Erum við svona spes eða er öðrum alveg sama?

YR var að byrja í grunnskóla í sumar/haust og var mikill spenningur í lofti og ekki síst hjá okkur foreldrunum. Við vorum í því að viða að okkur eins miklum upplýsingum og við mögulega gátum og fengum reynslusögur frá fólki sem við þekkjum og eiga börn í sama skóla. Skólinn er nýr, þetta er annað starfsárið og það fyrsta í nýrri og glæsilegri skólabyggingu. Okkur hefur fundist ýmist ábótavant hvað varðar upplýsingastreymi til foreldra frá kennurum og ekki síst skólayfirvöldum. Við höfum samanburð úr öðrum skóla í sama sveitarfélagi því þar þekkjum við skólastýruna ágætlega.

Ég hef nú áður á þessari síðu blásið um skólamálin og þetta vanstreymi upplýsinga svo ég fer ekki nánar út í það. Núna átti aldeilis að blása til sóknar. Allsherjar kynningarfundur fyrir alla foreldra sem eiga börn í skólanum var haldinn í gær milli 19 og 22. Því miður tókst okkur ekki að útvega yfirsetu fyrir börnin okkar og komumst því ekki bæði... en konan fór (enda hún betri í að viða að sér upplýsingum). Þetta var ágætis kynning þ.s. farið var yfir byggingaframkvæmdir og áætlanir á næstu áföngum, einnig voru ýmis uppeldismál og menntamál rædd og í lokin var farinn kynnisferð um hið nýja og glæsilega húsnæði þ.s. foreldrum var boðið að skoða aðstöðu barnanna til námsins. Auðvitað var baunað á stjórnendur, ýmsum athugasemdum og einnig gagnlegum ábendingum og spurningum. Það versta í þessu öllu saman að mínu viti er að sárafáir foreldrar sáu sér fært um að mæta. Búið var að fá lánaða 100 stóla úr öðrum skólum og gera allt klárt fyrir stærðarfund þ.s. búist var við að flestir hefðu áhuga á þessum efnum og því sem krökkunum þeirra er boðið og ekki boðið en á að vera boðið skv. lögum (fylgir nýjum skólum að mér skilst). Ef ég skildi konuna rétt mættu um 50 fullorðnir á þessa kynningu og það eru yfir 250 börn í skólanum. Það er alveg klárt að þessir 50 eiga ekki 5 börn hver og hvað þá 10 ef gert er ráð fyrir að hjón eða sambýlingar hafi verið á staðnum.

Hvernig getur áhugaleysið verið á svona háu stigi um hvað er að gerast í lífi barnanna þinna. Þau eru í skólanum (flest) frá 08 til 13 eða 14 og svo í gæslu til oftast að verða 17??? Hvað er að ykkur?? Ég vildi að þið hefðuð boðist til að sitja yfir hjá mér svo ég hefði getað farið.

Þetta er ekki einsdæmi því bæði á námsgagnakynningum sem haldnar hafa verið, foreldrakvöldum og nú síðast (þ.e. í síðustu viku og fyrir stóra fundinn sem er umfjöllunarefnið) fyrirlestur Stefáns Karls um uppeldi/einelti. Mæting alveg skelfileg. Skil reyndar að ekki hafi verið sérstaklega vel mætt á SKS því bæði var ekki almennilega vitað um hvað yrði fjallað né að þetta var ekki gagnvirkur fyrirlestur heldur uppistand af teipi sem kostaði inn á - en kommon - annað ykkar getur mætt á viðburði í skólanum (að því gefnu að þið séuð tvö, skiljanlega getur maður ekki tekið þátt í öllu ef maður er einn).

Annaðhvort erum við svona spes, hjónin, að vilja taka þátt í lífi barnanna okkar og fá upplýsingar um hvað þau hafa fyrir stafni og hvernig allt gengur fyrir sig hjá þeim 70% af þeim tíma sem þau eru vakandi en ekki með okkur - eða þið hin eruð kex...

Þ.


Feðradagurinn

Alveg fór þetta framhjá mér þetta með dag feðranna. Fékk að vita það á laugardaginn að ég ætti sunnudaginn. Ég hugsaði mér að sjálfsögðu gott til glóðarinnar, sá fram á að fá að sofa út (þá meina ég alveg þangað til ég vakna sjálfur), fá fullt af gjöfum og sér trídment, leggjast fyrir framan fótboltann og þamba bjór og gúffa snakk... Nei það var skilmisingur...

Reyndar fékk ég að sofa út (ekki þangað til ég vaknaði af sjálfsdáðum)... sem var algert bjútí... en svo þurfti ég að sinna börnum og heimili allan daginn. Ég var í allsherjar tiltekt í barnaherbergjunum og sortera dót sem ekki er lengur í notkun, ég var sendur uppá háaloft og þá þurfti ég náttúrulega að taka til hendinni, ég sá um kvöldmat og margt fleira...

Einhvers staðar heyrði ég líka útundan mér að daginn ættu feður að nota til að vera með börnunum sínum, sem er gott ef þau nenna að horfa á fótbolta. Ég hélt að þetta ætti að vera svona 'frífyrirpabbadagur'... en svo er víst ekki. Svona skilur maður hlutina á mismunandi hátt. En kommon, mæðradagurinn er þannig... þá á að gefa blóm og helst líka dýrari gjafir, senda þær í spa og kokka fyrir þær dinner og ég veit ekki hvað...

Þ.


Taka þátt í könnunum og rannsóknum

Ég er alltaf að lenda í einhverjum úrtökum. Það má ekki hringja í mig en samt er hringt sem mér finnst reyndar alveg svívirða. Svo er maður að fá með sníglapósti alls konar beiðnir um að taka þátt í einhverjum könnunum og rannsóknum. Ég er ekki mjög hrifinn af þessu en gerði undantekningu um daginn.

Þannig er mál með vexti að Hagstofan er að vinna einhvers konar eyðsluvísitölu fjölskyldanna. Mér fannst þetta upplagt tækifæri til að skrá hjá mér sjálfum og fá tilfinningu fyrir því hverju ég er að eyða dags daglega og í hvað ég er að eyða peningunum mínum. Svo var þetta bara einhver tveggja vikna process þ.s. maður þurfti að skrá heildar eyðslu dagsins brotið niður í grófa flokkun og láta kassakvittanir fylgja með tilhanda tölfræðingum stofnunarinnar. Til að loka þessu átti svo að koma heimsókn þ.s. ég yrði spurður 'örfárra spurninga' (þetta var orðað svona) sem tæki nú ekki nema 30-60 mín í mestalagi... svo allt í keyi... ég ákvað að vera með.

Skráningin gekk vel, allt samviskusamlega skráð þær tvær vikur sem könnunin varði. Hins vegar gefa þessar tvær vikur gjörsamlega ranga mynd af eyðslu heimilisins því það var óvenju hart í ári vegna nokkurra stórra pósta sem duttu inn viku og tveim fyrir hana. Það var því mikið étið úr frystiskápnum og lítið aukalega gert á heimilinu og alls enginn óþarfi fjárfestur - sem er óvenjulegt fyrir haldið á heimilinu. En allaveganna allt skráð. Svo hringdi maðurinn sem átti að taka spurningasessjónina og boðaði komu sína 20:30 á fimmtudegi. Kl. 23:00 hringdi ég í viðkomandi því hann var ekki kominn og hafði ekki látið í sér heyra, og las inn á talhólfið hans þau skilaboð að ég gerði ekki ráð fyrir að hann kæmi. Einum eða tveim dögum síðar hringdi hann til baka og baðst forláts (sem ekki er öllum gefið) og boðaði komu sína fimmtudaginn þar á eftir. Nú mætti hann á mínútunni. 30-60 mínúturnar voru fljótar að líða en þá vorum við ekki komnir yfir 25% af efninu... hann klikkaði svo út um 23:00 í gærkvöldi og ég gjörsamlega úrvinda í músarfingrinum og konan búin að endurraða (eða bara raða) öllu heimilisbókhaldi ársins tvisvar. Endalaust verið að krefja mann um alls konar upplýsingar sem maður hefur tregan aðgang að. Sundurliðun á debetkortafærslum síðustu 3 mánuði? Hlutfall bílatrygginga undanfarna mánuði með sundurliðun á hvort er ábyrgð og hvort er kaskó og hvort er með afslætti eða eru allir liðir með afslætti eða hvað er mikill afsláttur á hvoru um sig? Ég var að verða snar... ætlaði að vera búinn um 21 til að ná þættinum mínum, Hell´s Kitchen, eða í síðasta lagi 22 til að ná plúsinu... nei... rétt náði að henda honum út til að koma inn í þáttinn á plúsinu þar sem verið var að kynna úrslitin.

Pirringur - nenni ekki að taka þátt í fleiri svona könnunum - nema fyrir 2 milljónir á mánuði eða meira

Þ.


Uppáhalds...

Ég á nokkra uppáhaldsþætti í sjónvarpi og langaði að deila þeim með ykkur...

  • Hell´s Kitchen - ótrúlegir þættir um fólk sem þrælar vikum saman í eldhúsi í þeirri von að fá að launum stjórnunarstöðu og eignaraðild að óbyggðum veitingastað í Las Vegas. Ég segi það ekki að verðlaunin eru vegleg en svívirðingarnar sem þetta fólk þarf að þola og þrældómurinn sem viðgengst á meðan þættinum stendur er hreint með ólíkindum. Yfirkokkurinn og eigandinn og stjórnandi þáttarins hikar ekki við að ausa yfir þátttakendur úr sinni andlegu öskutunnu í þeim tilgangi að gera fólkið að betri kokkum og stjórnendum. Meiriháttar skemmtun og því miður þá held ég að lokaþátturinn sé á dagskrá Sirkus í kvöld kl 21.
  • Broken News - leikmaður sér ekki hvað er leikið og hvað er raunverulegt en hvort heldur sem er, er gert stólpagrín að fréttahaukum samtímans. Reyndar getur stundum verið erftitt að fylgja öllum atriðunum eftir og klippingar eru rosalega hraðar en ég sá þennan þátt í fyrsta sinn í gær og ég lá í gólfinu. Þættirnir eru á miðvikudögum á RUV.
  • Little Britain - aftur RUV og aftur miðvikudagur. Rosalega eru þetta klikkaðir menn. Kúka og piss húmorinn upp á sitt besta, mikið er lagt uppúr því að gera grín að og lítið úr minnihlutahópum (samkynhneigðum, klæðskiptingum, akfeitum, öldruðum og innflytjendum) og hárfínn eðalbreskur tónn yfir öllu saman. Endalaust hægt að liggja í gólfinu með þetta á skjánum.
  • Örninn - líka á RUV en núna á sunnudögum. Ómissandi hágæða dönsk spenna. Danir eru óneytanlega kúrekar norðursins þegar kemur að gerð spennuþátta og reyndar líka bíómynda... lang-flottastir. Reyndar talar hann ljóta og leiðinlega íslensku en ég fyrirgef honum það því ég fæ spennuna og söguna í staðinn.
  • Rejseholdet - líka danskt og nei ekki lengur á dagskrá... var bara hugsað til þessara þátta þegar ég var að skrifa um Örninn... Betri en Örninn
  • Sigtið - Skjár1. Er ekki viss hvenær þessi þáttur er á dagskrá en ég dett oft inn á hann þegar ég sörfa á stöðvunum mínum. Snilldar þættir á íslensku fyrir Íslendinga. Hver þekkir ekki einn Frímann?

Man ekki eftir fleirum í bili en endilega bendið mér á einhverja þætti sem ég gæti lagst í gólfið yfir, hvort heldur sem er úr hlátri, spennu eða hræðslu.

Þ. 

 


Ekkert merkilegt...

Ekkert merkilegt hefur drifið á daga mína frá síðustu skrifum.

Ef ekkert merkilegt gerist í dag þá verður þetta blogfærsla dagsins.

Þ.


Ættarmót í gæsalöppum...

Laugardagurinn byrjaði eins og all flestir... snemma!! Krakkarnir voru ekki á því að sofa út þ.a. kallinn var kominn á lappir fyrir 06:30. Þau þurftu að fá graut og horfa á 'dabbatíma' og svo þurfti að fá 'seríjós' í skál og einn eða tvo ávexti... Hasarinn byrjaði ekki fyrr en það þurfti að hafa þau til í 'aktivitetið'. Laugardagur er íþróttadagur og ÞL fer í íþróttaskólann og YR í ballet. Börnin eiga þartilgerð dress sem klæða verður uppí sem getur verið hægara sagt en gert þegar keppt er við klukkuna og athyglina sem iðulega er á sjónvarpinu. En það hafðist og allir mættir á réttum tíma. ÞL var við það að stórslasa sig eins og venjulega og eins gott að mamma hans sér ekki um að fara með hann í þessa tíma því hún væri komin á róandi fyrir löngu...

Að lokinni íþróttaiðkun var farin Bónusferð dauðans, tvær kerrur og tveir krakkar. Planið var að fá öll frændsystkyni mín í mat, eða þau sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar við svo loks komum heim var farið í heljarinnar eldamennsku og undirbúning sem gekk vonum framar enda frúin lystakokkur. Við hjónin hömuðumst fram til 19:00 þegar gestirnir áttu að koma. Minn armur fjölskyldunnar er hins vegar uppfullur af tímavélum þ.a. það var ekki sest til borðs fyrr en klukkan var að verða 20:30.

Matarboðspartýið gekk rosalega vel og ég held að allir hafi verið mjög kátir með þetta allt saman. Allaveganna skemmti ég mér konunglega og hlakka til að halda annað boð... eftir ár... eða lengri tíma... það fer eftir því hverju konan lofar ættingjunum.

Þ.


Sparifötin í vinnunni... ekki minn stíll

Stundum er maður tilneyddur að mæta í fínu jakkafötunum, lakkskóm, straujaðri skyrtu og bindi reyrt upp í háls, í vinnuna. Eins og það getur verið gaman að vera vel til hafður þá er þetta ekki alveg minn stíll. Er meira svona 'gallabuxur og bolur' maður... Mér líður hálf kjánalega svona uppstrílaður kl 09 á morgnana en hvað gerir maður ekki fyrir sölumennskuna? Rosalega er ég feginn að þurfa ekki að vera svona upp á hvern dag... reyndar væri ég þá kannski í vinnu þar sem ég fengi 2 millur á mánuði og fyrir þann pening myndi maður kannski láta sig hafa það?? Veit ekki??

En á morgun laugardag er stór dagur. Frændsystkyni mín ætla að koma í mat. Einhverra hluta vegna fannst konunni minni það sniðugt að bjóða þeim að koma í heimsókn. Það var fyrir u.þ.b ári síðan. Við hittumst nú ekki svo oft en þegar við hittumst öll þá er alltaf stöð... og alltaf þarf að minna mann á þetta loforð konunnar... en semsagt það er komið að því og ég hlakka rosalega til.

Þið hin sem ekki hafið fengið innflutningspartý... þið bíðið bara aðeins lengur... það er nú ekki nema rúmlega ár síðan ég flutti.

Þ.


Jólin koma... með FedEx

Já nú er kominn nóvember og alveg ljóst að jólin eru að koma. Fyrirtæki keppast við að auglýsa vörur sínar og þjónustu sem er eins gott svo að maður gleymi nú engu...

Best hefur mér þó fundist auglýsingin frá hraðflutningafyrirtækinu FedEx á Íslandi. Ekki það að ég hafi neitt út á auglýsinguna sjálfa að setja EN afhverju þurfa þeir að auglýsa í byrjun nóvember? Afhverju eru þeir að minna mann á að koma pökkunum í tæka tíð á flutningamiðstöðina hjá sér svo maður sé nú öruggur um að þeir skili sér fyrir jólin? Kommon, þetta er hraðflutningafyrirtæki þ.s. pakkasendingar (venjulegar) eiga í mesta lagi að vera 1-3 daga á leiðinni... alveg sama hvert pakkinn er sendur eða hvenær... Sæi mig í anda fá jólapakka sendann heim til mín um miðjan nóvember og muna eftir að skella honum undir tréð 23. des.

Þ.


Mogga - klúður

Ég hef nú aldrei heyrt um annað eins... ég er svo bit að ég veit eiginlega ekki hvernig ég á að snúa mér...

Málið er þannig að langamma Margrét kvaddi þetta líf í byrjun síðustu viku. Auðvitað þurfti að setja saman minningarorð um þá gömlu og senda á réttum tíma til blaðsins. Vegna tæknilegra örðugleika hjá sumum og lengdar greina annarra, varð að hafa samband við Morgunblaðið nokkrum sinnum í síðustu viku. Fyrir utan að jarðarfarardagur var auglýstur um helgina, þ.a. maður hefði ætlað að allt væri undir kontról - en nei... þeir klúðruðu þessu...

Jarðarförin sem er á morgun, var auglýst í blaðinu í dag eins og hún sé í dag og auk þess voru allar minningagreinar um gömlu konuna birtar í dag (venjulega birt jarðarfarardaginn)... núna er því komið upp vandamál. Skyldmenni og aðrir vinir og velunnarar hringja stöðugt í nánustu aðstandendur til að fá á hreint hvort er rétt... dagurinn í dag eða dagurinn á morgun.

Fólk nennir ekki að standa í svona löguðu á svona tímum. Minningagreina-sessjónin má ekki klikka svona.

Þ.


þessi vika er búin að vera skrítin og sorgleg...

Gullfiskarnir hafa ekki fengið það trídment sem þeir sannanlega eiga skilið. Vegna óvæginna árása óþekktra gróðurtegunda á heimkynni þeirra, hafa þeir dúsað í bílskúrnum undanfarnar nokkuð margar vikur. Húsbóndinn á heimilinu ber fyrir sig tilraunastarfsemi til að ná gróðrinum að mestu úr búrinu. Allaveganna, þeir hafa það skítt í orðsins fyllstu merkingu og nú í vikunni dó Rauðhetta. Rauðhetta verður að flokkast sem ótrúlegt gullfiska eintak því það er ekki eðlilegt hvað hún hefur þolað frá því að hún var 3ja ára afmælisgjöf fyrir rúmum 3ur árum. Nú eru bara Depill og Guðrún eftir, bæði mikið nýrri fiskar. Það er best að karlinn fari að þrífa upp búrið og koma fiskunum aftur á þann stall sem þeir eiga á heimilinu.

Vikan fór mikið til í veikindi Þráins. Hann rauk upp í hita og er byrjaður enn og aftur á penselíni. Aumingja karlinn er búinn að dúsa inni alla vikuna og mis hress. Hitavellurnar gera það að verkum að hann liggur heilu klukkustundirnar eins og slitti í sófanum og horfir á 'Stjúart' en þegar hitinn fer niður, æðir hann um húsið í leit að leik... en því fylgir mikill pirringur því það er ekki stjarnfræðilegur möguleiki á að þessi drengur nái að dekka alla útrásarþörfina innandyra. Hann er þó að skána núna og vonandi verður hann kominn á gott skrið í dag. Það eru mikil veikindi í leikskólanum hans og dæmi eru um deildir sem einungis hafa haft um 25% mætingu alla vikuna...

Mesta sorgin var þó fráfall langömmu Margrétar sem kvaddi þennan heim á þriðjudagsmorgun. Blessuð sé minning hennar.

Þ.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband