurfti náttúrulega að hengja þetta allt saman upp og finna út hvað þurfti að kaupa til viðbótar því það verða að vera seríur í flestum gluggum heimilisins. Til þess nota ég gríðarlega skemmtilega uppfinningu sem sogblöðkur eru. Það var fyrir nokkrum árum sem ég kynntist þessari tækni og hef verið að bæta við mig blöðkum alla tíð síðan. Sumar blöðkurnar eru því komnar til ára sinna... og plastið stökkt eftir geymsluna... svo þegar ég byrjaði að þrýsta plastinu að glugganum brotnaði önnur hver festing... það var ekki til að bæta skap mitt þennan eftirmiðdag.

Jæja upp fóru seríurnar, þ.e.a.s. allar heilu seríurnar, og húsið fylltist seríuljóma. Svo dimmdi. Það slokknaði á þeim, einni og einni. Ertu ekki að grínast í mér? Nú var ég að verða kex... fór að huxa um það þegar ég ákvað að taka þessa yfirveguðu ákvörðun um að henda ekki seríunum og kaupa nýjar... hefði átt að gera það... hefði sparað mér nokkur reiðiköstin og pirring. Fór því í Byko og keypti gommu af seríum.

Ég er því bæði búinn að eyða geðveikum tíma í þetta helv... og ógeðslega miklum pening og er gríðarlega sáttur...

Þ.


Hvað er hægt að éta mikið?

Gott fólk - Góður matur - Gott kvöld - eða allt í himnanna lagi...

Búinn að fara í tvö hlaðborð. Þetta er alltaf svona... annað hvort hefur maður ekkert að gera (nema verkefnalista konunnar) eða það gerist allt á sama tíma. Núna voru það jólahlaðborðin. Vinnuveitendur okkar hjóna ákváðu að hafa þetta föstudag og laugardag.

Föstudagur, mín vinna og geðveikt stöð. Þetta var svona fyrsta alvörukeppnismakalausadjammið í vinnunni. Hlaðborðið stóð vel undir væntingum... verst hvað þessir diskar eru alltaf litlir... og það er eitt... ég skil ekki afhverju kokkarnir sem skera heita kjötið ofaní mann eru svona nískir... það er eins og þeir eigi ekki nóg. Allaveganna ég man ekki eftir að hafa verið í svona partýi þ.s. endalaust var verið að espa menn í leiki. Reyndar var búið að vara mig við að þetta yrði svona samkvæmisleikjahell... hafði þó gaman að.

Laugardagurinn var strembinn. Vakna snemma og fara með sílin í íþróttaskólann og ballet. Síðasti tími hjá báðum fyrir jól og því sýningar hjá báðum og svo er þetta á sama tíma. Hver skipuleggur þetta eiginlega... reyndar gott þegar það þarf að keyra og sækja en ekki þegar það þarf að mæta á sýningar hjá báðum. Svo það dæmdist á mig að taka strákinn í íþróttaskólann því mamma hans fengi taugaáfall ef hún sæi hvað hann er óhræddur við að klifra og hopp og henda sér til og frá. Svo þurfti að jólast og koma krökkunum í pössun því jólahlaðborð í vinnu konunnar var um kvöldið. Það er alltaf jafn gaman og jafn skrítið að fara á viðburði með konunni þ.s. hún kennir við gamla menntaskólann okkar og því hittir maður marga af sínum gömlu kennurum. Allt öðruvísi fólk en kennarar. Þar að auki hittir maður líka suma foreldra vina sinna og eina litlu systur sem er eiginlega asnalegast því þá er maður orðinn gamall. En ekki var maturinn síðri þetta kvöldið og sérstaklega í ljósi þess að það eru 3jár konur sem kenna við skólann sem sjá um allan undirbúninginn og eldamenskuna og það ofan í hátt í 70 manns.

Hvað getur maður étið mikið? Því er ekki auðsvarað... Ég get allaveganna étið rosalega mikið og ef ég vissi það ekki fyrir þessa helgi þá veit ég það núna.

Þ.


Jólaföndur og ný frænka...

Í gær var heljarinnarhúllumhæ í skólanum hennar YR. Spírurnar í foreldratengiliðaklúbbnum voru með jólaföndur fyrir alla nemendur í 1. bekk eða alls um 50 nemendur og ég held að það hafi vantað tvo vegna veikinda. Mæting hefur aldrei verið svona góð í eitt eða neitt í þessum skóla frá því að ég fór að fylgjast með. Foreldrar mættu vel, þó að sumir væru eðlilega einir þá var samt áberandi hversu mörg pör voru á staðnum. Það hafa örugglega verið hátt í 120 manns allt í allt.

Það sem er vont við góða mætingu, sérstaklega eftir nokkrar dræmar, er plássleysi og það að þeir sem eru að undirbúa og kaupa inn hráefni gera ekki ráð fyrir fjöldanum. Föndurefnið var því fljótt af skornum skammti. Allir fengu þó að föndra og ég held að allir hafi verið rokna ánægðir með þetta. Krakkarnir sátu við og máluðu og máluðu og átu smákökur og drukku mis-óholla drykki (sem er önnur umræða). Eftir föndur var kominn galsi í liðið og eins og verða vill fór skríllinn í alls konar hasarleiki og foreldrarnir réðu ekki við neitt. Krakkarnir voru komnir út um allan skóla (höfðum afnot af einni stofu) og mátti sjá einstaka foreldri hlaupandi um á eftir sílunum til að reyna að róa liðið. Hasarinn endaði með því að hringja þurfti á sjúkrabíl þ.s. einn guttinn var búinn að fljúga 3 á hausinn og að mér skilst endað með gat og heilahristing. Munið þið hvernig það var að vera 6 ára? Vonandi var þetta ekki alvarlegt og vonandi fáum við foreldrarnir að vera með fleiri svona kvöld í vetur.

Ánægjulegar fréttir. Þráinn litli frændi og spússa hans hún Berglind, eignuðust stúlkubarn í gærmorgun. Óska ég þeim alls hins besta og vonandi heilsast öllum vel. Frændi lofaði mér að hann skildi senda sms þegar eitthvað gerðist en ekkert hefur orðið af því og fékk ég fréttirnar í gegnum krókaleiðir. Það er eins gott fyrir hann að bjalla á mig þegar hann hefur tíma næst... annars bið ég hann aldrei aftur að hjálpa mér að mála eða flytja!!!

Þ.


Hæ fæv....

Eru þið ekki að kynda mig... Ég hef ekki hlegið svona rosalega síðan ég man ekki hvenær og já gleraugun fóru nokkrum sinnum af því það þurfti að þurrka tárin og já það þurfti að nudda kjálkana og já ég datt í gólfið... BORAT er ástæðan... þessi mynd er ekkert eðlilega hlægileg. Ég er sammála þeim sem sagði mér að það ætti að fangelsa þá sem ekki fara á þessa mynd.

Það endaði semsagt með því að fara í Smáralind um helgina Frown en bara til að fara í bíó... og reyndar skutlaðist ég í Hagkaup á meðan ég beið eftir sýningunni. Ég er að segja það... ef maður hefði haft allt þetta úrval af dóti þegar maður var krakki þá væri maður á hæli... það er ekki nema von að krakkarnir viti ekki hvað þeir vilja eða haldast í leik í meira en 17 mínútur, það er svo mikið í boði. Svo er erfiðara að vera pabbi núna en það var fyrir 20 árum... einmitt af því að það er til svo mikið af dóti sem maður hefði fílað þegar maður var lítill og mann langar í allt... fyrir barnið/börnin auðvitað... eða þannig.

Svo var nú tekinn smá sófi og já ég náði megninu af leik helgarinnar... sem er gott.

Annað sem búið er að gera og það er að koma fiskunum í búrið aftur og búrið er hreint!! jibbí... en ég er nú hræddur um að þeir séu eitthvað lasnir... kemur í ljós hvað þeir tolla, þeir eru vanir að koma til baka - sterkari en nokkru sinni.

Svo var farið í seríumálin. Seríurnar sóttar upp á loft. Öllum stungið í samband. 25% virkuðu alls ekki, 25% virkuðu hálfpartinn en um 50% virtist í lagi. Ég er ekki mikið fyrir að reyna að finna út hvaða pera er ónýt til að geta endurnýtt seríurnar en ef ég á perur þá reyni ég í smá stund. Það versta við þetta eru svona tískuseríur... seríur sem eru rosa flottar og öðruvísi en aðrar, kannski með fígúrum. Málið með þessar seríur er (fyrir utan að þær kosta miklu meira en venjulegar) að það er ekki hægt að skipta um perur... þetta eru kannski einu seríurnar sem maður gæti hugsað sér að eyða tíma og vinnu í að skipta um perur í - en þá tekur maður eftir því að inn í kassanum stendur 'the lamps are not replaceble' - hvað er málið með það? Verð semsagt að fjárfesta í einhverjum ljósum fyrir þessi hjól.

Þ.


Helgi Sig...

Nú líður að því... enn ein helgin framundan. Hvað ætti maður að taka sér fyrir hendur?

  • Skella sér í Ikea kannski? Nei - ætli það - mikið rosalega er það fráhrindandi hugmynd
  • Skella sér í Smáralindina? Nei - sjitt - var settur í það um síðustu helgi og vonandi ekki aftur á þessu ári
  • Skella sér í Blómaval? Nei - vonandi dettur konunni það ekki í hug þessa helgina
  • Skella sér í bíó? Tja - jú það gæti verið gaman - er einmitt að detta á Borat núna á eftir (ath. eftir kl 1700 byrjar helgin á mínu heimili)
  • Skella sér á háaloftið og finna jólaseríurnar - Tja - mér dytti það ekki í hug sjálfum en af því að það er búið að nefna það heima hjá mér þá finnst mér það líklegt
  • Skella sér í að þrífa fiskabúrið? Tja - það er nú kominn tími á það... sjáum til
  • Skella sér í breytingar á húsnæðinu? Tja - þarf að gera það fljótlega - betra núna en 23 des kannski...
  • Skella sér í sund? Nei ég er nú ekki það klikkaður og á sýniþörfinni --- sjitt --- það er sundtími hjá stráknum í íþróttaskólanum --- verð að breyta svarinu í já

Allaveganna - uppi eru hugmyndir og svo er bara að velja úr... mest langar mig að vera heima hjá mér uppí sófa alla helgina en mér finnst afar ólíklegt að af því geti orðið þó að það sé stórleikur í enska á sunnudaginn

Þ. 


Vinnustaðaafmælissúkkulaðikökuhefð

Ég hef í nokkur ár unnið á fámennum vinnustað þ.s. menn voru í djúpum ís ef þeir gleymdu að koma með köku á afmælisdaginn sinn í vinnuna. Ef það gleymdist eða viðkomandi var í fríi eða fjarverandi umræddan dag, var hann lagður í einelti þar til hann gafst upp og drattaðist með kökuna í vinnuna. Dæmi voru um að menn hafi látið sig hafa það að vera eineltir í allt uppundir hálft ár áður en þeir lutu í gras.

Nú kveður við annan tón. Nú vinn ég á fjölmennum vinnustað. Núna er sameiginlegt afmæliskaffi allra sem eiga afmæli í mánuðinum... og þá eru yfirleitt rúnstykki EKKI kökur. Þetta er forkastanlegt. Auðvitað eiga menn að koma með kökur. Ég er meira að segja svo harður að ég vil helst ekkert annað en súkkulaðibombur eða Tiramisu... ekki gulrótarkökur eða eitthvað þaðanaf hollara.

Það gerðist samt í dag. Nafni minn og nágranni í vinnunni mætti með köku. Snillingurinn sá-arna. Á hann þakkir skilið fyrir framlag sitt. Ekki nóg með það að bjóða samstarfsmönnum sínum í kökur, bauð hann okkur hinum líka... já hann vinnur hjá fyrirtækinu sem á fyrirtækið sem ég vinn hjá 100%.

Ég hvet ykkur öll að mæta með kökur á afmælisdaginn ykkar í vinnuna. Þið gleðjið samstarfsfólk ykkar meira með þessu en ykkur gæti órað fyrir og allt í einu eru þið komin inn í alls konar vinsælar brandarapóstgrúppur sem þið hélduð að væru bara orðrómur. Kannski býðst einhver til að sækja fyrir ykkur kaffi stöku sinnum... hver veit...

Þ.


Nú er það svart, allt orðið hvítt...

Ég hélt að þetta gerðist bara í gamladaga. 20-30 cm snór yfir öllu eftir eina nótt og ég á sumardekkjum. Snillingurinn ég ákvað að hafa ekki tíma til að skipta á naglana fyrr en á síðustu stundu. Eins og ég var ánægður með mig í fyrra þegar ég mætti bara fyrsta leyfilega daginn og lét skipta og hlóg að þeim sem dröttuðust ekki til að skipta fyrr en það var komin margra klukkustunda röð fyrir utan verkstæðin... núna var ég í röðinni!

Ég var svo pikkfastur heima hjá mér í gær að dagurinn fór bara í að moka innkeyrsluna, byggja snjóhús og rúlla upp snjókarli með krökkunum (sem er rosalega gaman). Mig minnir að það hafi verið meiri snjór þegar ég var lítill, bæði finnst mér eins og hann hafi verið oftar og meiri/dýpri. Þegar ég horfði svo á son minn reyna að hlaupa um í snjógallanum, vaðandi skaflana upp í mitti þá áttaði ég mig á því að sennilega var ég bara styttri í gamla daga. Þetta er eins og með rokið, þegar maður var yngri þá var ekki svona mikið rok alltaf, en það er sennilega vegna þess að maður var svo lítill að vindhraðinn náði ekki almennilega til manns eins og ágætur veðurfræðingsspekúlant hefur bent á.

Allaveganna, ég er kominn á naglana og við það hefur sjálfstraustið í umferðinni aukist margfalt. Lenti nefnilega í því fyrst í morgun að festa mig á hringtorgi og þurfa að fá 'púss' frá vinveittum en samt óþolinmóðum og síbölvandi vegfarendum. Ég veit alveg hvernig þeim leið og ég veit alveg hvernig þeir huxuðu mér þeygjandi þörfina.

Þ.


The Dude...

Komið að því... nú þarf maður enn og aftur að sýna hæfileika sína í hinni alamerísku íþrótt keilu. Vinnan er á leiðinni í keilu og það eina sem getur komið í veg fyrir sigur minn er að þetta er liðakeppni og þú ræður ekki með hverjum þú ert í liði. Það er líka þannig að þegar vinnustaðir fara í svona geim þá er oft haft söl við hönd og maður getur ekki treyst því að allir í liðinu verði allsgáðir en ég vona svo sannanlega að enginn í mínu liði verði DFS því ég ætla mér sigur.

Ég var svo að huxa í gærkvöldi (sem gerist nú ekki oft) hvaða bíómyndir kæmu upp í hugann þegar keila er annars vegar. Fyrst verð ég að nefna hið stórbrotna meistaraverk 'The Big Lebowski' - þessi mynd er bara snilld... Önnur mynd sem mér datt í hug var 'King Pin' - ekki kannski meistaraverk en hægt að brosa að henni. Báðar þessar myndir gera m.a. gott grín að steríótýpunum sem tengdar eru við keilu og í þeim eru margar ógleymanlegar persónur.

Í kjölfarið á því að hafa í hálfum hljóðum hlegið með sjálfum mér að ákveðnum persónum í þessum myndum, ákvað ég að taka eitt týpuskegg í tilefni dagsins... það á eftir að fleyta mér langt í þessari keppni sem framundan er.

Ákvað í þessu að fletta upp 'Bowling movie' á Google - kom mér á óvart að það eru nú ekki svo margar myndir sem þessu sporti tengjast... og annað sem kom mér á óvart að efst á blaði voru þessar tvær myndir... ég huxa eins og Goggle!!! Er það vont eða slæmt??

Þ.  


Dagur íslenskrar tungu í dag...

Fékk sent meðfylgjandi í tilefni dagsins og datt í hug að skella því á síðuna án leyfis höfunda (enda ekki skráður/-ir) og án leyfis sendanda (enda vill hann örugglega ekki láta nafns síns getið)...

Það er ekki hundur í hettunni... 
Það er ljóst hver ríður rækjum hér...
Þetta er ekki upp í kött á nesi...
Mér er nú ekkert að landbúnaði...
Allt fór afsíðis sem gat farið afsíðis...
Þessi peysa er mjög lauslát...
Þau eiga þvílíka myllu, lifa eins og greifingjar og leika á alls eggi...
Hann sló tvær flugur í sama höfuðið...
Þarna hefði ég sko viljað vera dauð fluga á vegg...
Ég sá svo sætan strák að ég fór alveg fram hjá mér...
Ég var svo þreyttur að ég henti mér undir rúm...
Hann sat bara eftir með súrt eplið...
Og, nú, góðir farþegar, er einmitt fengitími melóna...
Ég hreinlega vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að setjast...
Þar stóð hundurinn í kúnni...
Maður fer í bæinn til að sjá sig og sýna aðra...
Svo handflettir maður rjúpurnar...
Já, fólk núorðið er svo loðið á milli lappanna...
Hún nagaði sig í handakrikann...
Mestu handfarir sem riðið hafa yfir Vestmannaeyjar...
Flísarnar eru miklu varanlegri en allt annað...
Falla á mann tvær grímur...
Hellti upp á eina Pizzu Fauk saman við yfirmann sinn...
Má ég millileggja þetta á reikninginn ykkar...
Erfitt fyrir fólk með skammtímaþunglyndi...
Ég var svo horuð að ég leit út eins og Sóríasissjúklingur...
Það væri nú til að kóróna alveg mælinn...
Eins og að skvetta eldi...
Það gengur alltaf allt á afturendanum á henni...
Sumir taka alltaf allan rjómann...
Getum ekki horft hvort á aðra...
Kannski þykknar í mér pundið...
Þetta var svona orðatækifæri...
Hún á náttúrulega að fá greitt fyrir afturgengið orlof...
Skírður eftir höfuðið á honum...
Flokkast undir kynferðislegt álag...
Það er enginn millivegur á þér...
Við verðum að leggja okkur í spor barnanna okkar...
Fór í klippingu og lét rótfylla á sér hárið...
Hjartað hamaðist í höfðinu á henni...
Sérðu snjóhryllingana...
Kemur seint eftir dúk og disk...
Augun voru alveg risastór við hliðina á höfðinu...
Við verðum að reka okkur vel á...
Ég skal sko troða því niðrí hann...
Reisa sér hurðarás yfir öxlina...
Vissi ekki í hvort skrefið ég ætti að stíga...
Vissi í hvora löppina ég átti að fara...
Málið með vexti...
Vitum aldrei okkar ævi fyrirfram...
Stilla fólki uppfyrir vegg...

Þ.


Nýr fjölskyldumeðlimur

Í gær bættist í hóp íbúa Fífuvalla 25. Forkunnarfagur skrautfugl sem sennilega er kvk. Við feðgar erum því komnir í minnihluta á heimilinu þ.s. fiskarnir eru tveir og ekki nokkur leið að kyngreina þá svo vel sér. Reyndar heita þeir Depill og Guðrún þ.a. það bætir ekki stöðu kk á heimilinu.

En aftur að fuglinum. Hrólfur frændi þurfti að losa sig undan ábyrgðinni og datt í hug að ánafna frænku sinni fuglinn. Auðvitað tóku foreldrarnir sinn tíma í að ákveða hvort af gæti orðið en að endingu var þetta samþykkt. Reyndar hélt ég að þetta væri svona lítill blár páfagaukur, en nei þetta er stærðar fugl í enn stærra búri. Fuglinn virðist líka hálf taugaveiklaður og reynir að bíta allt sem nálægt honum kemur og er ég ekki viss um að aðrir fjölskyldumeðlimir haldi limum á meðan sá nýi venst aðstæðum. Fuglinn fékk heiðurssæti í hillusamstæðu dótturinnar þ.s. hann er vel sýnilegur stórum sem smáum enda vakti hann óskipta athygli drengsins við komuna. YR er alvön umhirðu fiðurfénaðar að eigin sögn, enda hefur hún OFT (einu sinni) passað fugl vinkonu sinnar.

Ég er á leiðinni í dýrabúð til að fá ráðleggingar við uppeldið... þ.e.a.s. á fuglinum...

Reyndar munu fiskarnir græða á þessu líka því við komuna ákvað ég að drífa í því að þrífa búrið - loksins - það er í vinnslu, fiskarnir eru allaveganna komnir í aðra skál þ.a. það er hægt að leggjast í skrúbbið.

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband